Tína ber, tína dót

No image selected

Það er ekkert leiðinlegt að taka saman dótið!

Tína ber, tína dót. Drottningin er ekki heima

Kærar þakkir fyrir að koma í sunnudagaskólann með barnið.
Stundirnar í sunnudagaskólanum eru gæðastundir, fjarri símum, skjáum  og öðrum snjalltækjum.

Hér kemur lítil hugmynd að gæðastund heima:

Efni og áhöld:
Það þarf að taka saman leikföng barnsins.
Allt þarf að eiga sinn stað.

Aðferð:
Það þarf ekki að vera leiðinlegt og óspennandi að taka saman leikföngin. Hægt er að búa til skemmtilega samverustund með barninu.
Þetta er þykjustuleikur:
Foreldrið útskýrir leikinn fyrir barninu:
Dæmi um framgang leiksins: Við erum í þykjustunni þjónar vondu drottningarinnar.
Við búum í höllinni. Drottningin er búin að vera í burtu og nú fer hún alveg að koma heim. Við verðum að flýta okkur að gera allt fínt áður en hún kemur. Drífum okkur!
Foreldrið stýrir barninu og segir því hvaða hluti það eigi að taka saman:
Þú skalt taka alla hluti sem eru harðir. Ég skal taka alla hluti sem eru mjúkir.
Ó, nú er drottningin alveg að koma. Við þurfum að hafa hraðar hendur!
Þú skalt taka alla bílana. Ég skal taka allar bækurnar.
Eru einhverjir bílar UNDIR rúmi? Eru einhverjir bílar OFAN Í kassanum? Eru einhverjir bílar á BAKVIÐ stólinn? En UPPI á hillu? Settu bílana OFAN í dótakassann.
Ég held að ég heyri í drottningunni. Ó flýtum okkur.
Þú skalt taka alla...
Ég skal taka alla...
Vá! Nú er allt orðið svo fínt.
Nú bregður foreldrið sér í hlutverk drottningarinnar vondu.
Drottningin: Jæja þjónar! Skyldi nú vera nógu fínt í höllinni minni fyrir svona fína drottningu?
Barnið: Já.
Drottningin: Mikið er ég fegin og glöð. Þakka ykkur kærlega fyrir.

Þroskaþættir:
Barnið lærir að skipuleggja tiltekt og setja hluti á sinn stað.
Það lærir líka að halda vel á spöðunum og gleyma sér ekki við tiltektina.
Auk þess er tiltektarleikurinn góð málörvun þar sem hægt er að vinna með orð eins og OFAN Í, OFAN Á, UNDIR, BAKVIÐ, UPP Á o.s.frv.

Til minnis:
Leikskólabörn: Hámarksskjátími 60 mínútur á dag.
1.-4. bekkur: Hámarksskjátími 90 mínútur á dag.
Spörum skjátímann, hjálpum börnunum að finna eitthvað annað að gera.

https://kirkjan.is/thjonusta/fraedsla/bras-og-brall/tyna-ber-tyna-dot/