Jafnrétti

Jafnréttisstarf og jafnréttisstefna kirkjunnar á að stuðla að jafnrétti eins og rétt og skylt er í samræmi við líf og boðskap Jesú Krists.

Tvöfalda kærleiksboðorðið, Gullna reglan og Litla biblían eru orð fagnaðarerindisins sem innihalda undirstöðuatriði kristins boðskapar og fela í sér jafnréttishugsjón.
Kirkjan byggir á þeim grunni og skírn inn í það samfélag gerir engan greinarmun á neinum. Kirkjan gegnir þess vegna mikilvægu hlutverki í miðlun þess boðskapar. Því er jafnréttisstefna viðurkenning manngildis og jafnréttis allra jarðarbarna.


Jafnréttisstefna kirkjunnar tekur mið af gildandi jafnréttislögum á Íslandi, nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þar er meðal annars lögð áhersla á að kynjasamþætting sé fest í sessi sem mikilvæg leið til að koma á jafnrétti.

Kirkjan mun byggja á því í starfi sínu og jafnframt er tekið mið af því að þjóðkirkjan er aðili að Alkirkjuráði, Kirknaráði Evrópu og Lúterska heimssambandinu. Samtökin hafa hvatt kirkjur sínar til að jafna hlutföll kynjanna í nefndum og ráðum þannig að þar sitji að minnsta kosti 40% konur og að minnsta kosti 40% karlar.
Jafnréttisstefna kirkjunnar tekur annars vegar til stjórnkerfis kirkjunnar og starfsmanna hennar og hins vegar til starfsemi og þjónustu sem kirkjan veitir.