Þær voru sendar með tíðindin

1. apríl 2018

Þær voru sendar með tíðindin


Biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir, flutti páskaprédikun sína í Dómkirkjunni að morgni páskadags og var henni útvarpað beint á Rás eitt klukkan ellefu.

Í prédikuninni fjallaði biskup um hið stóra samhengi kristinnar kirkju og sagði m.a.:

„Við erum því ekki eyland hvað trúna varðar. Á grundvelli kristinnar trúar byggist sú lífsskoðun að allir menn séu jafnir og eigi sama rétt á að búa við frið og öryggi á lífsleið sinni.“

Biskup fjallaði um konurnar í guðspjöllunum og þá staðreynd sem þar kemur fram að þær voru fyrstu boðberar kristinnar trúar, og sagði m.a.:

„En hryggð þeirra breyttist í fögnuð. Kærleiksverkið þeirra breyttist því þær fengu það hlutverk að vera sendar fyrstar allra til að flytja tíðindin miklu um að lífið hefði sigrað dauðann. Vald mannanna hafði ekki síðasta orðið. Þær voru sendar til að boða líf, sem er ljós mannanna. (…) Það voru sem sagt konur sem fyrstar fluttu boðin um upprisuna. Boðin um að lífið sigraði dauðann. Boðin um að hið veraldlega vald sem felldi dauðadóminn í dómssölum heimsins hafi ekki haft síðasta orðið. Boðin um að kærleikurinn hafi sigrað illskuna.“

Biskup fjallaði einnig um jafnréttismál og frásagnir kvenna í nútímanum sem einkennast gjarnan af baráttu:

„Margar konur lýsa því hvernig gert er lítið úr orðum þeirra og gjörðum. Þagað yfir góðum verkum þeirra og fundið að þeim. Konur heimsins búa margar við óviðunandi lífskjör og eru þvingaðar til verka sem ekki eru sæmandi virðingu þeirra. Konur eru seldar í kynlífsþrælkun og litið niður á þær. Það er ekki í anda hins upprisna Jesús að fara þannig með fólk.“

Biskup vitnaði í orð séra Auðar Eir í bókinni ,,Gleði Guðs:

„Kvennahreyfingin hefur verið til frá því að Jesús stofnaði hana á fyrstu öldinni. Allar kvennahreyfingar síðan eru bylgjur þeirrar miklu undiröldu sem reis af boðskap hans og verkum.“

Boðskapur páskanna gefur von og um þá von sagði biskup:

„Það þýðir meðal annars það að alltaf er von í öllum aðstæðum. Jafnvel á dimmustu stundum lífsins er von um betra líf og þegar ekkert bíður nema dauðinn megum við treysta því að hinn upprisni frelsari hefur gefið okkur hlutdeild í upprisu sinni og gengur með okkur veginn, í lífi og í dauða. (…) Boðskapurinn um kærleiksríkan Guð, sem sigraði dauðann og lifir er sterkasta aflið sem heiminum hefur verið gefið.“

Að lokum óskaði biskup fermingarbörnum vorsins til hamingju með það val að leitast við að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins.

Prédikun biskups í heild má lesa á tru.is, sjá hér.
  • Biskup

  • Messa

  • Biskup

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju