23. mars 2018
Ég vil að allir eigi heimil
Í tilefni af æskulýðsdegi þjóðkirkjunnar stóð Æskulýðssamband Kjalarnessprófastsdæmis að söfnun til að byggja steinhús fyrir munaðarlaus börn í Úganda. Þetta var í annað skiptið sem söfnunin fór fram og safnaðist nú um 500.000.- kr., en fyrir þá upphæð má byggja fjögur steinhús fyrir börn sem búa við sára fátækt og eiga ekkert húsaskjól.
Þegar íslenska stúlkan hrærði vöffludeig í gríð og erg og var spurð afhverju hún tæki þátt, þá svaraði hún: „Ég vil vera með, því ég vil að allir eigi heimili. Öll börnin í heiminum eiga að standa jafnt.“ Þetta er vitnisburður um kærleika í verki. Minnir á hversu dýrmætt er, að unga fólkið láti að sér kveða og taki virkan þátt í að skapa þeim sem minna mega sín bjartari framtíð.
Börn og unglingar frá Keflavík, Garði, Sandgerði, Grindavík, Hafnarfirði, Álftanesi, Garðabæ og Kjalarnesi tóku virkan þátt í söfnuninni. Í helgihaldinu var þátttaka barnanna áberandi, sungu, lásu ritningarlestra, fluttu bænir og vitnisburði. Söfnunin fór fram með fjölbreyttum hætti, frjálsum framlögum, veitinga- eða kaffisölu og í mörgum kirkjum var boðið upp á vöfflur gegn vægu gjaldi sem rann til söfnunarinnar.
Úganda er á meðal fátækustu ríkja heims, mörg börn hafa misst þar foreldra sína úr alnæmi og búa við mjög erfiðar aðstæður. Hjálparstarf kirkjunnar hefur unnið ásamt öðrum samtökum að því að hjálpa börnum og einstæðum foreldrum sem búa við sára fátækt og mikið óöryggi og hafast við í hreysum eða víðavangi. Börnin hafa takmarkað aðgengi að vatni og hreinlætisaðstöðu og geta ekki sótt skóla.
Brýnasta verkefnið er að reisa einföld múrsteinshús með bárujárnsþaki, eldaskála, kamar og vatnstank sem í safnast rigningarvatn. Fjölskyldurnar fá svo húsbúnað og áhöld, fræðslu um samband hreinlætis og smithættu og hvernig bæta má hreinlætisaðstöðu. Svo er unnið hörðum höndum að því að skapa börnunum aðstæður til að ganga í skóla.
Þorpsleiðtogar og starfsfólk hjálparsamtaka velja þær fjölskyldur sem verst eru settar og eru í sárustu neyð. Þetta hjáplarstarf er að skila afar góðum árangri.
Fleiri myndir frá viðburðinum má finna hér: Myndasafn