8. mars 2018
Vígsluafmæli Víðistaðakirkju

Sjálfboðaliðar lyftu grettistaki
Hjörleifur Þórarinsson, sóknarnefndarformaður Víðistaðakirkju, sagði í ávarpi í hátíðarguðsþjónustunni að sóknin stæði í mikilli þakkarskuld við allt það góða fólk sem ruddi brautina í safnaðarstarfinu og skóp þá umgjörð sem kirkjan býr við í dag. Sjálfboðaliðar sem störfuðu á fyrstu árum sóknarinnar hefðu lyft grettistaki við byggingu Víðistaðakirkju. Nefndi hann sérstaklega séra Sigurð Helga Guðmundsson sóknarprest og Einar Sveinsson sem var formaður sóknarnefndar á byggingatíma kirkjunnar. Hann sagði að sóknarnefnd og byggingarnefnd hafi fengið dyggan stuðning frá bæjarráði Hafnarfjarðar, Jöfnunarsjóði sókna Þjóðkirkjunnar og frá fyrirtækjum og einstaklingum. Enn þann dag í dag sé kirkjan að njóta stuðnings þessara aðila sem beri ævinlega að þakka.
Systrafélag Víðistaðakirkju gaf kirkjunni veglega peningagjöf í tilefni af vígsluafmælinu og var gjöfin, ein milljón króna, formlega afhent í hátíðarguðsþjónustunni á sunnudaginn. Allt frá árinu 1980 hefur Systrafélagið styrkt kirkjuna og safnaðarstarfið rausnarlega með peningagjöfum og með aðstoð við fermingarundirbúning og fleira. Peningarnir hafa m.a. verið notaðir til kaupa á innviðum og búnaði kirkjunnar og safnaðarsals. Systrafélagið gaf á sínum tíma vinnulaun Baltasars við gerð freskumyndanna í kirkjunni.
Gunnar Hólmsteinsson var heiðraður í lok guðsþjónustunnar fyrir fórnfúst og gott starf á vettvangi Víðistaðakirkju. Gunnar var kjörinn í fyrstu sóknarnefnd kirkjunnar og skipaður gjaldkeri hennar. Því hlutverki hefur hann gengt alla tíð síðan eða í 41 ár. Tryggð hans, árvekni og umhyggja fyrir velferð safnaðarins er einstök.
Nánari upplýsingar veita: Hjörleifur Þórarinsson, formaður sóknarnefndar í síma, 660 3707 og sr. Bragi J. Ingibergsson í síma, 894 7173.
Nánar á www.leitandi.is.