Biskupar norðurlandanna funda um framtíð norðurskautsins

18. október 2018

Biskupar norðurlandanna funda um framtíð norðurskautsins

Næsta sunnudag 21 október mun Agnes M. Sigurðardótir, biskup Íslands, ásamt fjórum öðrum biskupum frá Norðurlöndunum, taka þátt í pallborðsumræðu á ráðstefnunni Arctic Circle, sem fram fer í Hörpu, undir yfirskriftinni: Umbreyting lífshátta. Umræðunni verður stjórnað af Ögmundi Jónassyni, fyrrum ráðherra og ásamt Agnesi verða viðmælendur þau dr. Antje Jackelén, erkibiskup í Uppsölum í Svíþjóð, Helga Haugland Byfuglien, höfuðbiskup norsku kirkjunnar, dr. Tapio Luoma, erkibiskup Turku og Finnlands, og sr. Jógvan Friðriksson Færeyjabiskup.

Fyrr um daginn munu þau svo prédika í kirkjum fimm sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Hvernig tengist kristni umhverfisvernd?

Eins og ný skýrsla Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna sýnir svart á hvítu þá er alvarleiki loftslagsbreytinga slíkur að enginn getur látið sitt eftir liggja. Í síðasta mánuði kynnti þjóðkirkjan aðgerðaráætlun sína í umhverfismálum undir yfirskriftinni Græn kirkja. Agnes biskup segir að það sé mikilvægt að kirkjan nýti rödd sína og áhrif til að setja umhverfismál á oddinn.

„Umhverfið er hluti af sköpun Guðs og menn bera ábyrgð gagnvart sköpunarverkinu. Við eigum að nýta náttúruna en ekki valta yfir hana,” segir Agnes. „Við höfum því miður ofgert Guðs góðu sköpun þannig að nú er svo komið að við höfum aðeins nokkur ár til að bregðast við loftslagsbreytingunum sem því fylgir.”

Hún segir að kirkjan eigi að vera málsvari alls sem lifir og sérstaklega þeirra sem hafa orðið undir í lífsbaráttunni eða þeirra sem þjást vegna ákvarðana sem skaða lífsmöguleikana á einn eða annan hátt. Í ljósi þess hefur hún, ásamt fjölmörgum biskupum Evrópu skrifað undir yfirlýsingu sem hvetur stjórnvöld til að leggja bann við notkun svartolíu á Norðurslóðum.

„Ég lít svo á að biskupar eigi að viðhafa siðferðilega nálgun á þessi mál því þau snúast ekki bara um vísindalega nálgun. Við mannfólkið höfum brotið siðferðilega á móður jörð í umgengni við hana,” segir Agnes. ”Stjórnmálamenn, fræðimenn, kirkjur heimsins og almenningur verður að vinna saman og við þurfum að herða okkur. Nýjasta skýrsla Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar telur að við höfum aðeins 12 ár til að bregðast við vandanum.”

  • Alþjóðastarf

  • Biskup

  • Ráðstefna

  • Biskup

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju