Jóla, jóla, jóla

Jólasveinadagatal 

Hér framkvæma jólasveinarnir bras og brall hugmyndir

Sjá nánari útfærslu á hugmyndum í texta svæði á síðunni.

Gæðastundir

Kærar þakkir fyrir að koma í sunnudagaskólan með barnið.

Stundirnar í sunnudagaskólanum eru gæðastundir, fjarri

símum, skjám og öðrum snjalltækjum.

Hér koms sex hugmyndir að gæðastundum heima:

19. desember: Skyrgámur

Skyrgámur, sá áttundi...hámaði í sig og yfir matnum gein. Uns stóð hann á blístri og stundi og hrein.

Jólasveinarnir í vísunni eru afar lystugir. Skyrgámur er hrifinn af skyri.
Nú er tilvalið að útbúa jólaskyr:
Gulur matarlitur í skyrið: Englaskyr eða stjörnuskyr í anda jólaguðspjallsins.

Meðan barnið borðar jólaskyrið má segja söguna af englunum sem birtust á himninum þegar litla Jesúbarnið fæddist. Hér má finna slíka sögu.
Svo má líka segja því söguna af vitringunum þremur sem komu auga á skæra stjörnu á himninum: Betlehemstjörnuna . Að sjálfsögðu þarf að miða við málþroska og annan þroska barnsins með hvaða hætti sagan er sögð.

Engla- og stjörnuskyr getur verið gult á litinn. Setjið nokkra dropa af gulum matarlit í skyrið og hrærið vel. Guli liturinn minnir okkur á stjörnuna. Hvít mjólkin er í þykjustunni englamjólk og minnir á hvíta englavængi.
Svo má líka gera jólasveinaskyr. Það er rautt. Setjið nokkra dropa af matarlit í skyrið og hrærið vel.
Hvít mjólkin er í þykjustunni skeggið.

Þroskaþættir:
Barnið vinnur með litina og lærir sögu jólanna meðan það borðar um leið er ímyndunaraflið virkjað auk þess sem skemmtilegur leikur við matarborðið eflir tengsl og ánægju.

20. desember: Bjúgnakrækir

Níundi var Bjúgnakrækir...hann hentist upp í rjáfrin ...á eldhúsbita sat hann..

Bjúgnakrækir hefur verið óttalegur klifurköttur. Það er ákaflega þroskandi að fá að klifra.

Finnið aðstöðu þar sem barnið getur fengið að klifra að vild. Er einhver staður á heimilinu sem leyfir klifur? Það er líka hægt að fara út á leikvöll (skólalóð) og klifra eins og Bjúgnakrækir. Foreldrar spara ekki hrósið og dást að hæfni og hugrekki barnsins um leið og þeir brýna fyrir barninu að huga að öryggi sínu þegar það klifrar.

Þroskaþættir:
Barnið æfir grófhreyfingar og nýtur samvista við fullorðið fólk sem dáist að því. Það styrkir og eflir jákvæð tengsl að fá að vera úti á leikvelli með foreldrum sínum

21.desember: Gluggagægir

Tíundi var Gluggagægir...sem laumaðist á skjáinn og leit inn um hann. Ef eitthvað var þar inni, álitlegt að sjá, hann oftast nær seinna í það reyndi að ná.

Það er náttúrlega mikil ókurteisi að kíkja inn um glugga hjá fólki. En ef við viljum vera jákvæð gagnvart Gluggagægi þá má sjá að hann er mjög athugull og tekur eftir öllu því sem hann sér.

Afhendið barninu eldhúsrúllu eða tóma klósett rúllu. Nú ætlar barnið að búa til kíki. Það má lita kíkinn og ef aðstæður eru til má láta það skreyta hann t.d. með jólapappír sem er klipptur og límdur á rúlluna.

Nú á barnið að leika sér að því að kíkja í gegnum kíkinn og segja frá því sem það sér. Fylgið barninu eftir og endurtakið það sem barnið segir. Hér er kjörið tækifæri til að efla orðaforða og máltilfinningu barnsins með því að endurtaka rétt það sem það segir eða með því að bæta einhverju við.
Dæmi:
Barnið: Mynd.
Foreldri: Já sérðu mynd? Hvað er á myndinni?
Barnið: Ég sé glugga!
Foreldri: En sérðu út um gluggann. Hvað sérðu þar?

Einnig má fara út með kíkinn. Það getur verið skemmtilegt að fara út í myrkrið þegar það er stjörnubjart. Þá getur barnið og foreldrið þóst vera vitringar sem kíkja með kíkinum sínum á stjörnurnar. Kannski sjáið þið stjörnu sem er skærari en hinar stjörnurnar.

Þroskaþættir:
Unnið er með athygli og eftirtekt barnsins um leið og unnið er með orðaforða og máltilfinningu. Um leið nýtur það samvista við foreldri sem hlustar og sýnir því áhuga sem barnið sér.

22.desember: Gáttaþefur

Ellefti var Gáttaþefur, aldrei fékk sá kvef... hann ilm af laufabrauðið upp á heiðar fann...

Margar fjölskyldur hafa það fyrir sið að skera út laufabrauð. Að sjálfsögðu taka börnin þátt í því þegar þau hafa aldur og þroska til.

Gáttaþefur gefur hins vegar líka tækifæri til þess að beina athyglinni að nefinu. Hvar er nefið? Til hvers höfum við nef? Nú getum við þóst vera Gáttaþefur og farið í rannsóknarleiðangur um heimilið. Hvernig er lyktin hér og þar. Er hún alls staðar eins? Það má þefa af öllu. Ef jólatréð er komið upp er upplagt að þefa af því. Eru blóm á heimilinu sem má lykta af? Sýnið barninu viðbrögð: Góður ilmur, við segjum mmmmm. Vond lykt (af ruslinu, tusku, klósetti, táfýlusokkum... ojjjj!) Notið húmorinn. Það má enda þennan þef leiðangur á notalegri samverustund þar sem þið kveikið í lítilli greinigrein og finnið jólailminn sem kemur þegar glóðin brennir sig í gegnum grenið. Gætið að eldvörnum og notið eldfast mót undir greinina. Kennið barninu um leið að það má aldrei fikta við eldspýtur né leika með eld.  

Þroskaþættir:
Um leið og þefleiðangurinn um húsið getur verið fyndinn, hefur hann burði til að vera skemmtileg samvera foreldris og barns. Barnið lærir um þefskynið og eflir athygli sína og meðvitund um umhverfi sitt. Að lokum fær það að njóta rólegrar samverustundar með foreldrinu eða þeim fullorðna sem annast það.

 

23.desember: Ketkrókur

Ketkrókur setur í skóinn í kvöld en hvað ætlum við að gera?
Nú hefur jólaundirbúningurinn náð hámarki og e.t.v. lítill tími til að leika við börnin. Allir eru að gera hreint og fínt fyrir jólin. Kannski er kominn tími á jólabaðið.

Setjið vænan skammt af raksápu í fötu eða plastmál.  Með því að hræra einum dropi af matarlit saman við froðuna er komin fínasta málning. Fáið barninu pensil. Barnið getur verið ofan í baðkarinu eða inn í sturtuklefanum og málað flísarnar með málningarfroðunni.
Þegar barnið hefur málað nægju sína má skola alla sápuna af og ekki spillir að fá að taka jólabaðið í leiðinni.

 Þroskaþættir:
Barnið leikur sér sjálft og fær næði til að dunda sér. Það lærir líka að fara vel með hluti sem til eru af skornum skammti þar sem ekki er endalaust hægt að fá meiri og meiri froðu.

24.desember: Kertasníkir

Þrettándi var Kertasníkir. Hvað getum við gert við kertin? 

Nú er spennan í hámarki. Pakkarnir bíða undir jólatrénu og tíminn ætlar aldrei að líða. Fullorðna fólkið hefur í nógu að snúast. Það er hins vegar mikilvægt að staldra aðeins við í öllum önnunum og gefa barninu ákveðinn afmarkaðan tíma. Tímann má nota í hvað sem er.

Munið að jólin eru hátíð ljóss og friðar. Jesús er ljós heimsins og hann fæddist í litlum bæ sem hét Betlehem.
Í Betlehem er barn oss fætt ...nú skulum við búa til Betlehem:

Efni:
Álpappír.
Tvö glös, ein skál, kubbur...ýmsir hlutir.
Nokkur sprittkerti.
Eldspýtur.

Aðferð:
Bjóddu barninu að setjast í fangið eða bjóddu því að setjast við hliðina á þér.
Leggið glösin og skálina á hvolf á matarborðið. Raðið hlutunum frekar þétt saman.
Breiðið álpappírinn yfir þannig að hann myndi hæðir (þar sem glösin, skálin og dótið er) og lægðir þar sem bil myndast á milli hlutanna. Þetta er borgin Betlehem.
Raðið sprittkertunum hingað og þangað á álpappírinn.
Kveikið á kertunum og slökkvið ljósið.
Segið barninu í afar stuttu máli frá Jesúbarninu sem fæddist í borginni Betlehem.
Leikið svo Betlehemsöguna með barninu.
Spyrjið það: Hvar ætli fjárhúsið sé, þar sem litla Jesúbarnið fæddist?
Hægt er að nota lúdó spilakalla, rúsínur eða morgunkorn til þess að setja vitringana, hirðana, Maríu, Jósef, englana og litla Jesúbarnið á sína staði í Betlehem.

Þroskaþættir:
Barnið tekur þátt í því að búa til Betlehem. Einfaldleiki þess að vera ekki með fyrirfram tilbúin leikföng ýtir undir hugmyndaflug barnsins. Rökkrið og kertaljósin hafa róandi áhrif. Það að leika á þennan hátt við barn eykur tengsl og ró um leið og það eflir málþroska og félagsþroska barnsins. Það að þekkja sögu jólanna telst sem almenn þekking sem allt fólk ætti að kunna.

Til minnis:
Spörum skjátímann - aukum gæðastundir.
Leikskólabörn: Hámarksskjátími 60 mínútur.
1.-4.bekkur: Hámarksskjátími 90 mínútur.

https://kirkjan.is/thjonusta/fraedsla/bras-og-brall/jola-jola-jola/