Alltaf til skiptis!

Nú skiptumst við á: Fyrst þú, svo ég!

Gæðastundir

Kærar þakkir fyrir að koma í sunnudagaskólan með barnið.
Stundirnar í sunnudagaskólanum eru gæðastundir, fjarri
símum, skjám og öðrum snjalltækjum.

Hér kemur lítil hugmynd að gæðastund heima:

Fyrst ég:
Þú felur nokkra hluti undir teppi. Barnið fær að sjá hlutina. Fáið barnið til þess að benda á hlutina og nefna þá með nafni.
Aðstoðið barnið ef það þekkir ekki öll orðin.
Setjið teppið yfir hlutina.
Nú á barnið á að rifja upp hvaða hlutir eru faldir undir teppinu og telur þá upp.
Hrósið barninu fyrir að reyna að rifja upp, sama hver útkoman er. Það er mikilvægt að kunna að taka hrósi.

Svo þú:
Barnið felur nokkra hluti undir teppi og nú fær fullorðni einstaklingurinn að spreyta sig.
(Það má rukka barnið um sambærilegt hrós - það er mikilvægt að kunna að hrósa öðrum).

Þroskaþættir:
Leikurinn tekur á ólíkum þroskaþáttum:
Orðaforða, minni og því að gera til skiptis.
Ef feiri börn eru að leika leikinn þá reynir líka á biðlundina. Það að þola að bíða eftir því að röðin komi að því.
Sá þáttur snýr að félagsfærni ekki síður en það að kunna að gera til skiptis.

Alls konar spil byggja einnig á þeirri leikreglu að það á að gera til skiptis.
Öll börn þurfa að kunna að skiptast á, það er hluti af mikilvægri félagsfærni.
Barnið þarf líka að læra það er bannað að svindla 😉.
Svo þarf líka að kunna bæði að vinna og tapa.
Teppaleikurinn sem nefndur er hér fyrir ofan er einnig góður þegar kemur að málþroska.
Hér þarf að hafa orð á þeim hlutum sem barnið sér.

Kennið barni sem tapar að óska sigurvegaranum til hamingju með sigurinn.
Það má gera það formlega með handabandi.

Dæmi um spil sem leikskólabörn geta spilað:

Minnisspil (memory)
Ólsen Ólsen
Langa vitleysa
Veiðimann
Lúdó

Til minnis:
Spörum skjátímann - aukum gæðastundir.
Leikskólabörn: Hámarksskjátími 60 mínútur á dag.
1.-4.bekkur: Hámarksskjátími 90 mínútur á dag.

https://kirkjan.is/thjonusta/fraedsla/bras-og-brall/alltaf-til-skiptis/