Yfirlýsing biskups

11. maí 2018

Yfirlýsing biskups

Stuðningur við þolendur er ávallt í forgrunni : Yfirlýsing biskups

Stundin gerir í dag að umfjöllunarefni kynferðisbrot frá upphafi 6. áratugar síðustu aldar. Málið lá í þagnargildi í áratugi og var ekki kært til lögreglu. Gerandinn var ungur stúdent, sem síðar varð starfsmaður kirkjunnar. Hann lét af störfum sökum aldurs fyrir nokkru. Hann var ekki starfsmaður kirkjunnar þegar brotið var framið. Hann starfaði ekki fyrir kirkjuna þegar biskup hafði spurnir af málinu og varð við ósk málsaðila um áheyrnarfund árið 2015.

Vilji minn til að bregðast faglega og rétt við í áreitnis- og ofbeldismálum er einlægur. Ég leitast við að hjálpa þeim sem óska hjálpar, hlusta á þá sem óska áheyrnar og taka réttar ákvarðanir á grundvelli óháðrar lagaráðgjafar ef hún á við. Ég hafna alfarið ásökunum um óeðlileg afskipti af viðkvæmum málum. Ég óska þess að fjallað sé um viðkvæm og erfið mál af sanngirni og án stóryrða sem standast illa og jafnvel alls ekki skoðun.

Kirkjan er ein af fáum stofnunum sem vinnur eftir skýrum reglum þegar grunur leikur á áreitni eða broti af kynferðislegum toga. Markmið reglnanna er að tryggja stuðning við þolendur sem oft geta ekki gripið til lagalegra úrræða, t.d. ef mál eru fyrnd í skilningi hegningarlaga. Þolandinn ræður því sjálfur hvort máli er vísað til meðferðar hjá úrskurðarnefnd, hvort mál er gert opinbert eða hvort unnið er úr því með öðrum hætti. Ekki er gripið fram fyrir hendurnar á þolanda og mál eru ekki sett til úrvinnslu í óþökk þolanda.

Vegna ofangreindrar umfjöllunar beindi blaðamaður Stundarinnar nokkrum spurningum til mín. Spurningarnar og svör mín við þeim eru hér meðfylgjandi, til upplýsingar fyrir þá sem vilja kynna sér málið.

Spurning 1: Hversu oft hefur þú, sem biskup Íslands, haft beina aðkomu að úrvinnslu mála sem umrætt fagráð þjóðkirkjunnar hefur haft til meðferðar? Mál sem berast fagráði þjóðkirkjunnar eru á forræði þess sem þangað leitar. Hlutverk ráðsins er að veita aðstoð og fyrirgreiðslu, svo mál komist í þann farveg sem þolandi í máli óskar. Sjálf hef ég ekki beina aðkomu að úrvinnslu mála sem fagráðið hefur til meðferðar, en hef lagt mig fram um að veita stuðning ef þolandi óskar eftir því. Sá stuðningur getur verið andlegur, en felur ekki í sér efnisleg afskipti eða frumkvæði að úrvinnslu málsins. Sem æðsti embættismaður kirkjunnar ber ég hins vegar stjórnunarlega ábyrgð á ýmsum málum og get ekki vikið mér undan því þegar erfið mál koma upp. Þannig getur það til dæmis gerst, að ég verði að senda málsaðila eða meintan geranda í leyfi á meðan mál er til úrvinnslu.

Spurning 2: Hver eru þín svör, skýringar á þessari gagnrýni úrskurðarnefndarinnar?
Af ýmsum ástæðum kom gagnrýnin mér mjög á óvart. Í fyrsta lagi hafði ég engin efnisleg afskipti af þeim málum sem úrskurðarnefnd hafði til úrvinnslu. Í öðru lagi hafði ég leitað ráða hjá lögmannsstofu embættisins sem gjörþekkir mál af þessu tagi, lög og starfsreglur kirkjunnar. Og í þriðja lagi segir nefndin sjálf í sínum úrskurði, að það sé utan hennar verksviðs að fjalla um mína málsmeðferð. Því mótmæli ég ekki.
Hinu gengst ég við, að hafa sent meintan geranda í leyfi á meðan málið var til úrvinnslu. Það var bæði gert af virðingu við söfnuðinn sem umræddur prestur þjónaði og aðila málsins, sem annars hefðu þurft að vinna saman, jafnvel daglega, á meðan málið væri í gangi.
Ég lít á það sem mína skyldu, að taka alvarlega ásakanir um óviðeigandi háttsemi presta eða annarra starfsmanna kirkjunnar. Það á sérstaklega við þegar grunur leikur á áreiti af kynferðislegum toga eða öðru ofbeldi. Kirkjan hefur verið gagnrýnd fyrir að taka ekki á slíkum málum af nægilegri festu, en það þarf enginn að efast mína afstöðu: Mér finnst óhugsandi að biskup stígi til hliðar og bregðist ekki við ef einstaklingur leitar til embættisins eftir hjálp við að leysa úr erfiðum málum.

Spurning 3: Í öðru máli hafðir þú einnig aðkomu að því að sáttafundur var haldinn á milli NN og YY, sem NN beitti kynferðislegu ofbeldi þegar hún var barn. Af hverju valdir þú að hafa aðkomu að því máli persónulega í stað þess að úrskurðarnefndin tæki það fyrir? Var það sökum þess að brotaþoli vildi ekki málið fengi efnislega meðferð hjá úrskurðarnefndinni en kaus einhvers konar lúkningu með aðkomu þinni, þjóðkirkjunnar? Mín aðkoma að þessu máli – ef hægt er að nota það hugtak í þessu tilviki – fólst í því að taka á móti fólki sem óskaði eftir fundi með mér. Ég hafði hvorki frumkvæði að þeim fundi, né steig ég inn í umrætt mál með neinum hætti, heldur hlustaði á sjónarmið málsaðilanna og hjálpaði vonandi þannig til við að græða gömul sár. Um efnisatriðin get ég ekki tjáð mig, en ég get staðfest að málið er nærri 70 ára gamalt og tengdist kirkjunni ekki með neinum hætti á sínum tíma. Annar málsaðilanna varð síðar starfsmaður kirkjunnar, en var hættur störfum þegar leitað var til mín.

Spurning 4: Getur þú lýst málsmeðferð ofangreinds máls NN og YY innan þjóðkirkjunnar? Hvernig var ákvarðanatakan í málinu, ferlið? Hvernig kom málið til kasta fagráðsins og síðan biskups Íslands? Málið var á forræði Fagráðsins, eftir að annar málsaðila leitaði þangað. Sjálf hafði ég ekki aðkomu né vitneskju um málið fyrr en óskað var eftir áðurnefndum fundi með mér. Fagráð verður því að svara fyrir málsmeðferðina, hvernig málið upphaflega kom til þeirra og hvernig ákvarðanatakan var í málinu.

Spurning 5: Hvenær kom mál NN og YY fyrst inn á borð til þjóðkirkjunnar og af hverju var ekkert gert í því fyrr en í biskupstíð þinni? Aðilar utan fagráðs – þar með talinn sjálfur biskupinn – hafa ekki sjálfkrafa vitneskju um þau mál sem berast til fagráðs. Þolandi hefur forræði í sínu máli, nema þegar um börn er að ræða. Þá ber skilyrðislaust að tilkynna þar til bærum yfirvöldum um málið. Ég get því ekki svarað því hvenær málið kom fyrst inn á borð kirkjunnar.

Spurning 6: YY fundaði ítrekað með formanni fagráðsins í aðdraganda þess að sáttafundurinn var haldinn. Getur þú lýst því hvernig sú hugmynd kom upp að best væri að halda sáttafund á milli aðila málsins?
Í mestu vinsemd verð ég enn og aftur að vísa á fagráðið sjálft, sem svarar fyrir sitt vinnulag, væntanlega í samráði við þolandann svo trúnaður sé virtur og ekki sé gengið á rétt þolanda.

Spurning 7: Greiddi þjóðkirkjan einhvern kostnað fyrir sálgæslu eða sálfræðiþjónustu handa YY eftir að það kom upp? Hvernig var stuðningi þjóðkirkjunnar við hana, sem fórnarlambs kynferðisofbeldis kirkjunnar manns, háttað? Ég hef ekki upplýsingar um slíkt, enda vinnur fagráðið sitt verk án minnar aðkomu og deilir ekki gögnum máls með mér nema þolandi óski þess. Annars má vekja athygli á því, að fagráðið er skipað fagfólki – þ.m.t. sálfræðingi – sem getur veitt málsaðilum stuðning. Kirkjan ber vissulega kostnaðinn af starfi fagráðsins, en ég fæ ekki upplýsingar um kostnað við einstök mál.
Vegna orðalags í spurningunni þinni – um „kynferðisofbeldi kirkjunnar manns“ – vil ég árétta það sem ég sagði áður, að gerandinn starfaði ekki innan kirkjunnar þegar umrætt atvik átti sér stað.

Spurning 8: Telur þú að ofangreind gagnrýni úrskurðarnefndarinnar eigi einnig við um aðkomu þína að máli NN og YY eða telur þú svo ekki vera? Ég tel tilfellin vera lík í þeim skilningi að það er ekki ekki gert ráð fyrir aðkomu biskups að lúkningu kynferðisbrota sem koma inn á borð fagráðsins. Málin tvö eru mjög ólík en í hvorugu þeirra hafði ég efnisleg afskipti af úrlausninni. Í öðru þurfti ég að taka stjórnunarlega ákvörðun sem sneri að starfsfólki og þjónustu við söfnuðinn. Í hinu veitti ég málsaðilum áheyrn, að þeirra eigin ósk.

Spurning 9: Í kjölfar gagnrýni úrskurðarnefndarinnar munt þú þá, sem biskup Íslands, halda áfram að hafa aðkomu að kynferðisbrotamálum sem koma til fagráðsins eða muntu ekki gera það? Ég mun ekki frekar en hingað til hafa afskipti af úrvinnslu mála sem berast til fagráðsins. Ég mun hins vegar halda áfram veita málsaðilum þann stuðning sem þeir sjálfir óska eftir. Stjórnunarleg ábyrgð gagnvart starfsfólki, söfnuðum og sóknarbörnum verður áfram á mínum herðum og ég mun áfram leggja mig fram við að taka réttar ákvarðanir.
  • Biskup

  • Biskup

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði