Setningarræða forseta kirkjuþings

5. nóvember 2018

Setningarræða forseta kirkjuþings

Kirkjuþing 2018, 57 kirkjuþing hinnar íslensku þjóðkirkju er sett.

Velkomin til kirkjuþings, kirkjuþingsfulltrúar og góðir gestir, og einkum þið sem sem nú setjist á kirkjuþing í fyrsta skipti.

Ég býð fjármálaráðherra, Bjarna Benediktsson velkominn og þakka honum fyrir þá vinsemd sem hann sýnir kirkjuþingi með því að vera hér með okkur í dag.

Í dag er einnig rétt að heilsa sérstaklega gömlum félaga sem er kominn til kirkjuþings á ný, í nýju hlutverki. Vertu hjartanlega velkominn sr. Kristján Björnsson vígslubiskup í Skálholti, fyrrum kirkjuþingsfulltrúi og kirkjuráðsmaður.

Legg þú á djúpið eftir Drottins orði
og æðrast ei, því nægja mun þinn forði,
þótt ómaksför þú farir marga stund.
Ef trú og dáð og dugur ei þig svíkur,
er Drottinn lífs þíns ennþá nógu ríkur
og mild hans mund.

Legg þú á djúpið, þú, sem enn ert ungur,
og æðrast ei, þótt straumur lífs sé þungur,
en set þér snemma háleitt mark og mið,
haf Guðs orð fyrir leiðarstein í stafni
og stýrðu síðan beint í Jesú nafni
á himins hlið.

Þessi sálmur eftir Matthías Jochumsson er mér mjög eftirminnilegur. Sérstaklega 1. og 3. versið sem ég las. Þegar Sr. Bragi Friðriksson sóknarprestur hér í Garðasókn var með okkur krakkana í fermingarfræðslu horfði hann í augun á okkur og sagði okkur að nú stæðum við á tímamótum í lífinu. Við værum að slíta barnsskónum og þyrftum að undirbúa okkur fyrir lífsbaráttuna. Ýmsar ákvarðanir sem við tækjum nú myndu hafa áhrif á allt okkar líf. Það væri því mikilvægt að velja hvernig við stýrðum okkar fleyi. Lífið gæti verið mikið ævintýr en enginn mundi komast í gegnum það án þess að takast á við áföll, áskoranir, ógn, tækifæri og breytingar. Við værum að leggja í ferð, leggja á djúpið. Hann vildi að við lærðum þennan sálm því boðskapur hans væri frábært veganesti. Sr. Bragi bað okkur um að hafa sálminn í huga ekki aðeins í fermingartímunum heldur í hvert sinn sem við stæðum á vegamótum í lífinu.

Fyrir fjórum árum óskaði ríkisvaldið eftir viðræðum við þjóðkirkjuna um fjárhagsleg samskipti. Kirkjuþing varð við því og kosinn var viðræðunefnd sem í voru auk mín þau Jónína Bjartmarz og Óskar Magnússon.

Af hálfu ríkisins voru viðræðurnar leiddar af ráðuneytisstjórum í forsætis- fjármála- og dómsmálaráðuneyti. Að auki hafa ýmsir sérfræðingar komið að þessari vinnu.

Ég vil nota tækifærið og þakka fulltrúum ríkisins í þessum viðræðum fyrir góða samvinnu, heiðarleg og hreinskiptin skoðanaskipti og fagleg og góð vinnubrögð.

Á ýmsu hefur gengið á þessum fjórum árum en í haust komst skriður á samtal milli aðila og stutt er í að drög að samkomulagi verði tilbúinn. Gerð verður grein fyrir stöðunni á þessum viðræðum á sérstökum fundi kl. 13.00 á þriðjudag.

Í upphafi viðræðnanna vildi ríkið hafa það að leiðarljósi í samtalinu að stefnt væri að mjög auknu sjálfstæði þjóðkirkjunnar og að fjárhagsleg samskipti ríkis og kirkju væru einfölduð. Þegar þessar viðræður fóru aftur af stað í haust kom enn betur í ljós að það er vilji ríkisins að það hafi sem minnst afskipti af starfi kirkjunnar. Hugmynd ríkisins er að þjóðkirkjan annist um öll sín mál sjálf, prestar verði starfsmenn kirkjunnar en ekki embættismenn ríkisins. Fjármál öll þ.m.t. bókhald og endurskoðun verði ekki á ábyrgð ríkisins heldur taki þjóðkirkjan við þeim verkefnum öllum. Ráðherra annist ekki um verðskrá fyrir aukaverk presta og greiðslur samkvæmt kirkjujarðarsamkomulaginu verði ekki háðar fjölda presta eða annarra starfsmanna. Sem sagt sjálfstæð þjóðkirkja sem ber ábyrgð á sjálfri sér. Þjóðkirkja sem þarf að leggja á djúpið við talsvert breyttar aðstæður.

Ef niðurstaða samtalsins verður þessi og ef í framhaldinu samþykki kirkjuþing og alþingi slíkan samning mun það þýða breytingar. Þetta mun kalla á lagabreytingar og að kirkjuþing setji starfsreglur sem komi í stað þeirra laga sem verður breytt eða feld á brott. Þá er spurning hvort skipulag kirkjunnar sé það skipulag sem best hentar henni til að takast á við þær áskoranir sem blasa við.

Að mínu mati þarf kirkjuþingið að ræða í hreinskilni hvar þjóðkirkjan er stödd, hvert fólk vilji að hún fari og svo auðvitað hvernig komast megi á áfangastað.

Auknu sjálfstæði fylgir aukin ábyrgð. Ríkisvaldið ætlast til þess að ef þessar breytingar verði að veruleika þá sé umsýsla kirkjunnar með þá fjármuni sem ríkið mun greiða þjóðkirkjunni vönduð, reglur skýrar, ákvarðanataka og uppgjör í samræmi það sem best þekkist í þeim efnum. Það eru og hagsmunir þjóðkirkjunnar að svo sé. Vönduð stjórn og fjársýsla hefur áhrif á viðhorf fólksins í landinu til kirkjunnar og það viðhorf mun skipta miklu. Sjálfstæðari kirkja í breyttu lagaumhverfi mun þurfa að taka ábyrgð í ríkari mæli á ýmsum viðfangsefnum.

Breytt lög um skráningu barna í trúfélög munu hafa áhrif á fjölda þeirra sem skráðir eru í þjóðkirkjuna þegar þau börn sem fædd eru eftir að lögin tóku gildi verða 16 ára. Þjóðkirkjan þarf að huga að félagatali sínu, ekki bara eftir 10 ár heldur strax. En það er ekki einfalt. Ný persónuverndarlög gera þetta erfitt. Má í því sambandi vísa í frétt í Morgunblaðinu s.l. fimmtudag á bls. 6 um breyttar reglur hjá Þjóðskrá. Fjöldi félaga í þjóðkirkjunni hefur bein áhrif á greiðslur til þjóðkirkjunnar samkvæmt kirkjujarðarsamkomulaginu og greiðslum til sjóða sem og auðvitað heildarupphæð sóknargjalda. Til að tryggja fjárhagstöðu kirkjunnar þarf að huga að fjölda skráðra sóknarbarna.

Þau koma upp í hugann orðin úr Matteusi 4. kafla, 19. versi.
„Komið og fylgið mér, og mun ég láta yður menn veiða”.

Þetta verður eitt af stóru verkefnum þjóðkirkjunnar til að tryggja félagafjölda, getu til að veita fólki góða þjónustu og svo auðvitað til að sinna skyldu sinni samkvæmt 28. kafla Matteusarguðspjalls um kristniboðskipunina í versi 19. og 20.

Það er ekki ósennilegt að það þurfi að svara spurningunni: „Af hverju á ég að vera í þjóðkirkjunni, hvað fæ ég út úr því?“. Á að vera munur á aðgengi að þjónustu eftir því hvort einstaklingur sé meðlimur í þjóðkirkjunni eða ekki? Á að vera verðmunur? Slíkt fyrirkomulag þekkist í öðrum löndum. Er tækifæri í því ef kirkjan verður vinnuveitandi presta að semja þannig að fyrir hin svokölluðu aukaverk verði greitt í föstum launum. Sem gæti þýtt að meðlimir í þjóðkirkjunni fengju þá þjónustu án aukagjalds en þeir sem ekki væru félagar greiddu samkvæmt verðskrá. Nú er ég ekki að leggja neitt að þessu til heldur aðeins að nefna þessi dæmi til að vekja fólk til umhugsunar um að það eru talsverðar breytingar framundan og að við þeim breytingum þarf að bregðast.

Leggja á djúpið með skýra sýn og háleit mark og mið.

Það er m.a. hlutverk ykkar kæru kirkjuþingsfulltrúar að takast á við þetta verkefni. Það verður vandasamt. En þá er gott að hafa í huga að breytingar eru ekki alltaf bara ógn, þær geta líka verið tækifæri. Það geta til dæmis falist tækifæri í auknu sjálfstæði þjóðkirkjunnar til að gera skipulagsbreytingar og aðlaga sig betur að síbreytilegu samfélagi. Það geta falist í því tækifæri að skoða hvort sama skipulag henti í dreifbýli og þéttbýli. Hvaða fyrirkomulag hentar best til að tryggja fólki góða þjónustu? Hvað hentar best til að laða fólk að starfi kirkjunnar og þátttöku í því?

Á undaförnum árum þar sem ég hef verið í sóknarnefnd og setið á kirkjuþingi hef ég betur gert mér grein fyrir því hve lítið ég vissu áður um starf kirkjunnar og þá miklu og víðtæku þjónustu sem hún veitir. Samt var ég ekki óvirkur innan hennar áður. Það er mjög mikilvægt að sú víðtæka þjónusta sem þjóðkirkjan veitir sé kynnt fólki betur en nú er gert. Það þarf að gera til þess að gera þá þjónustu aðgengilegri, til þess að gefa þjóðinni betri upplýsingar um hvað gert sé við þá fjármuni sem kirkjan fær greitt af skattfé og til að tryggja stöðu hinnar íslensku þjóðkirkju hjá þjóðinni. Í þessu sambandi vil ég enn á ný minna á orð Þorsteins Pálssonar fyrrverandi dóms- og kirkjumálaráðherra þegar hann koma og ræddi við okkur hér á vettvangi kirkjuþings 2013 og minnti okkur á mikilvægi þess að kirkjan hugaði vel að baklandi sínu.

Tempus fugit - tíminn flýgur.
Þetta er 7. kirkjuþing sem ég set en jafnframt það síðasta. Eftir þau átta ár sem ég hef setið á kirkjuþingi þá er auðvitað margs að minnast. Efst í huga mínum er þakklæti fyrir að hafa fengið að kynnast svo mörgu hæfileikaríku og skemmtilegu fólki. Fólki sem virkilega ann þjóðkirkjunni og leggur töluvert á sig til að sinna hagsmunum hennar og oft töluvert meira til að tryggja að kirkjan veiti fólki sem besta þjónustu. Þá vil ég einnig nefna það hér að ég ber mikla og djúpa virðingu fyrir öllum sjálfboðaliðunum sem leggja svo mikið til kirkjustarfs á Íslandi. Það munar heldur betur um þau öll.

Sem forseti kirkjuþings hef ég auðvitað átt samskipti við fjölda fólks. Þau hafa verið lærdómsrík, oft skemmtileg en ekki alltaf auðveld. Það er nú svo að fólk hefur ákveðnar skoðanir og jafnvel djúpa sannfæringu fyrir ýmsu sem varðar kirkjuna. Stundum hefur jafnvel hvesst í samtölum og einhverjum sárnað. Ég verð að segja að mér finnst mun betra að takast á við slíkt frekar en tómlætið að fólki sé meira og minna sama. Ef fólki er sama um kirkjuna þá skiptir hún litlu máli. Það er eðlilegt að í svona stórri kirkju séu skiptar skoðanir og mismunandi áherslur. Við eigum ekki að óttast hreinskilið samtal en það er rétt að hafa áhyggjur af tómlæti. Það að við höfum ólíkar skoðanir og mismunandi áherslur þarf samt ekki að þýða að við getum ekki öll unnið vel saman. Með því að bera virðingu fyrir ólíkum skoðunum forðumst við sundurlindi en sundurlyndið hefur lengi verið slæmt mein innan þessarar kirkju.

Að lokum langar mig að vitna í setningarræðu Péturs Hafstein forseta kirkjuþings á aukakirkjuþingi 2011.

„Við verðum að draga bjálkann úr eigin auga og leggja allt í sölurnar til að endurheimta traust og trúnað þjóðarinnar svo að áfram geti verið hér í landi sú samfylgt kirkju og ríkis, kirkju og þjóðar, sem verið hefur burðarás í menningu og siðferði landsmanna um aldabil. Það gerum við einungis með því að efla svo innviði kirkjunnar að hún geti sinnt köllun sinni í samhljómi við lífið í landinu. Til þess þurfum við annars vegar að efla og styrkja samheldni og einingu innan kirkjunnar og hins vegar að færa kirkjuna enn fram á veg lýðræðis og nútímalegri starfshátta. Ef þjóðkirkjan vill vera þjóðkirkja í lífrænum tengslum við fólkið í landinu verður hún að leita til grasrótar sinnar en ekki upphefja sjálfan sig sem óumbreytanlega stofnun í guðfræðilegum skilningi. Við verðum að kalla miklu fleira fólk til ábyrgðar og ákvarðanatöku í kirkjunni, meðal annars með gerbreytingu á öllu fyrirkomulagi kosninga innan kirkjunnar, bæði biskupskosninga og kosninga til kirkjuþings. Við verðum að kalla eftir enn ríkari sjálfsákvörðunarrétti og um leið meiri ábyrgð þjóðkirkjunnar, ekki síst kirkjuþings, og verðum að leggja hlustir við kröfu tímans um nútímalegri stjórnhætti sem gefa um leið betra færi en áður til þess að veita skilvirka forystu í siðferðis- og trúarefnum. Tilvitnun líkur. Ég hef ekki neinu við þessi orð Péturs Hafstein að bæta. Tek undir þau og geri að mínum.

Þá er ekki annað eftir en að fá að þakka fyrir mig. Þakka öllu því frábæra fólki sem ég hef átt samstarf við. Þakka einstöku starfsfólki biskupsstofu fyrir góða samvinnu, skynsamlegar ráðleggingar og mikið og óeigingjarnt starf fyrir kirkjuþing. Ég þakka biskupi Íslands frú Agnesi Sigurðardóttur fyrir samstarfið og mörg góð samtöl. Varaforsetum, formönnum fastanefnda, kirkjuráðsmönnum og öllum kirkjuþingsfulltrúum fyrr og nú þakka ég fyrir samleiðina.

Ykkur öllum óska ég velfarnaðar í störfum fyrir þjóðkirkjuna. Þið leggið á ný djúp, farnist ykkur vel og Guð ykkur geymi.

Takk fyrir mig.
  • Þing

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju