Tilkynning frá Prestafélagi Íslands

20. desember 2017

Tilkynning frá Prestafélagi Íslands

Með nýjum sérúrskurði kjararáðs lýkur 12 ára bið eftir endurskoðun á launakerfi presta. Stjórn Prestafélagsins bendir á að leiðréttingin, sem nú er gerð, byggir að hluta á sömu forsendum um launaþróun og þeim sem liggja að baki úrskurðum vegna annarra hópa sem heyra undir kjararáð, meðal annars lækkun launa árið 2009. Mesta breytingin er samt á launakerfi presta og miðar hún að því að gera það skýrara og gagnsærra en verið hefur.

Kjararáð hefur lagt mikla vinnu í úrskurð sinn og er það með öðru skýring á því hve dregist hefur að kveða hann upp. Prestafélagið hefur lagt sig fram um að lýsa því sem felst í störfum presta og biskupa en um eiginlega kröfugerð hefur ekki verið að ræða.

Kerfisbreytingin byggir á því að hvert prestsembætti er nú metið eftir umfangi þess, fjölda sókna, íbúafjölda og ábyrgð sem lýst er í lögum, starfsreglum, reglugerðum og vígslubréfi. Einnig er stuðst við innri samþykkir um þjónustu kirkjunnar og lýsingu á sóknum og öðrum starfsvettvangi presta, sóknarpresta, sérþjónustupresta, héraðspresta, prófasta, vígslubiskupa og biskups Íslands. Óskýrir launaliðir hafa verið felldir niður til einföldunar í þessu nýja kerfi.

Samkvæmt þessum úrskurði hækka grunnlaun og heildarlaun presta mismikið og ekki er hægt að leggja mat á hækkunina fyrr en búið er að raða niður í launaflokka.

Stjórn Prestafélags Íslands telur að nýtt mat kjararáðs á umfangi prestsþjónustunnar muni reynast raunsætt og bindur vonir við að það sé í samræmi við ábyrgð, óreglulegan vinnutíma presta og mikla þjónustu jafnt virka daga sem helga, á hátíðum og ýmsum tímamótum í lífi fólks og samfélags.

Nánari upplýsingar veitir sr. Kristján Björnsson, formaður Prestafélags Íslands og sóknarprestur Eyrarbakkaprestakalls. Sími 856 1592. klerkur8@gmail.com
  • Frétt

  • Skipulag

Hof í Vopnafirði

Laust starf organista

21. des. 2024
...við Hofsprestakall
Jólastemmning í Hafnarfjarðarkirkju

Forseti Íslands á jólavöku kirkjunnar

20. des. 2024
... haldið uppá 110 ára vígsluafmæli Hafnarfjarðarkirkju
Orgelnemendur við Klais orgelið

Börn fengu að að spila á Klais orgelið

19. des. 2024
...jólatónleikar Tónskóla Þjóðkirkjunnar