Biskup Íslands

Agnes M. Sigurðardóttir er biskup Íslands.

Hún er æðsti embættismaður þjóðkirkjunnar. Hún hefur tilsjón með kristnihaldi, kenningu kirkjunnar og starfi hennar í landinu.

Um Agnesi M. Sigurðardóttur

Agnes M. Sigurðardóttir er fædd á Ísafirði 19. október 1954. Hún er dóttir prestshjónanna á staðnum, Sigurðar Kristjánssonar sóknarprests og prófasts í Ísafjarðarprófastsdæmi, og Margrétar Hagalínsdóttur, ljósmóður. Hún las guðfræði við guðfræðideild Háskóla Íslands og lauk embættisprófi árið 1981. Hún hefur einnig stundað framhaldsnám í prédikunarfræði við Uppsalaháskóla í Svíþjóð og kennimannlegri guðfræði við guðfræðideild Háskóla Íslands.

Agnes var ráðin Æskulýðsfulltrúi þjóðkirkjunnar strax að námi loknu og gegndi því starfi til ársins 1986. Hún var vígð prestsvígslu til þessarar þjónustu 20. september 1981 og þjónaði samhliða starfi sínu í Dómkirkjunni í Reykjavík. Árið 1986 var hún skipuð sóknarprestur á Hvanneyri. Hún gegndi því embætti til árisns 1994 þegar hún flutti sig til Bolungarvíkur sem hún þjónaði til ársins 2012. Hún var jafnframt prófastur frá árinu 1999, fyrst í Ísafjarðarprófastsdæmi og síðar í Vestfjarðaprófastsdæmi sem varð til við sameningu Ísafjarðarprófastsdæmis og Barðastrandarprófastsdæmis.
Árið 2012 var hún valin til að gegna embætti biskups Íslands. Hún var vígð biskupsvígslu í Hallgrímskirkju 24. júní 2012 og er fyrsta konan í sögu þjóðkirkjunnar til að taka biskupsvígslu. Hún tók við embætti 1. júlí 2012.

Vaxtarbroddar um allt land

Framtíðarsýn Agnesar er sterk þjóðkirkja, kirkja fólksins, sem ræður sér sjálf. Þjóðkirkjan starfar um allt land og leggur áherslu á að fagnaðarerindið er fyrir fólkið í landinu.
Þjóðkirkja sem laðar fram hinn almenna prestsdóm allra sem skírðir eru og styður jafnt þau sem eru í þjónustu hennar sem og almenning. Hún sér vaxtarbrodda blómstra í öllu starfi kirkjunnar, í söfnuðunum, á sjúkrastofnunum, vítt og breitt um samfélagið, hvar sem kristin trú er boðuð í orði og verki.
Þannig nær þjóðkirkjan til fólksins sem tilheyrir henni og verkar samfélagi okkar til góðs og heilla.

Hirðisbréf 

Biskup Íslands frú Agnes M. Sigurðardóttir tilkynnti í nýársprédikun sinni í Dómkirkjunni í Reykjavík 1. janúar 2023 að þann dag hefði komið út hirðisbréf hennar.

Hirðisbréf er bók, sem hver biskup gefur út á biskupstíð sinni þar sem fram kemur sýn biskups á hina kristnu köllun, kirkjuna og samfélagið.

Smelltu á myndina til að lesa hirðisbréfið.

 

 

 

Börnin og barnabörnin og tónlistin

Agnes á þrjú börn, Sigurður er doktor í stærðfræði og framkvæmdastjóri, Margrét er hagfræðingur og söngnemi og Baldur er sálfræðinemi. Hún á eitt barnabarn.

Agnes hefur frá unga aldri lagt stund á hljóðfæraleik og söng, var í kvennakór og kirkjukór Bolungarvíkur, Sunnukórnum á Ísafirði og MÍ-kórnum á menntaskólaárunum. Hún lærði á píanó á Ísafirði og í Reykjavík og lærði orgelleik í Tónskóla Reykjavíkur einn vetur.

 

                                            

                                      Merki biskups Íslands