Söfnuður er sjálfstæð félagsleg og fjárhagsleg grunneining Þjóðkirkjunnar og starfsvettvangur hennar á hverjum stað. Söfnuður á tilteknu landsvæði myndar sókn. Ein eða fleiri sóknir mynda prestakall, sjá 1. kafla starfsreglna um söfnuði og sóknarnefndir nr.16/2021-2022.
Sókn er félag þess fólks innan Þjóðkirkjunnar sem býr innan sóknarmarka. Sóknarbörn eru allir þeir sem lögheimili eiga í sókn og eru skráðir í Þjóðkirkjuna. Sóknarbörn eiga rétt á kirkjulegri þjónustu í sókn sinni og bera sameiginlega skyldur eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum eða með lögmæltum ákvörðunum.
Frumskyldur sóknar er helgihald, kærleiksþjónusta og fræðsla sem nærir og eflir trú sem starfar í kærleika.
Til þess er haldið uppi:

    a. reglubundnum guðsþjónustum og séð til þess að sóknarbörn eigi aðgang að sálgæslu í
        samtali, prédikun, sakramenti og fyrirbæn,
    b. reglubundnu fræðslustarfi um kristna trú og sið, og stuðningi við trúaruppeldi
        heimilanna með barnastarfi, fermingarfræðslu og æskulýðsstarfi,
    c. kærleiksþjónustu á vettvangi sóknarinnar og með aðild að hjálparstarfi og kristniboði
        kirkjunnar.
Aðalsafnaðarfundur kýs sóknarnefndarmenn og varamenn til fjögurra ára í senn. 
Sóknarnefnd skal skipuð leikmönnum. Leikmaður telst sá sem ekki hefur tekið vígslu til prests eða djákna. 

Í 6. grein starfsreglna um söfnuði og sóknarnefndir nr.16/2021-2022.er greint frá skipan sóknarnefndar og kosningu nefndamanna.

Sóknarnefnd skiptir með sér verkum formanns, gjaldkera og ritara úr röðum aðalmanna þegar eftir að kjör í sóknarnefnd hefur farið fram.
Í hverri kirkjusókn er sóknarnefnd sem styður kirkjulegt starf í sókninni ásamt sóknarpresti og starfsmönnum sóknarinnar og annast rekstur og framkvæmdir á vegum sóknarinnar.
Sóknarnefnd skal starfa undir forystu sóknarprests og með hliðsjón af erindisbréfi hans við mótun og skipulag kirkjulegs starfs safnaðarins og standa fyrir guðsþjónustuhaldi safnaðarins, trúfræðslu og kærleiksþjónustu.

Sóknarnefnd er ásamt sóknarpresti í fyrirsvari fyrir sóknina gagnvart stjórnvöldum, og einstökum mönnum og stofnunum.
Sóknarnefnd hefur umsjón með kirkju safnaðarins og safnaðarheimili.
Sóknarnefnd skal gæta réttinda kirkju og gera prófasti viðvart ef út af bregður. 
Helstu störf sóknarnefndar eru sem hér segir:

1. Hafa ásamt prestum og í samráði við annað starfsfólk safnaðarins, eftir því sem við á,
    forgöngu um kirkjulegt starf á vegum sóknarinnar.

2. Fjárstjórn sóknarinnar.
3. Umsjón og gæsla eigna sóknarinnar.
4. Sjá til þess að viðunandi húsnæði og búnaður sé til guðsþjónustuhalds og annars
    safnaðarstarfs í sókninni.
5. Að sjá til þess að skráðir kirkjugripir og minningamörk séu verndaðir skv. ákvæðum
    laga um menningarminjar nr. 80/2012, með síðari breytingum.

6. Ráða starfsfólk sóknar í samráði við sóknarprest.
7. Önnur verkefni sem aðstæður í sókninni kunna að útheimta.
8. Val kjörfulltrúa vegna kosninga til kirkjuþings og kjörs biskups Íslands og vígslubiskupa.
Sóknarnefnd sér til þess að bókhald sé fært í samræmi við lög og noti samræmt reikningsform við uppsetningu ársreiknings, sem rekstrarskrifstofa Þjóðkirkjunnar leggur til.

Sóknarnefnd skal í samráði við sóknarprest gera fjárhagsáætlun fyrir hvert almanaksár og hafa þar m.a. hliðsjón af starfsáætlun sóknarprests, annarra presta og annarra starfsmanna sóknarinnar. Fjárhagsáætlunin skal lögð fram á aðalsafnaðarfundi til kynningar og afgreiðslu. Sóknarnefnd, sóknarpresti og öðrum prestum ber síðan að sinna verkefnum sínum og halda uppi starfsemi á grundvelli samþykktrar fjárhagsáætlunar.
Við ráðstöfun fjármagns sóknarinnar til skamms eða langs tíma skal ávallt gæta þess að fjárskuldbindingar vegna framkvæmda komi sem minnst niður á almennu kirkjustarfi. Eigi að ráðast í miklar fjárfestingar eins og smíði nýrrar kirkju, safnaðarheimilis eða hljóðfærakaup skal sóknarnefnd greina úthlutunarnefnd kirkjuþings, sbr. gildandi starfsreglur um fjármál kirkjunnar hverju sinni, skriflega frá áformum sínum um framkvæmdir og fjármögnun.
Sóknarnefnd er óheimilt að efna til fjárskuldbindinga með persónulegum ábyrgðum einstaklinga.

Sóknarnefnd getur ekki veðsett eignir sóknarinnar nema með samþykki safnaðarfundar.

Sóknarnefnd sér til þess að ársreikningur sóknar sé gerður fyrir hvert almanaksár. Ársreikningurinn skal áritaður af sóknarnefnd, endurskoðaður af kjörnum skoðunarmönnum eða endurskoðanda og lagður fram á aðalsafnaðarfundi til kynningar og afgreiðslu og síðan sendur rekstrarskrifstofu Þjóðkirkjunnar.
Samkvæmt starfsreglum um  söfnuði og sóknarnefndir nr.16/2021-2022
er ekki krafist að ársreikningur sóknar sé endurskoðaður af löggiltum endurskoðanda.

 

Ef sóknarnefnd fer með stjórn kirkjugarðs, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu nr. 36/1993, skal halda fjárhag kirkjugarðs algerlega aðgreindum frá fjárhag sóknar.
Í hverri kirkjusókn er sóknarnefnd sem starfar undir forystu sóknarnefndarformanns í nánu samstarfi við sóknarprest,  Formaður boðar fundi í sóknarnefnd og stýrir þeim og er fundur ályktunarfær ef meiri hluti nefndarmanna sækir fundinn. Formaður sóknarnefndar er fulltrúi sóknarnefndar á fundum prófastdæmisins.
Ritari er fundarritari á fundum sóknarnefndar, safnaðarfundum og aðalsafnaðarfundi.  Í 11. grein starfsreglna um söfnuði og sóknarnefndir nr.16/2021-2022.segir m..a.Allir fundir sóknarnefndar sem og safnaðarfundir skulu bókaðir og staðfestir af fundarmönnum. Þá skal sóknarnefnd gæta þess að varðveita og skrá bréf, bækur og skjöl er snerta kirkjuna og starfsemi hennar. Um vörslu þessara gagna skal fara í samræmi við gildandi lög hverju sinni.
Gjaldkeri sóknarnefndar heldur utan um fjármál sólknarinnar, bókhald, skýrslugerð, fjárhagsáætlun og gerð ársreiknings. Sjá nánar í kaflanum Rekstur og fjármál í starfsreglum um söfnuði og sóknarnefndir nr.16/2021-2022.
Aðrir sóknarnefndarmenn taka þátt í starfi sóknarnefndar og þeim verkefnum sem þeim er falið að sinna.
Heimilt er að kjósa leikmann sem ekki hefur lögheimili í sókninni. Sjá 6. grein starfsreglna um söfnuði og sóknarnefndir nr.16/2021-2022.
Þrátt fyrir ákvæði 5. mgr. 3. gr. er aðalsafnaðarfundi heimilt að kjósa leikmann til starfa í
sóknarnefndinni sem tilheyrir annarri sókn samkvæmt lögheimilisskráningu. Kosningarréttur er þó ávallt bundinn lögheimilisskráningu. Þrátt fyrir það skal meirihluti sóknarnefndar ávallt skipaður leikmönnum sem tilheyra sókninni samkvæmt lögheimilisskráningu. Leikmaður verður að uppfylla almenn skilyrði til þess að geta tekið sæti í sóknarnefnd. Leikmaður getur aðeins starfað í einni sóknarnefnd hverju sinni.
Valnefnd prestakalls velur sóknarprest og prest, sjá starfsreglur um ráðningu í prestsstörf,
7. gr Samsetning valnefndar. Valnefnd er skipuð sjö fulltrúum að lágmarki. Prófasti sem leiðir vinnuna, fimm fulltrúum sóknarnefnda viðkomandi prestakalls sem kjörnir eru á sóknarnefndarfundi og lögfræðingi á biskupsstofu eða mannauðsstjóra biskupsstofu. Þar sem sóknir eru fleiri en fimm í viðkomandi prestakalli getur hver sókn haft sinn fulltrúa í nefndinni. Við samsetningu valnefndar sé tekið mið af fjölda sóknarbarna hverrar sóknar. Sé ein sókna prestakallsins fjölmennari en hinar samanlagt skal taka mið af því við fjölda fulltrúa í valnefnd.
Á aðalsafnaðarfundi eru kosnir aðal og varamenn í kirkjugarðsstjórn.  Sjá 4.grein starfsreglna um söfnuði og sóknarnefndir nr.16/2021-2022.um aðalsafnaðarfund 7. Kosning í aðrar nefndir, ráð og trúnaðarstörf.
Við kjör kirkjuþings er heimilt að kjósa 15 kjörfulltrúa úr hverju prestakalli í 1, 2. og 3. kjördæmi, valdir af sóknarnefnd eða sóknarnefndum
Starfsreglur um kjör til kirkjuþings.

4. gr. Kosningarréttur leikmanna. Kosningarrétt til kirkjuþings, sem leikmaður, á hver sá sem er: a. aðal- og varamaður í sóknarnefndum í 1., 2. og 3. kjördæmi, sbr. 2. gr., b. aðal- og varamaður í sóknarnefndum í 4., 5., 6., 7., 8. og 9. kjördæmi, sbr. 2. gr.
Þá skulu hafa kosningarrétt allt að 15 fulltrúar úr hverju prestakalli í 1, 2. og 3. kjördæmi, valdir af sóknarnefnd eða sóknarnefndum, til viðbótar öðrum kjörfulltrúum, sbr. 1. mgr. 

Við kjör biskups eða vígslubiskups er heimilt að kjósa 7 kjörfulltrúa ú hverju prestakalli landsins.
Starfsreglur um kosningu biskups Íslands og vígslubiskupa
4. gr.
B. Kosningarréttur leikmanna:
a) Aðal- og varamenn í sóknarnefndum.
b) Þá skulu allt að sjö kjörfulltrúar úr hverju prestakalli valdir af sóknarnefnd eða sóknarnefndum til viðbótar öðrum kjörfulltrúum, sbr. a-lið. 
Aðalsafnaðarfund skal að jafnaði halda fyrir maílok ár hvert. Þar skulu rædd málefni sóknarinnar, þar á meðal þau mál sem lögmælt er að undir fundinn séu borin, svo og þau mál sem héraðsfundur, sóknarprestur, prófastur eða biskup Íslands skýtur þangað. Sjá nánar í 3. grein starfsreglna um söfnuði og sóknarnefndir nr.16/2021-2022.
Sóknarnefnd boðar til aðalsafnaðarfundar með minnst viku fyrirvara og skal greina frá
dagskrá fundarins í fundarboði. Sóknarnefnd skal í samráði við starfandi sóknarprest og/eða
starfandi prest boða til aðalsafnaðarfundar sóknarinnar. Fundinn skal auglýsa með þeim hætti
sem venja er til um messuboð.

Þar skal taka fyrir eftirfarandi:
    1. Gera grein fyrir starfsemi og rekstri sóknarinnar á liðnu starfsári.
    2  Afgreiðslu reikninga sóknar og kirkjugarðs fyrir sl. ár, ásamt fjárhagsáætlun næsta árs.
    3. Gera grein fyrir starfsemi héraðsnefndar og héraðsfundi.
    4. Ákvörðun um meiriháttar framkvæmdir og framtíðarskuldbindingar.
    5. Kosning tveggja skoðunarmanna eða endurskoðanda sóknar og kirkjugarðs og
        varamanna þeirra til árs í senn.
    6. Kosning sóknarnefndar, sbr. 6. gr. starfsreglna þessara.
    7. Kosning í aðrar nefndir, ráð og trúnaðarstörf.
    8. Önnur mál.
Sóknarnefnd heldur formlega fundi með reglulegum hætti þar sem málefni sóknarinnar eru til umræðu og ákvörðunar. Formaður boðar fundi í sóknarnefnd og stýrir þeim og er fundur ályktunarfær ef meiri hluti nefndarmanna sækir fundinn. Sjá nánar í 10. grein starfsreglna um söfnuði og sóknarnefndir nr.16/2021-2022.
Aðra safnaðarfundi skal halda ef meiri hluti sóknarnefndar óskar þess eða einn fjórði hluti sóknarbarna sem atkvæðisrétt eiga á safnaðarfundum. 
Sóknarbörn njóta kosningarréttar og kjörgengis á safnaðarfundum þegar þau eru fullra sextán ára.
Sóknarnefnd skal fylgja vanhæfisreglum gildandi starfsreglna um þingsköp kirkjuþings hverju sinni um meðferð einstakra mála.
Sjá starfsreglur um söfnuði og sóknarnefndir nr.16/2021-2022.
Sóknarnefnd er heimilt að kjósa úr sínum hópi framkvæmdanefnd er starfi á milli funda sóknarnefndar.
Sóknarnefnd getur ákveðið að kjósa einnig varamenn í framkvæmdanefnd og í hvaða röð þeir taka sæti.

Sóknarnefnd, í samráði við sóknarprest, ræður starfsmenn sóknarinnar, t.d. organista, kirkjuvörð, ækskulýðsstarfsmann, starfsmann sem sér um ræstinar eða þau störf sem mikilvægt er að starfsmaður sinni.
Auglýsa skal laus störf hjá sókninni með tveggja vikna umsóknarfresti hið minnsta.

Auglýsing skal birtast í prentuðum fjölmiðli og á vef kirkjunnar, í auglýsingu skal m.a. tiltekið:
    a) hvernig ráðningarkjör eru,
    b) hvenær umsóknarfrestur rennur út,
    c) hvert umsóknin skuli send,
    d) að veitt sé heimild til að afla sakarvottorðs.

Óheimilt er að ráða til starfa einstakling til að sinna börnum og ungmennum undir 18 ára
aldri, sem hlotið hefur refsidóm vegna brota á eftirtöldum lagabálkum: barnaverndarlögum, nr.
80/2002 almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, þ.e.: kynferðisbrot skv. 22. kafla, önnur
ofbeldisbrot skv. 23. kafla, þó einungis refsidóma síðustu fimm ár vegna brots skv. 217. gr. um
minniháttar líkamsmeiðingar, brot gegn frjálsræði manna skv. 24. kafla fíkniefnabrot skv. 173.
gr. a., lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, þ.e. refsidóm síðustu fimm ár.

Ofangreint ákvæði nær einnig til sjálfboðaliða sem starfa með börnum og ungmennum
undir 18 ára aldri hjá sókn. Sóknarnefnd skal óska eftir samþykki allra, sem sækjast eftir starfi,
launuðu, sjálfboðnu eða í verktöku, til þess að fá aðgang að upplýsingum úr sakaskrá
viðkomandi hvað varðar ofangreindar tegundir brota. Synji umsækjandi um heimild er óheimilt
að ráða hann til starfa.
Hafa ber hliðsjón af starfsreglum um djákna og organista við gerð ráðningarsamninga við
þá og starfslýsinga, svo og samþykktum stefnumálum kirkjuþings sem varða starfssvið þeirra
sérstaklega.
Ráðningarsamningur starfsmanna skal vera skriflegur og með gagnkvæmum þriggja mánaða uppsagnarfresti, en mánaðar uppsagnarfresti á fyrstu þremur mánuðum í starfi. Sóknarnefnd í samráði við sóknarprest semur starfslýsingu fyrir þessa starfsmenn.