Ávarp fjármálaráðherra á kirkjuþingi

3. nóvember 2018

Ávarp fjármálaráðherra á kirkjuþingi

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, flutti ávarp við opnun kirkjuþings 2018 í Vídalínskirkju í Garðabæ fyrr í dag. Ávarpið má lesa hér fyrir neðan:

 

Biskup Íslands, fulltrúar kirkjuþings.

Það er mér ánægja að fá þetta tækifæri til að ávarpa, hér í Vídalínskirkju í Garðabænum, þetta kirkjuþing.  Ég stend hér í forföllum hæstvirts dómsmálalaráðherra, Sigríðar Á Andersen.

Mig langar að gera að umtalsefni samskipti þjóðkirkjunnar og ríkisins.

Á þessu ári eru liðin tuttugu ár síðan lög nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar tóku gildi. Lögin voru afrakstur nefndarstarfs sem staðið hafði frá árinu 1993 og höfuðforsendur þess voru þrjár: 

  • Í fyrsta lagi að veruleg aukning á innra starfi kirkjunnar og örar breytingar á því kölluðu á breytingar á kirkjulöggjöfinni og jafnframt á aukna og styrkta stjórnsýslu á kirkjulegum vettvangi. 
  • Í öðru lagi að búsetu- og þjóðfélagsbreytingar, ásamt breyttum og bættum samgöngum, kölluðu á aukinn sveigjanleika í starfi kirkjunnar. 
  • Í þriðja lagi að umræða á pólitískum vettvangi um að endurskoða þyrfti samband ríkis og kirkju kallaði á svar stjórnvalda og kirkjunnar sjálfrar um heppilega og eðlilega framtíðarskipan um stöðu hennar. 

Eins og þið heyrið, þá hljómar flest í þessum tuttugu ára gömlu forsendum mjög kunnuglega í dag. Enn stöndum við í þeim sporum að kirkjan þarf meiri sveigjanleika í sínu starfi og meira sjálfstæði. Bæði til að svara breyttum þjóðfélagsaðstæðum og til að svara ákalli um aukið sjálfstæði kirkjunnar frá ríkisvaldinu.  Það er líka svo, að á vegum kirkjuþings hefur allt frá árinu 2007 staðið yfir vinna við endurskoðun laganna frá 1997.

En það eru þó ekki bara lögin sjálf um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar sem hafa kallað á endurskoðun. Það sama á ekki síður við um þá samninga sem eru í gildi á milli ríkisins og kirkjunnar. Með svonefndu kirkjujarðasamkomulagi voru árið 1997 settar niður gamlar deilur um uppgjör vegna fjölda fasteigna sem ríkið hafði fengið frá kirkjunni. Fjárhagsleg samskipti ríkis og kirkju voru svo útfærð enn frekar í samningi árið 1998. Samkvæmt þessum samningum greiðir ríkið laun ákveðins hóps starfsmanna þjóðkirkjunnar, en kjararáð hafði það hlutverk að úrskurða um fjárhæð launanna og þar með um endanlega fjárhæð árlegs gagngjalds ríkisins fyrir umræddar jarðir. Nú hefur kjararáð verið lagt niður og um þessar mundir stendur yfir kynning á nýju fyrirkomulagi við launasetningu hjá miklum fjölda ríkisstarfsmanna. Það verður því einfaldlega ekki hjá því komist að endurskoða það hvernig við reiknum gagngjaldið frá ári til árs.

Fulltrúar ríkisins og kirkjunnar hafa undanfarið ræðst við um hvernig eigi að bregðast við þessu og hvaða skref eigi að taka fram á við. Þær viðræður eru nú mjög langt komnar og mér virðist rétt að við reynum að ljúka þeim á allra næstu vikum.

Ég tel langskynsamlegast að við notum þetta tækifæri til að taka stór skref til að þróa áfram fyrirkomulagið á samskiptum ríkis og kirkju. Ég vil setja fram nokkra punkta sem ég og kirkjumálaráðherrann myndum gjarnan vilja að við yrðum öll sammála um.

  1. Í fyrsta lagi vil ég árétta að sú greiðsla sem ríkið greiðir kirkjunni árlega á grundvelli Kirkjujarðasamkomulagsins felur í sér gagngjald fyrir fasteignir. Það framlag verði ekki skert með neinum hætti. Það er mikilvægt að halda þessu skýrlega til haga því í opinberum umræðum heyrast oft raddir sem ganga út frá því að þetta framlag ríkisins sé einhvers konar örlætisgerningur sem megi missa sín. Þetta framlag þarf hins vegar að verða ótengt innri starfsemi þjóðkirkjunnar, svo sem launagreiðslum einstakra starfsstétta eða rekstrarkostnaði.

     

  2. Í öðru lagi tel ég rétt að kirkjan taki alfarið við eigin starfsmannamálum

     

  3. Í þriðja lagi tel ég að við eigum að reyna að einfalda fjárhagslega umgjörð um samskiptin þannig að þær greiðslur sem í dag renna í kristnisjóð, kirkjumálasjóð, jöfnunarsjóð sókna og til höfuðkirkna, fari einfaldlega til kirkjunnar og hún beri sjálf ábyrgð á því hvernig hún ver þessu fé. Ríkið hlutist sem minnst um fjárhagsmálefni hennar eða skiptingu og ráðstöfun fjárframlaga. Ég vil líka árétta að af minni hálfu stendur ekki til að þessi framlög skerðist frá því sem nú er.

 

Allt kallar þetta á umræður og ég þykist vita að þið eigið eftir að ræða þessi mál hér á þinginu. Dómsmálaráðherra hefur líka farið yfir það frumvarp til nýrra þjóðkirkjulaga sem síðasta kirkjuþing ályktaði um. Niðurstaða þeirrar yfirferðar er að það frumvarp gæti að langmestu leyti verið lagt fyrir Alþingi sem stjórnarfrumvarp, þótt ráðuneytið telji auðvitað nauðsynlegt að fara yfir einstök efnisatriði.

Ég vil ekki skorast undan því að ræða í þessu samhengi um þá ágjöf sem við sitjum undir, sem freistum þess að ná sáttum um að þróa áfram fyrirkomulagið á fjárhagslegum samskiptum ríkis og kirkju. Það er lítil sanngirni í málflutningi sumra þeirra sem hæst tala um aðskilnað ríkis og kirkju og um að best færi á því að ríkið hætti algjörlega að hafa nokkur afskipti af fjármálum neinna trúfélaga.

Oft virðist manni sem málflutningur af þessu tagi stafi einkum frá mjög ungu fólki, sem ekki hefur lent í neinum áföllum og hefur ekki séð það starf sem kirkjan vinnur við sálusorgun og ýmis konar félagsþjónustu.

En jafnvel á Alþingi er töluverður hópur þingmanna sem virðist ekki tilbúinn til að viðurkenna að neinu leyti að þjóðkirkjan hafi hlutverk eða eigi erindi við samtímann. Ekki heldur til að virða þá samninga sem gerðir hafa verið.

Þetta gerir það enn brýnna en ella að ríkið og kirkjan nái sem fyrst saman um að þróa áfram samband sitt og sjálfstæði kirkjunnar innan skynsamlegs ramma, sem unnt er að ná sæmilega víðtækri sátt um.

 

Ágætu fundarmenn

Starf þjóðkirkjunnar er mikilvægt, ekki síður en starfsemi ríkisins og miklu skiptir að störf ykkar sem hafa valist á kirkjuþing verði farsæl. Framundan er þing sem ég vona að verði bæði starfsamt og árangursríkt. Ég óska ykkur blessunar og velgengni í störfum ykkar. 

 

 

    Hof í Vopnafirði

    Laust starf organista

    21. des. 2024
    ...við Hofsprestakall
    Jólastemmning í Hafnarfjarðarkirkju

    Forseti Íslands á jólavöku kirkjunnar

    20. des. 2024
    ... haldið uppá 110 ára vígsluafmæli Hafnarfjarðarkirkju
    Orgelnemendur við Klais orgelið

    Börn fengu að að spila á Klais orgelið

    19. des. 2024
    ...jólatónleikar Tónskóla Þjóðkirkjunnar