Sá guðlega þenkjandi náttúruskoðari

23. ágúst 2018

Sá guðlega þenkjandi náttúruskoðari

Sá guðlega þenkjandi náttúruskoðari – Ráðstefna um Jón lærða Jónsson í Möðrufelli í Eyjafirði

Ráðstefnan verður haldin í félagsheimilinu Laugarborg, Hrafnagili laugardaginn 8. september n.k. kl. 11-17

Ekkert ráðstefnugjald er né þörf að skrá sig en þeir sem eru ákveðnir að koma geta látið Guðmund vita á gudmundur.gudmundsson@kirkjan.is eða í síma 897 3302. Veitingar verða í boði á staðnum á vægu verði.





Ráðstefna um efni sem skiptir máli úr fortíðinni fyrir framtíðina. Kastljósinu verður beint að Jóni Jónssyni (1759-1846), presti í Grundarþingum, fróðum manni með vakandi huga fyrir náttúru og samfélagi, en einnig menningu og trúarbrögðum á hans tímum.

Í Grundarkirkju var bókasafn á kirkjuloftinu frá Jóni síðan 1839 sem nú hefur verið skráð og verður opnuð sýning á því í lok ráðstefnunnar á bókasafninu á Hrafnagili. Þá verður einnig greint frá handritum sem Jón yngri eða lærði, sem urðu viðurnefni hans, skrifaði. Þar á meðal eru veðurdagbækur sem faðir hans Jón Jónsson eldri byrjaði á og Jón yngri hélt áfram með og spanna nær 100 ár. Náttúruleg guðfræði var stunduð á þessum árum þar sem sköpunarverkið var skoðað til að skilja Guð og veröldina (það var fyrir daga Darwins).

Spurt verður: Geta vísindi liðins tíma lagt eitthvað til málanna? Jón þýddi bók Shums nokkurs sem ber heitið Sá guðlega þenkjandi náttúrskoðari, sem fær sérstaka athygli á ráðstefnunni. Jón lærði hefur orðið að bókmenntapersónu og sögur af honum hafa vakið athygli. Þær eru nokkuð mótsagnakenndar svo spurt er um hans heittrúuðu harðneskju, en einnig gamansemi, staðfestu og þjónustulund. Leitast er við að varpa ljósi á staðbundna sögu og menningu í Eyjafirði og setja í samhengi þegar lútherskur réttrúnaður mætti upplýsingastefnunni og skynsemishyggju.

Þá var Jón í sambandi við menn erlendis þar sem kirkjur mótmælenda voru að hefja umtalsvert trúboð sem gerði þær að alþjóðlegri hreyfingu. Verða kynntar til sögunnar heimildir um það og sagt frá þátttöku Jóns varðandi það hugðarefni sitt.
Dagskrá

Staður: Laugarborg á Hrafnagili í Eyjafjarðarsveit

Tími: Laugardaginn 8. september kl. 11-17.

11:00–11:15 Setning
Ávarp í upphafi – kynning á dagskrá, efnistökum og fyrirlesurum

Stjórnandi ráðstefnunnar: Hjalti Hugason, prófesssor í kirkjusögu

11:15–12:15 Maðurinn Jón lærði, sögusvið og einstaklingur

Heittrúuð harðneskja. Af séra Jóni, tíðaranda og menningarástandi
Viðar Hreinsson, bókmenntafræðingur

12:15–13:00 Hádegisverður/Hádegishlé – Boðið upp á veitingar á vægu verði

13:00–15:00 Jón lærði, fræðarinn og náttúruvísindin
Sá Guðlega þenkjandi náttúruskoðari
Bjarni E. Guðleifsson, prófessor emeritus í náttúrufræði, lesa valda kafla úr ritinu.

Náttúrskoðarinn og vísindasagan
Þorsteinn Vilhjálmsson, prófessor emeritus í eðlisfræði og vísindasögu

Handrit á handritadeild og Veðurdagbækurnar úr Eyjafirði
Sjöfn Kristjánsdóttir, handritafræðingur

15:00– 15:20 Kaffi

15:20–16:35 Jón lærði, embættismaðurinn, guðfræðingurinn og hugsjónamaðurinn Maður á mörkum — Jón lærði, hugarfar, guðfræði og trú
Hjalti Hugason, prófessor í kirkjusögu

Presturinn og trúboðsáhugamaðurinn, „útbreiðsla Guðs ríkis“ meðal framandi þjóða, Guðmundur Guðmundsson, héraðsprestur

Umræður verða eftir hvern fyrirlestur og samantekt í lokin

16:45 Opnun sýningar á „Safni Jóns lærða“ á bókasafninu á Hrafnagili
Kynning á bókasafninu og sýningunni
Margrét Aradóttir, bókavörður

Ráðstefnan er styrkt af Norðurorku, Eyjafjarðarsveit og Eyjafjaðar- og Þingeyjarprófastsdæmi.

Undirbúningsnefnd: Bjarni E. Guðleifsson, Guðmundur Guðmundsson, Hjalti Hugason.
Ítarlegri lýsing á fyrirlestrum

11:15–12:15 Maðurinn Jón lærði, sögusvið og einstaklingur
Heittrúuð harðneskja. Af séra Jóni, tíðaranda og menningarástandi

Viðar Hreinsson, bókmenntafræðingur

Steini Surmeli tók 2016.jpg

Viðar Hreinsson í essinu sínu (Myndina tók Þorsteinn Surmeli)

Í erindinu verður lauslega drepið á ættir og uppruna séra Jóns og síðan stiklað á helstu æviatriðum hans, en hann hóf prestskap á einhverjum mestu hörmungartímum Íslandssögunnar. Meðal annars verður staldrað við rímu þá sem hann orti á námsárum sínum um kamarsetu Þorsteins skelks sem fornar sögur greina frá. Þá verða raktar þær sögur sem gengið hafa af siðavandri harðneskju séra Jóns og skýringa leitað í samfélagi og tíðaranda. Loks verður fjallað um menningarástand í samtíma hans og drepið á samspil prentverks og handritamenningar eins og það birtist í Eyjafirði fram á dögum Jóns. Í því skyni verða kallaðir til leiks helstu bókamenn sveitarinnar á dögum Jóns.

12:15–13:00 Hádegisverður/Hádegishlé – Boðið upp á veitingar á vægu verði

13:00–15:00 Jón lærði, fræðarinn og náttúruvísindin
Sá Guðlega þenkjandi náttúruskoðari


Bjarni E. Guðleifsson, prófessor emeritus í náttúrufræði

Bjarni hefur nokkur inngangsorð um afritun ritsins á nútímamál sem hann hefur unnið og les valda kafla úr því.


Náttúrskoðarinn og vísindasagan

Þorsteinn Vilhjálmsson, prófessor emeritus í eðlisfræði og vísindasögu

197898_1004744533321_2044_n.jpgÍ erindinu verður leitast við að skoða rit Suhms og Jóns lærða, Náttúruskoðarann, í samhengi við samtíma þess og umhverfi, einkum frá sjónarmiði vísindasögunnar. Þar koma við sögu bæði eðlisfræði, stjörnufræði og líffræði, en sú síðastnefnda var einmitt á forvitnilegu þróunarskeiði um aldamótin 1800 þegar ritið var skrifað. Einnig verður vikið orðum að höfundinum, Pétri Friðriki Suhm, og náttúruvísindum í Danmörku og Noregi um þetta leyti.
Handrit á handritadeild og Veðurdagbækurnar úr Eyjafirði

Sjöfn Kristjánsdóttir, handritafræðingur

sjofn_kristjansdottir_litur.jpgÍ þessum fyrirlestri munu handrit Jóns Jónssonar lærða skoðuð, þau sem eftir hann liggja í Handritasafni Landsbókasafns. Vel rúmlega hundrað safnmörk í því safni tengjast nafni hans. Þar er um að ræða eiginhandarrit hans á verkum sínum, uppskriftir annarra á textum hans, bréfaskipti og svo kveðskap Jóns víða í handritum. Sérstaklega verður fjallað um veðurdagbækur þær, sem hann og faðir hans Jón Jónsson prestur í Grundarþingum héldu samanlagt í um hundrað ár eða frá 1747 til 1846. Litið verður til gildis þeirra og fræðilegrar notkunar á okkar tímum.

15:00– 15:20 Kaffi

15:20–16:35 Jón lærði, embættismaðurinn, guðfræðingurinn og hugsjónamaðurinn
Maður á mörkum — Jón lærði, hugarfar, guðfræði og trú

Hjalti Hugason, Prófessor í kirkjusögu

sistaed_hjalti_mynd.jpgÍ erindinu verður fengist við hugmyndaheim Jóns lærða Jónssonar á sviði guðfræði og trúar en jafnframt á víðara sviði samfélags og menningar. Sérstaklega verður bent á hvernig hann stóð á mörkum gamals tíma og nýs. Annars vegar má líta á hann sem fulltrúa kerfislægs valds í höndum trúarstofnunar. Hins vegar var hann mótaður af nýrri einstaklingshyggju sem óx hröðum skrefum um hans daga. Þá var hann líka mótaður af ólíkum guðfræðilegum hugmyndastraumum og má þar einkum nefna lútherskan réttrúnað og píetsima. Í fyrirlestrinum verður grafist fyrir um hvernig félags- og menningarlegir þættir, guðfræðistraumar og persónulegir eiginleikar og skaphöfn mótuðu hugmyndir og athafnir Jóns.
Presturinn og trúboðsáhugamaðurinn,
„útbreiðsla Guðs ríkis“ meðal framandi þjóða

Guðmundur Guðmundsson, héraðsprestur

safn_jonslaerda

„Safn Jóns lærða“ skoðað af fyrirlesara í fyrsta sinn vorið 2013 (Mynd: Pétur B. Þorsteinsson)

Sr. Jón Jónsson í Möðrufelli tengdist alþjóðlegri trúboðshreyfingu. Hann var í bréfaskiptum við menn erlendis sem Ebeneser Henderson kom honum m. a. í samband við eftir trúboðsferð sína til Íslands 1814-15. Bonne Falk Rönne formaður danska trúboðsfélagsins var einn þeirra og styrkti sr. Jón danska trúboðsfélagið um árabil. Smárit hans, fyrsta kristilega og evangeliska tímaritið á Íslandi, endurspeglar bókasafnið sem var lengi á kirkjuloftinu á Grund. Á þessu árum hefst sú þróun að mótmælendakirkjurnar verða alþjóðlegar eins og við þekkjum þær í dag með lútherska heimsambandinu og heimsráði kirkna með annarri nálgun við fólk af öðrum trúarbrögð en á dögum sr. Jóns.

Umræður verða eftir hvern fyrirlestur og samantekt í lokin.

16:45 Opnun sýningar
„Safni Jóns lærða“ á bókasafninu á Hrafnagili

Kynning á bókasafninu og sýningunni
Margrét Aradóttir, bókavörður
  • Auglýsing

  • Fræðsla

  • Viðburður

  • Fræðsla

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju