Biskupsembættið

 

Um Biskupsembættið

Einn biskup er yfir Íslandi, frú Agnes M. Sigurðardóttir. Biskup situr í Reykjavík. Hlutverk hans er að styrkja boðun, samfélag og einingu kirkjunnar með tilsjón, episkope, með sóknum, söfnuðum, vígðum þjónum og stofnunum kirkjunnar. Biskup iðkar tilsjónina og vígslubiskupar og prófastar fyrir hans hönd. Vísitasíur eru mikilvægasti þáttur tilsjónarinnar. Þá heimsækir biskup sóknir um land allt, lítur þannig til með starfsemi þeirra, styrkir og hvetur.

Sá sem vígist til embættis prests eða djákna vinnur biskupi heit um að inna þjónustu sína af hendi á grundvelli játninga og skipanar kirkjunnar. Á grundvelli þess er hinum vígða þjóni veitt ábyrgð á grundvallarþáttum í þjónustu þjóðkirkjunnar og hann sendur með það umboð. Sérhverjum þeim sem gegnir vígðri þjónustu er því gert að svara fyrir það hvernig þjónusta er rækt og hvernig ákvæðum víglsuheitis og víslubréfs er sinnt og gefa þær skýrslur sem biskup óskar eftir og varðar það sem tilsjónin nær til. Sóknarbörn geta leitað umsagnar prófasts og viskups um þjónustu sóknar og prests.
Biskup Íslands flytur ávarp við setningu kirkjuþings 2012.

Framkvæmd tilsjónarinnar
Tilsjón er ráðgjöf, stuðningur, uppörvun og hjálp sérstaklega hvað varðar játningu, kenningu kirkjunnar, guðsþjónustu og sakramenti og aðrar kirkjulega athafnir. Svo og um mál sem skipað er með lögum og starfsreglum, og með stefnumótun kirkjunnar.

Tilsjón er eftirlit með því hvernig vígðir þjónar, prestar og djáknar, rækja embætti sín og sinna þjónustu orðs og sakramenta samkvæmt vígsluheiti sínu.
Í tilsjón felast úrskurðir um hæfi til að gegna embætti í þjóðkirkjunni.
Tilsjón er eftirlit með því hvernig söfnuðir, starfsmenn og stofnanir þjóðkirkjunnar sinna skyldum sínum í ljósi trúar, játninga kirkjunnar, laga og reglna.
Ekki hafa verið gerðar starfsreglur fyrir biskupa eins og til eru fyrir víglusbiskupa, prófasta, presta og djákna. Kirkjuþing hefur útgáfu slíkra reglna til umræðu.

Biskup vígir alla þjóna kirkjunnar
Biskup Íslands vígir biskupa og á vígslan að fara fram í Dómkirkjunni eða annarri kirkju í umboði hennar.
Þjónustan, embættið, í kirkjunni er köllun til þjónustu í söfnuði Krists. Frá öndverðu og til þessa dags er þjónustan afhent með vígslu. Þar lýsir kirkjan því yfir að hún lifir í samhengi postulanna og þjónn hennar, vígsluþeginn, er sérstaklega kallaður og frátekinn til að varðveita trúna á þeim grundvelli.

Biskup Íslands annast prest- og djáknavígslur eða vígslubiskup í umboði hans og fara þær fram í Dómkirkjunni. Að lokinni prestsvígslu gefur biskup Íslands úr vígslubréf sem birt skal þeim söfnuði eða stofnun sem prestur er vígður til.
Biskupi er heimilt, sé eftir því leitað, að vígja til þjónustu prest eða djákna innan hinna evangelísk-lútersku fríkirkjusafnaða sem starfa á sama játningargrundvelli og þjóðkirkjan. Einnig er honum heimilt að vígja til prests- eða djáknaþjónustu innan kirkna sem þjóðkirkjan er í samfélagi við á grundvelli hefðar og samkirkjulegra samþykkta.

Biskup er forseti kirkjuráðs
Biskup er forseti kirkjuráðs. Kirkjuráð er skipað tveimur prestum og tveimur leikmönnum sem kirkjuþing kýs til fjögurra ára sem er kjörtímabil kirkjuþings. Kirkjuráð er framkvæmdastjórn kirkjuþings og fundar að minnsta kosti mánaðarlega.

Kirkjuráð

Kirkjuráð fer með framkvæmdarvald í málefnum þjóðkirkjunnar. Kirkjuráð er, auk biskups Íslands, skipað fjórum mönnum, tveimur guðfræðingum og tveimur leikmönnum sem kirkjuþing kýs og skulu varamenn kosnir með sama hætti. Kosið skal í kirkjuráð á fyrsta kirkjuþingi að aflokinni kosningu.

           

Helstu verkefni

Biskup Íslands fer með yfirstjórn þjóðkirkjunnar ásamt öðrum kirkjulegum stjórnvöldum eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögum.

Biskup Íslands hefur tilsjón með kristnihaldi, kenningu kirkjunnar og starfi hennar í landinu. Hann er forseti kirkjuráðs. Hann fylgir eftir reglum er kirkjuþing setur, samþykktum kirkjuþings og markaðri stefnu þess og prestastefnu og hefur ákvörðunarvald um einstök mál, nema þau heyri undir önnur stjórnvöld þjóðkirkjunnar samkvæmt lögum.
 
Biskup vígir kirkjur. Biskup vígir presta og djákna og setur þeim vígslubréf.

Biskup Íslands hefur yfirumsjón með kirkjuaga innan þjóðkirkjunnar og beitir sér fyrir lausn ágreiningsefna sem rísa kunna á kirkjulegum vettvangi.

Biskup Íslands skal kalla vígslubiskupa til fundar svo oft sem þurfa þykir. Biskupafundur skal m.a. búa þau mál er varða kenninguna, helgisiði og helgihald í hendur prestastefnu og gera tillögur um skipan sókna, prestakalla og prófastsdæma til kirkjuþings.

Biskup Íslands boðar til almennrar prestastefnu og er forseti hennar. Á prestastefnu skal fjalla um málefni prestastéttarinnar, svo og önnur kirkjuleg málefni. Prestastefna hefur tillögu- og umsagnarrétt um mál er varða kenningu kirkjunnar og helgisiði og annars heyra undir biskup og kirkjuþing.

Biskup Íslands útnefnir prófasta úr hópi presta. Prófastar eru fulltrúar biskups Íslands í prófastsdæmum og trúnaðarmenn hans og hafa í umboði hans almenna tilsjón með kirkjulegu starfi þar. Biskup getur útnefnt prófasta til að hafa umsjón með tilteknum þáttum kirkjulegrar þjónustu.

Biskup Íslands boðar til almennrar leikmannastefnu til að fjalla um málefni leikmanna, safnaða, hlutverk og störf sóknarnefnda, svo og um önnur mál er lúta að þjónustu kirkjunnar við söfnuði landsins og kristileg félagasamtök.

Ráðherra skipar í embætti sóknarpresta. Biskup Íslands skipar í önnur prestsembætti.

Þegar prestakall eða prestsstaða losnar eða nýtt prestakall er stofnað auglýsir biskup Íslands embættið með fjögurra vikna umsóknarfresti hið skemmsta.

Ráðherra veitir þeim embætti sóknarprests sem hlotið hefur bindandi val en ákvarðar að öðrum kosti veitingu, að fenginni tillögu biskups. Biskup Íslands veitir þeim embætti prests sem hlotið hefur bindandi val en ákvarðar að öðrum kosti veitingu.

Biskupi Íslands er heimilt að ákveða að í prófastsdæmum starfi héraðsprestar. Biskupi Íslands er heimilt að samþykkja að ráðnir séu prestar á vegum stofnana og félagasamtaka. Biskupi Íslands er heimilt að samþykkja að prestar séu ráðnir til starfa meðal Íslendinga erlendis.
Deila: