Haukur Guðlaugsson, fv. söngmálastjóri þjóðkirkjunnar og skólastjóri Tónskóla þjóðkirkjunnar, lést 1. september, 93 ára að aldri.
Haukur fæddist á Eyrarbakka 5. apríl 1931 og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Guðlaugur Ingvar Pálsson, kaupmaður á Eyrarbakka, og Ingibjörg Jónasdóttir, húsfreyja og listakona á Eyrarbakka.
Haukur hóf píanónám 13 ára og lauk burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1951. Hann stundaði orgelnám við Staatliche Hochschule für Musik í Hamborg 1955-1960. Framhaldsnám í orgelleik stundaði hann við Accademia di Santa Cecilia í Róm 1966, 1968 og 1972.
Haukur var tónlistarkennari og kórstjóri Karlakórsins Vísis á Siglufirði 1951-1955 og skólastjóri Tónlistarskólans á Akranesi 1960-1974. Þá var hann einnig organisti og kórstjóri Akraneskirkju 1960-1982 og kórstjóri Karlakórsins Svana. Hann var söngmálastjóri íslensku þjóðkirkjunnar og skólastjóri Tónskóla þjóðkirkjunnar 1974-2001. Þá stóð hann árlega fyrir organista- og kóranámskeiðum í Skálholti í 27 ár.
Á starfsferli sínum stóð Haukur m.a. fyrir útgáfu um 70 nótna- og fræðslubóka fyrir kóra og organista. Hann hélt orgeltónleika víða á Íslandi, í Evrópu og Bandaríkjunum og lék einleik á orgel með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Einnig héldu kórar undir hans stjórn tónleika á Íslandi og víða í Evrópu og í Ísrael. Haukur gerði upptökur fyrir útvarp, sjónvarp og á hljómplötur og geisladiska. Gaf út tvo tvöfalda geisladiska (2011 og 2020) og samdi og gaf út Kennslubók í organleik í þremur bindum.
Haukur hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín, var heiðursfélagi bæði í Félagi íslenskra organleikara og Félagi íslenskra tónlistarmanna. Árið 1983 var hann sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu og árið 2008 hlaut hann Liljuna, sérstök tónlistarverðlaun íslensku þjóðkirkjunnar.
Eftirlifandi eiginkona Hauks er Grímhildur Bragadóttir, f. 1937, bókasafnsfræðingur og kennari. Saman áttu þau Braga Leif, f. 1959, d. 2023, og Guðlaug Inga, f. 1965. Með fyrri eiginkonu, Svölu Guðmunds Einarsdóttur, átti Haukur Svanhildi Ingibjörgu, f. 1954. Barnabörnin eru sjö, barnabarnabörnin tíu og barnabarnabarnabörnin tvö.
Haukur var einstaklega mikill höfðingi þeim sem honum kynntust og mjög eftirminnilegur. Hann fór t.d. flestra sinna ferða á reiðhjóli, löngu áður en það komst í tísku. Á meðan aðrir keyrðu um borð í Akraborgina, þá hjólaði Haukur um borð! Haukur var einstakur mannvinur og hafði mikil áhrif í starfi sínu sem listamaður, söngmálastjóri og kennari. Við minnumst hans í djúpri þökk og virðingu og biðjum Guð að blessa minningu hans.
Fimmtudaginn 16. maí var Tónskóla þjóðkirkjunnar slitið við hátíðlega athöfn í húsakynnum skólans í Hjallakirkju í Kópavogi. Í vetur stunduðu 20 nemendur nám við skólann, þar af einn á Akureyri og einn á Egilsstöðum.
Guðný Einarsdóttir, skólastjóri skólans fór yfir starf skólans í vetur en starfsárið hefur verið mjög viðburðarríkt. Haldin voru nokkur mjög vel sótt námskeið í endurmenntunardeild skólans, nemendur tóku þátt í tónleikahaldi og teknar voru upp tvær útvarpsmessur sem nemendurnir sáu um tónlistarflutninginn í. Við skólaslitin söng Hrafnkell Karlsson, útskriftarnemi og tveir nemendur skólans léku á orgel, þau Gréta Petrína Zimsen og Kristján Hrannar Pálsson sem bæði luku áfangaprófum í vor.
Tveir nemendur luku prófi af námsbrautum skólans. Það voru þeir Árni Heiðar Karlsson sem lauk kirkjuorganistaprófi og Hrafnkell Karlsson sem lauk prófi af kórstjórnar- og söngbraut. Kristján Hrannar Pálsson lauk framhaldsprófi í orgelleik.
Spennandi tímar eru framundan í starfi skólans en á skólaslitunum var sagt frá fyrirhugðum flutningum skólans í Fella- og Hólakirkju þar sem honum býðst betri aðstaða til kennslu og undir bókasafnið. Jafnframt var sagt frá endurskoðun námskrár og námsframboðs við skólann sem í framtíðinni verður aðlagað enn betur að umhverfi almenns tónlistarnáms og endurmenntunardeildin efld enn frekar.
Á meðfylgjandi mynd eru frá vinstri: Laufey Helga Geirsdóttir, fulltrúi á skrifstofu og söngkennari, Guðný Einarsdóttir skólastjóri, Gréta Petrína Zimsen, biskup Íslands frú Agnes M. Sigurðardóttir, Kristján Hrannar Pálsson, Hrafnkell Karlsson og sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir formaður kirkjutónlistarráðs.
Jörg Erich Sondermann, fyrrverandi kennari við Tónskóla þjóðkirkjunnar, andaðist á Höfn í Hornafirði þann 27. mars sl. Jörg fæddist 7. febrúar árið 1957 í borginni Witten í Ruhrhéraði í Þýskalandi. Hann stundaði kirkjutónlistarnám í Tónlistarháskólanum í Herford og Dortmund með aðaláherslu á orgelleik og tók þaðan lokapróf (A próf). Framhaldsnám stundaði hann í Hamborg og lauk einleikaraprófi á orgel árið 1982. Árin 1975–1997 starfaði hann sem organisti, sembalisti og kórstjóri í Bielefeld og Bönen. Árið 1985 þegar liðin voru 300 ár frá fæðingu Jóhanns Sebastian Bachs stofnaði hann tónlistarhátíð er nefnist Westfälische Bach-Tage og stýrði henni í rúman áratug. Hann var vakinn og sofinn yfir því og skipulagði allt sjálfur í smáatriðum. Hann naut þess að fá góð viðbrögð og langt lófaklapp og hafði mikla gleði af því að kynna fyrir öðrum tónlistina sem hann hafði tileinkað sér. Jörg hélt orgeltónkeika bæði í Þýskalandi og víða í Evropu í Hollandi, Frakklandi, Sviss, Austurriki, Póllandi, Rússlandi, Slóweniu, Lettlandi og Finnlandi. Í efnisvali sínu lagði hann mesta áherslu á verk Johanns Sebastians Bachs og Max Reger auk verka núlifandi tónskálda. Á Þýskalandsárunum kvæntist hann tvisvar og á einn son David. Jörg fluttist til Íslands haustið 1997. Um það sagði hann í viðtali „Ég var orðinn fertugur og mig langaði að spreyta mig á einhverju nýju. Ég ákvað að prófa að dvelja hér í tvö ár, en núna er ég búinn að vera hér í 20 ár.“- sagði hann þá. Jörg var organisti við Hveragerðis- og Kotstrandarkirkjur til ársins 2006 þegar hann færði sig á Selfoss og þjónaði Selfosskirkju til ársins 2015. Frá október 2014 starfaði hann einnig við Þorlákshafnarkirkju auk Strandarkirkju og Hjallakirkju í Ölfusi. Hann kenndi orgelleik við Tónskóla Þjóðkirkjunnar 1999–2006 og frá árinu 1998 til 2015 var hann kennari við Tónlistarskólann í Árnessýslu. Hann leysti af sem organisti á Húsavík í eitt ár, 2015-2016, en tók við organistastöðunni á Höfn í Hornafirði í október 2016 og sinnti þeirri stöðu ásamt kennslu við Tónlistarskólann þar til heilsan brást honum á síðasta ári. Jörg hélt fjölda orgeltónleika viða um land. Hann var einnig með mánaðarlegar orgelstundir í Hveragerðiskirkju þegar þann þjónaði þar og þegar hann flutti sig á Selfoss tók hann við Septembertónleikunum sem Glúmur Gylfason organisti hafði stofnað til. Í tilefni af 250 ára ártíð J.S. Bach árið 2000 lék hann öll orgelverk Bachs á mánaðarlegum tónleikum Í Breiðholtskirkju til ágóða fyrir Hjálparstarf þjóðkirkjunnar. Alla ævi hans vöktu sálmabækur áhuga hans, einkum gamlar. Hann átti gríðarlega gott og stórt safn sálmabóka. Minningarathöfn um Jörg fór fram í Hafnarkikju 9. apríl sl. og útför hans var gerð frá Selfosskirkju þann 10.apríl. Hann hvílir í Selfosskirkjugarði eins og hann hafði óskað eftir.
Texti: sr. Kristján Valur Ingólfsson
Jón Þorsteinsson, söngvari og fyrrverandi söngkennari við Tónskóla þjóðkirkjunnar, lést þann 4. maí síðastliðinn. Jón fæddist í Ólafsfirði 11. október 1951, sonur hjónanna Þorsteins Jónssonar og Hólmfríðar Jakobsdóttur, og ólst þar upp.
Ungur hélt hann utan til hjúkrunarnáms í Noregi og hóf söngnám í Ósló árið 1974 en hélt síðan til Árósa þar sem hann nam söng við Det Jyske Musikkonservatorium. Þá lá leiðin til Modena á Ítalíu þar sem hann stundaði nám hjá hinum víðfræga söngkennara Arrigo Pola og um tveggja ára skeið söng Jón, fyrstur Íslendinga, í óperukór Wagner-hátíðaleikanna í Bayreuth.
Árið 1980 urðu þáttaskil á söngferlinum þegar hann fluttist til Hollands og réðst til Ríkisóperunnar í Amsterdam þar sem hann starfaði í rúman áratug, söng þar um 50 einsöngshlutverk og vakti snemma athygli fyrir snjalla túlkun sína á tónlist samtímatónskálda.
Árið 1981 vann Jón fyrstu verðlaun í keppni Konunglega kirkjutónlistarsambandsins í Hollandi. Varð það til að beina áhuga hans og kröftum í auknum mæli að sígildri kirkjutónlist og fyrir túlkun sína á trúarlegri tónlist gat hann sér snemma frægðarorð á meginlandi Evrópu. Ekki síst var tónlistararfur kirkjunnar á ólíkum öldum Jóni hugleikinn eins og tveir hljómdiskar hans með sálmum og trúarljóðum vitna um svo og starf hans með Pólýfónkórnum í Reykjavík á árum áður.
Síðustu þrjá áratugi ævinnar kenndi Jón söng við ýmsa tónlistarskóla á Íslandi svo og Tónlistarháskólann í Utrecht þar sem þjálfun og velferð ungra söngvara af ólíku þjóðerni átti hug hans allan. Á þessum tíma kenndi Jón m.a. við Tónskóla þjóðkirkjunnar og voru margir nemendur sem nutu kennsluhæfileika hans og þekkingar á sálmum og kirkjutónlist.
Eftirlifandi eiginmaður Jóns er Ricardo Batista da Silva.
Texti: Af mbl.is
Kynningarmyndband um nám við Tónskóla þjóðkirkjunnar
Innritun stendur yfir í Tónskóla þjóðkirkjunnar. Námið er mjög spennandi og fjölbreytt og hentar vel þeim sem vilja breiða tónlistarmenntun. Hægt er að stunda námið víða um land. Umsóknarfrestur er til 24. maí. Undir flipanum "Námið" hér á síðunni má lesa um námsframboð og kröfur og nálgast umsóknareyðublöð.
Þann 8. mars munu nemendur og kennarar úr Tónskóla þjóðkirkjunnar ásamt kórstjórnarnemendum úr Listaháskóla Íslands halda Tónskólamessu á Blönduósi. Messan verður tileinkuð minningu Smára Ólasonar, fyrrverandi kennara við Tónskólann. Sr. Edda Hlíf Hlífarsdóttir verður prestur og flutt verður fjölbreytt tónlist þar sem nemendur syngja, stjórna kór, leiða almennan söng og spila undir. M.a. verða fluttar útsetningar Smára Ólasonar á passíusálmalögum en hann stundaði mjög merkilegar rannsóknir á passíusálmunum og lögum við þá úr munnlegri geymd.
Skrifstofa skólans verður lokuð fimmtudaginn 29. febrúar vegna veikinda.
Námskeiðinu Ljómandi léttu lögin sem fara átti fram föstudaginn 1. mars verður frestað fram á haustið.
Dagana 18. og 19. janúar nk. mun Mattias Wager, dómorganisti við Storkyrkan í Stokkhólmi heimsækja Ísland og halda meistaranámskeið í orgelspuna í Grafarvogskirkju. Mattias er mörgum kirkjutónlistarmönnum hér á Íslandi að góðu kunnur en hér er á ferðinni margverðlaunaður tónlistarmaður, frábær kennari og mikill vinur okkar hér á landi.
Námskeiðið verður haldið í Grafarvogskirkju fimmtudaginn 18. janúar kl. 13-18 og föstudaginn 19. janúar kl. 9-15. Mattias heldur tónleika í Grafarvogskirkju á fimmtudagskvöldinu kl. 20 með fjölbreyttri efnisskrá og spuna.
Námskeiðið er haldið í samvinnu Tónskóla Þjóðkirkjunnar og Félag íslenskra organleikara.
Fullt verð á námskeiðið er 25.000 kr.
Verð fyrir nemendur og félagsmenn FÍO er 15.000 kr.
Skráning fer fram á tonskoli@tonskoli.is
Smári Ólason organisti, tónlistarfræðingur og fyrrverandi kennari við Tónskóla Þjóðkirkjunnar lést 29. nóvember, 77 ára að aldri. Smári fæddist í Reykjavík 10. júlí 1946.
Foreldrar hans voru hjónin Bárður Óli Pálsson frá Ytri-Skógum, Austur Eyjafjöllum, f. 27.8.1910, d. 26.4.1986, og Anna Tómasdóttir frá Barkarstöðum í Fljótshlíð, f. 9.3.1905, d. 13.2.1974.
Eftir stúdentspróf frá MR 1967 og einkanám í píanóleik við Tónlistarskóla Íslands fór Smári til Vínarborgar í framhaldsnám við Hochschule für Musik und darstellende Kunst, nam tónfræði, tónsmíðar, hljómsveitarstjórnun, þjóðlög, kirkjutónlist og tónlistarrannsóknarfræði og útskrifaðist með meistarapróf í tónfræðum og tónvísindum árið 1979. Smári vann með náminu, m.a. í fjölskyldufyrirtækinu Jarðýtunni sf. 1959-74. Smári var gestavísindamaður og doktorsnemi við Háskólann í Lundi í Svíþjóð 1991-1994, og nam þjóðfræði við Háskóla Íslands 1993-1997. Hann kenndi við Tónlistarskóla Borgarfjarðar, Tónlistarskóla Akraness og Tónskóla þjóðkirkjunnar 1979-2006 og var yfirkennari skólans 1980-2001. Smári kenndi í Tónlistarskóla Garðabæjar og var yfirkennari og aðstoðarskólastjóri 1984-2001, í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar 2001-2018 og var stundakennari við Félagsvísindadeild HÍ 2001 og 2005. Á sumrin var hann leiðsögumaður og rannsóknamaður á Byggðasafninu í Skógum 2008-2019. Smári var organisti í Lágafellssókn, Seljasókn, Fríkirkjunni í Hafnarfirði, Digraneskirkju og Hveragerðiskirkju. Hann var söngstjóri Kórs Menntaskólans við Tjörnina, Kórs MR, Söngsveitarinnar Fílharmoníu og Karlakórs Keflavíkur. Smári skilur eftir sig fjölda greina og rannsókna, m.a. um tónvísindi og þróun söngtónlistar á Íslandi frá 1589 til samtíma. Árið 2015 komu út eftir hann kórútsetningar við Passíusálma Hallgríms Péturssonar. Smári skilur eftir sig á annað hundrað aðrar útsetningar, frumrannsóknir, hljómdiska og bækur. Smári starfaði í Hjálparsveit skáta í Reykjavík frá 1962 til 1974. Hann var mjög virkur innan Frímúrarareglunnar og var sæmdur heiðursmerki Reglunnar árið 2022.
Eftirlifandi eiginkona Smára er Ingibjörg Styrgerður Haraldsdóttir. Þau eignuðust þrjú börn, Stefán Steinar, Bárð og Önnu Aðalheiði. Smári lætur eftir sig sjö barnabörn.
Útför Smára fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju 18. desember kl. 13.
Jólatónleikar Tónskólans fóru fram 8. og 9. desember. Fyrri tónleikarnir voru orgeltónleikar þar sem fram komu orgelnemendur skólans á öllum aldri og öllum stigum. Á seinni tónleikunum voru kórstjórnarnemendur Tónskólans og LHÍ í aðalhlutverki í stjórnun og kórsöng. Nemendur stóðu sig öll með miklum sóma og við þökkum þeim fyrir þeirra framlag um leið og við óskum öllum nemendum, kennurum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.
Ágúst Ingi Ágústsson lýkur bakkalárnámi í kirkjutónlist frá Listaháskóla Íslands. Útskriftartónleikar hans í orgelleik fara fram í Hallgrímskirkju laugardaginn 25.nóvember kl.17:00.
Á tónleikunum verða flutt verk eftir Vincent Lübeck, Girolamo Frescobaldi, Nicolas de Grigny, JS Bach, Marcel Dupré og Petr Eben.
Flytjendur
Ágúst Ingi Ágústsson
sönghópurinn Cantores Islandiae
Stjórnandi
Ágúst Ingi Ágústsson
Orgelkennari Ágústar í kirkjutónlistarnáminu í LHÍ hefur verið Eyþór Ingi Jónsson en einnig hefur Ágúst fengið kennslu í hljóðfæraleik og kórstjórn hjá Láru Bryndísi Eggertsdóttur, Peter Maté, Guðrúnu Óskarsdóttur, Kjartani Valdimarssyni og Magnúsi Ragnarssyni.
Ágúst lauk kantorsprófi frá Tónskóla þjóðkirkjunnar árið 1998 undir handleiðslu Harðar Áskelssonar en 2008 lauk hann einleiksáfanga við sama skóla þar sem Hörður var einnig orgelkennari hans. Ágúst starfaði sem organisti hjá kaþólsku kirkjunni í Hafnarfirði árin 1993–2000. Hann var stjórnandi gregorskórsins Cantores Iutlandiae í Danmörku árin 2011–2017 og árið 2018 stofnaði hann sönghópinn Cantores Islandiae ásamt Gísla Jóhanni Grétarssyni tónskáldi. Hópurinn leggur áherslu á gregorssöng í verkefnavali sínu en einskorðar sig þó ekki við hann. Fyrir utan tónlistariðkun starfar Ágúst sem læknir.
UMSÓKN UM SKÓLAVIST 2023 - 2024
Hægt er að kynna sér nám við skólann og fylla út umsóknareyðublað með því að smella hér
Einnig má hringja í síma skólans, 856-1591.
MENNTUN / ENDURMENNTUN Meistarnámskeið í baroktónlist
Dagana 16. og 17. febrúar verður haldið meistaranámskeið (masterclass) í barokktónlist! Námskeiðið fer fram í Langholtskirkju kl. 10-13 báða dagana og er á vegum Tónskóla þjóðkirkjunnar og FÍO. Kennari á námskeiðinu er Eyþór Ingi Jónsson, organisti við Akureyrarkirkju en hann er einnig kennari við LHÍ og Tónskóla þjóðkirkjunnar.
Námskeiðið hefst á umfjöllun um franska baroktónlist sem ber heitið: Inégale, skreytingar og registeringar - Er ástæða til að óttast? Þátttakendur spila orgelverk eftir eitthvert hinna fjölmörgu tónskálda barokktímans og Eyþór gefur góð ráð um allt milli himins og jarðar (svo sem raddval, fraseringar og skreytingar). Verkefni mega gjarnan vera hófleg að vöxtum (semsagt ekki löng).
Skráning á námskeiðið er hjá Eyþóri en hann getur einnig aðstoðað með verkefnaval auk þess að útvega nótur: eythor@akirkja.is | 866 3393
Ókeypis fyrir nemendur tónskólans og félaga FÍO.
Jólatónleikar Tónskólans
Jólatónleikar Tónskólans fara fram í Hjallakirkju í Kópavogi föstudaginn 9. desember kl. 18.
Á tónleikunum koma fram nemendur skólans í kórstjórn og orgelleik og flytja verk tengd aðventu og jólum.
Frá jólatónleikum Tónskólans 2019
Mynd: hrenfah
CÉSAR FRANCK 200 ÁRA FÆÐINGARAFMÆLI
Laugardagur 3. desember kl. 12-15 í Hallgrímskirkju.
Í tilefni af 30 ára vígsluafmæli Klais orgelsins í Hallgrímskirkju og 200 ára fæðingarafmælis César Franck heiðra 12 organistar minningu eins áhrifamesta tónskálds orgeltónbókmenntanna með heildarflutningi orgelverka tónskáldsins.
Þetta er í fyrsta skipti á Íslandi að öll orgelverk César Francks eru flutt í heild.
Tónleikarnir eru í samstarfi Tónskóla Þjóðkirkjunnar og Hallgrímskirkju
Flytjendur: Björn Steinar Sólbergsson, Erla Rut Káradóttir, Eyþór Franzson Wechner, Friðrik Vignir Stefánsson, Guðný Einarsdóttir, Kári Þormar, Kitty Kovács, Kjartan Jósefsson Ognibene, Lára Bryndís Eggertsdóttir, Matthías Harðarson, Steinar Logi Helgason, Tuuli Rähni.
Ókeypis aðgangur og öll velkomin!
FYRIRLESTUR
César Franck – 200 ára fæðingarafmæli.
Þriðjudaginn 15. nóvember kl. 16 heldur Eyþór Ingi Jónsson, organisti við Akureyrarkirkju og kennari við Tónskóla Þjóðkirkjunnar fyrirlestur undir yfirskriftinni César Franck og sinfóníska orgelið í tilefni af 200 ára fæðingarafmæli eins merkasta tónskálds orgelbókmenntanna.
Fyrirlesturinn verður í safnaðarsal Hallgrímskirkju og eru öll velkomin.
Laugardaginn 3. desember nk. kl. 12-15 munu 12 organistar flytja öll orgelverk tónskáldsins á orgelmaraþoni í Hallgrímskirkju og heiðra þannig tónskáldið og jafnframt minnast 30 ára vígslu Klais orgels kirkjunnar.
Flytjendur: Björn Steinar Sólbergsson, Erla Rut Káradóttir, Eyþór Franzson Wechner, Friðrik Vignir Stefánsson, Guðný Einarsdóttir, Kári Þormar, Kitty Kovács, Kjartan Jósefsson Ognibene, Lára Bryndís Eggertsdóttir, Matthías Harðarson, Steinar Logi Helgason,
Tuuli Rähni
Orgelnám fyrir börn í Tónskóla Þjóðkirkjunnar!
Tónskóli Þjóðkirkjunnar í samstarfi við Orgelkrakka, býður nú börnum að hefja nám í orgelleik í fyrsta sinn í sögu skólans.
Kennslan verður byggð upp á vikulegum einkatímum og reglulegum hóptímum.
Hægt er að senda umsóknir á netfang tónskólans tonskoli@tonskoli.is
Einnig er hægt að hafa samband í síma 5284430.
Verð fyrir veturinn er 45.000 kr.
Guðný Einarsdóttir organisti og kórstjóri í Háteigskirkju, mun annast kennsluna. Guðný hefur mikla reynslu og menntun sem organisti, kórstjóri og kennari í orgel- og píanóleik. Hún hefur m.a. réttindi til Suzuki-kennslu á orgel og hefur mikla reynslu af að vinna með börnum. Guðný samdi söguna Lítil saga úr orgelhúsi sem er tónlistarævintýri fyrir börn um undraheima pípuorgelsins. Félagið Orgelkrakkar varð til í samstarfi hennar og Sigrúnar Mögnu Þórsteinsdóttur, organista við Akureyrarkirkju. Markmið félagsins er að kynna börnum orgelið á skemmtilegan hátt og veita ungum orgelnemendum stuðning og hvatningu.
Tónskólanum slitið
Tónskóla þjóðkirkjunnar var slitið föstudaginn 27. maí í Hallgrímskirkju.
Tuuli Rähni, lauk einleiksáfanga, Elísa Elíasdóttir, lauk kirkjuorganistaprófi og Ave Kara lauk kirkjuorganistaprófi,
Frétt um skólaslitin sem birtist á kirkjan.is má sjá hér,
Skólaslit Tónskólans 2022
Verða í Hallgrímskirkju föstudaginn 20. maí kl. 17.
Þrír nemendur ljúka áfanga frá Tónskólanum á þessu vori;
Elísa Elíasdóttir líkur kirkjuorganistaprófi.
Ave Sillaots líkur kantorsprófi.
Tuuli Rähni líkur einleiksáfanga.
Burtfarartónleikar Tuuli Rähni
Fara fram í Hallgrímskirkju miðvikudaginn 18. maí kl. 17:00. Þar með lýkur Tuuli einleiksáfanga frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar.
Flutt verða verk eftir Peeter Süda, César Franck og Franz Liszt.
Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.
Orgelkrakkar - Sumarnámskeið
Tónskólinn og Orgelkrakkar standa fyrir sumarnámskeiði fyrir börn á aldrinum 7-12 ára. Guðný Einarsdóttir organisti og kórstjóri í Háteigskirkju, mun annast kennsluna á námskeiðinu. Guðný hefur mikla reynslu og menntun sem organisti, kórstjóri og kennari í orgel- og píanóleik. Hún hefur m.a. réttindi til Suzuki-kennslu á orgel. Guðný samdi söguna Lítil saga úr orgelhúsi sem er tónlistarævintýri fyrir börn um undraheima pípuorgelsins. Félagið Orgelkrakkar varð til í samstarfi hennar og Sigrúnar Mögnu Þórsteinsdóttur, organista við Akureyrarkirkju. Markmið félagsins er að kynna börnum orgelið á skemmtilegan hátt og veita ungum orgelnemendum stuðning og hvatningu. Félagið á lítið orgel sem notað er í orgelkynningar þar sem hópur barna skemmtir sér við að setja það saman pípu fyrir pípu og prófa svo að spila á það.
Báðar hafa Sigrún og Guðný mikla reynslu af að vinna með börnum.
Orgelnám fyrir börn í Tónskóla Þjóðkirkjunnar
Tónskóli Þjóðkirkjunnar í samstarfi við Orgelkrakka, býður nú börnum að hefja nám í orgelleik í fyrsta sinn í sögu skólans.
Guðný Einarsdóttir organisti og kórstjóri í Háteigskirkju, mun annast kennsluna. Guðný hefur mikla reynslu og menntun sem organisti, kórstjóri og kennari í orgel- og píanóleik. Hún hefur m.a. réttindi til Suzuki-kennslu á orgel og hefur mikla reynslu af að vinna með börnum. Guðný samdi söguna Lítil saga úr orgelhúsi sem er tónlistarævintýri fyrir börn um undraheima pípuorgelsins. Félagið Orgelkrakkar varð til í samstarfi hennar og Sigrúnar Mögnu Þórsteinsdóttur, organista við Akureyrarkirkju. Markmið félagsins er að kynna börnum orgelið á skemmtilegan hátt og veita ungum orgelnemendum stuðning og hvatningu. Félagið á lítið orgel sem notað er í orgelkynningar þar sem hópur barna skemmtir sér við að setja það saman pípu fyrir pípu og prófa svo að spila á það.
Umsókn um skólavist
Hér er hægt að sækja um skólavist í Tónskóla Þjóðkirkjunnar fyrir skólaárið 2022-2023 og senda á tonskoli@tonskoli.is. Umsóknarfresturinn er til 18. júní.
Upplýsingar um skólavist má sjá hér:
Gakk inn í Herrans helgidóm
Í nýju myndbandi sem unnið var undir merkjum þjóðkirkjunnar og Tónskólans er áhorfendum boðið inn í allar kirkjur - alls níu - í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra til að hlýða á ellefu orgelleikara flytja orgelverkið Was Gott tut, das ist wohlgetan, sálmalag og 9 tilbrigði eftir Johann Pachelbel. Þeir skipta verkinu á milli sín. Sálmalagið er nr. 214 í sálmabók kirkjunnar og heitir Gakk inn í Herrans helgidóm sem er yfirskrift myndbandsins. Það var sr. Valdimar Briem (1848-1930) sem þýddi sálminn.
Áhorfendur fá að kynnast orgelum kirknanna og organistunum sem leika jafnan á þau.
Myndbandið Gakk inn í Herrans helgidóm – Orgelin í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra
Ave Sillaots, organisti Ólafsfjarðarkirkju, heldur hádegistónleika í Akureyrarkirkju
Ave Sillaots, organisti Ólafsfjarðarkirkju, heldur hádegistónleika í Akureyrarkirkju þriðjudaginn 14. desember kl. 12
Tónleikar hennar eru hluti af framhaldsprófi en Ave útskrifast með kantorspróf í vetur.
Aðgangur er ókeypis
Efnisskrá tónleikanna:
Georg Böhm – Pedalsóló úr Prelúdíu í C-dúr
Johann Sebastian Bach - Schmücke dich, o liebe Seele, BWV 654
Johann Sebastian Bach – Toccata og fúga í d-moll BWV 565
Erkki-Sven Tüür – Spectrum I fyrir orgel
Gabriel Fauré – Pie Jesu úr Requiem Op 48. - Einsöngvari: Helena Gudlaug Bjarnadóttir
C. Franck –Piéce héroique úr 3 Piéces pour grand orgue
Þjóðkirkjan heiðrar Hauk
Haukur Guðlaugsson, fyrrum söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, varð níræður á árinu, nánar til tekið 5. apríl s.l.
Af þessu tilefni verður efnt til vandaðra tónleika Hauki til heiðurs og verða þeir í Hallgrímskirkju sunnudaginn 31. október kl. 17.00. Dagskráin er fjölbreytileg og að hluta til valin í samvinnu við afmælisbarnið. Gamlir nemendur hans koma fram á tónleikunum, sumir leika á orgel og aðrir syngja.
Umsókn um skólavist
Hér er hægt að sækja um skólavist í Tónskóla Þjóðkirkjunnar fyrir skólaárið 2021-2022 og senda á tonskoli@tonskoli.is. Umsóknarfresturinn er til 18. júní.
Upplýsingar um skólavist má sjá hér:
Boðunardagur Maríu
Guðsþjónusta – Fyrirlestur – Tónleikar – Tíðasöngur
Kl.11 Guðsþjónusta á boðunardegi Maríu. Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir prédikar og þjónar fyrir altari ásamt messuþjónum Félagar úr Mótettukór Hallgrímskirkju syngja. Organisti: Björn Steinar Sólbergsson.
kl. 17.30 Tónleikar ´Suite du Deuxième ton´ eftir franska barokktónskáldið Louis-Nicolas Clérambault & Magnificat - Lofsöngur Maríu. Flytjendur: Björn Steinar Sólbergsson, orgel & sönghópurinn Cantores Isalandiœ; stjórnandi Ágúst Ingi Ágústsson.
Kl. 18 Aftansöngur - Vesper: Prestur er sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir. Glúmur Gylfason leiðir þátttakendur. Í tengslum við aftansönginn verður Glúmur Gylfason með fyrirlestur kl. 16.30 um bók sína „Íslenskur tíðasöngur“.
Dagskrá í samvinnu Hallgrímskirkju og Tónskóla Þjóðkirkjunnar.
Símenntun í kirkjutónlist - Umsóknarfresturinn framlengdur til 13. september!
Upplýsingar um símenntun Tónskólans og Söngmálastjóra
Útskriftartónleikar Matthíasar Harðarsonar
Útskriftartónleikar Matthíasar Harðarsonar fara fram í Hallgrímskirkju þriðjudaginn 2. júní kl. 12:00. Þar með lýkur Matthías bakkalárnámi frá kirkjutónlistarbraut LHÍ í samstarfi við Tónskóla Þjóðkirkjunnar.
Matthías lýkur jafnframt kantorsprófi frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar.
Flutt verða verk eftir Johann Sebastian Bach, Louis-Nicolas Clérambault, Maurice Duruflé og César Franck.
Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.
Útskriftarhátíð Tónskólans 2020
Skólaslit Tónskólans fóru fram í Hallgrímskirkju föstudaginn 22. maí s.l.
Fjórir nemendur luku áfanga frá skólanum.
Það eru þau Hrafnkell Karlsson sem lauk kirkjuorganistaprófi.
Erla Rut Káradóttir, Matthías Harðarson, Páll Barna Szabo luku kantorsprófi.
Erla Rut og Matthías luku jafnframt BA-gráðu í kirkjutónlist frá Listaháskóla Íslands.
Skólaslit Tónskóla Þjóðkirkjunnar 2020
Skólaslit Tónskólans verða í Hallgrímskirkju föstudaginn 22. maí kl. 17.
Fjórir nemendur ljúka áfanga frá skólanum í vor. Það eru þau Hrafnkell Karlsson sem líkur kirkjuorganistaprófi.
Erla Rut Káradóttir, Matthías Harðarson, Páll Barna Szabo ljúka kantorsprófi.
Erla Rut og Matthías ljúka jafnframt BA-gráðu í kirkjutónlist frá Listaháskóla Íslands.
Umsókn um skólavist
Hér er hægt að sækja um skólavist í Tónskóla Þjóðkirkjunnar fyrir skólaárið 2020-2021 og senda á tonskoli@tonskoli.is. Umsóknarfresturinn er til 23. júní.
Upplýsingar um skólavist má sjá hér:
Dagur kirkjutónlistarinnar 2020
Dagur kirkjutónlistarinnar 2020 í Hallgrímskirkju laugardaginn 7. mars kl 10 – 15. Dagskrá í tali og tónum.
Dagskrá í Hallgrímskirkju.
Útskriftartónleikar Erlu Rutar Káradóttur
Útskriftartónleikar Erlu Rutar fara fram í Hallgrímskirkju sunnudaginn 8.mars kl. 17:00. Þar með lýkur hún bakkalárnámi frá kirkjutónlistarbraut LHÍ í samstarfi við Tónskóla Þjóðkirkjunnar.
Erla Rut lýkur jafnframt kantorsprófi frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar.
Flutt verða verk eftir Johann Sebastian Bach, Felix Mendelssohn, Olivier Messiaen og Jehan Alain.
Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.
Gospell/pop nálgun í kirkjutónlist
Fyrirlestur í Lindakirkju laugardaginn 22. febrúar kl. 10-12
Óskar Einarsson, tónlistarstjóri Lindakirkju í Kópavogi fjallar um Gospeltónlist og kynnir tónlistarstarfið í Lindakirkju.
Kynningin er opin nemendum og kennurum Tónskóla Þjóðkirkjunnar, félögum í FÍO – Félagi íslenskra organleikara auk organistum Þjóðkirkjunnar.
Óskar stundaði píanó og saxófón nám við tónlistarskólann á Akureyri til 1991. Stundaði nám við FÍH veturinn 1991-1992. Hann lauk blásarakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1995 og Marsternámi við University of Miami 1999 í útsetningum. Óskar hefur útsett og stjórnað upptökum á geisladiskum m.a. fyrir Pál Rósinkranz, Heru Björk, Snörurnar, Ragnar Bjarnason, Stuðmenn og hinu ýmsa kóra. Hann hefur unnið tónlist fyrir útvarp og sjónvarp og starfaði við Leikfélag Akureyrar 1990-1991 og Borgarleikhúsið frá 1991-2001. Þar samdi hann m.a. tónlist við barnaleikritið Móglí og útsetti og stjórnaði tónlistinni í Kysstu mig Kata. Óskar úsetti tónlistina í söngleiknum Annie sem frumsýndur sem sýnd var í Austurbæ 2006. Óskar kenndi við tónlistarskóla FÍH frá 1999-2010 og er tónlistarstjóri Hvítasunnukirkjunnar í Reykjavík frá árinu 1991. Þar hefur hann sett upp fjölda tónleika m.a. sem sýndir hafa verið í Ríkissjónvarpinu ásamt því að gefa út 6 geisladiska og 2 DVD með kórnum í fíladelfíu. Hann er stofnandi og stjórnandi Gospelkórs Reykjavíkur sem hefur haldið tugi tónleika hérlendis og líka erlendis og gaf út CD og DVD diska 2003. Gospelkór Reykjavíkur hefur verið í hléi sl. 10 ár en Gospelkompaníið (minni hópur) hefur mikið komið fram og sungið víða. Frá árinu 1999 hefur Óskar haldið yfir 50 gospelnámskeið um allt land bæði opin öllum og svo fyrir kirkjukóra viðkomandi staðar og má ætla að fjöldi þátttakenda sé að nálgast 1000 manns. Í upphafi árs 2010 tók Óskar að sér tónlistarstjórn í Lindakirkju. Þar er starfandi öflugur kirkjukór sem heldur reglulega gospeltónleika og komið m.a. fram í kórakeppninni „Kórar Íslands” árið 2017 og lenti hann í öðru sæti.