Setningarræða biskups Íslands á kirkjuþingi

6. nóvember 2018

Setningarræða biskups Íslands á kirkjuþingi

Setningarræða við kirkjuþing 3. nóvember 2018
Fjármála- og efnahagsráðherra, forseti kirkjuþings, kirkjuþingsfulltrúar, vígslubiskupar, góðir gestir.
Ég vil byrja á því að þakka sóknarnefnd og starfsfólki hér í kirkjunni fyrir aðstöðuna og tónlistarfólkinu fyrir flutninginn. Einnig vil ég þakka forsætisnefnd, kirkjuráði og starfsfólki sem undirbúið hefur þingið.

FULLVELDIÐ:
Í ár höfum við hér á landi minnst 100 ára afmælis fullveldisins. Við vitum að árið 1918 var hörmungarár fyrir þjóðina, frostaveturinn mikli, spænska veikin dró marga til dauða og Katla spúði eldi, ösku og hrauni yfir land og skepnur. Sambandslagasamningurinn milli Dana og Íslendinga var ljós í myrkrinu en hann var undirritaður og samþykktur árið 1918 og tók formlega gildi þann 1. desember eins og kunnugt er. Með því náðist megináfangi í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og brautin rudd fyrir lýðveldisstofnuninni árið 1944. Það liðu mörg ár, mikil vinna var unnin, nokkrir áfangasigrar náðust og þjóðaratkvæðagreiðslur fóru fram þar til samningurinn tók gildi. Samtal, skýr markmið og tiltrú á verkefnið skiluðu þessum árangri.

KIRKJUÞINGIÐ OG STJÓRNSKIPAN ÞJÓÐKIRKJUNNAR:
Þegar samningar nást og ákvarðanir eru teknar hefur alla jafna farið fram mikil vinna og samtal og tiltrú á verkefnið áður en niðurstaða fæst. Það á einnig við um kirkjuna. Á þessu ári eru 60 ár frá því að kirkjuþing var fyrst haldið og 20 ár frá því fyrst var sett kirkjuþing í nýju lagaumhverfi. Biskup Íslands var forseti þingsins fyrstu 40 árin en nýja þinginu, ef svo má að orði komast, hefur verið stýrt af 4 forsetum. Jón Helgason var fyrsti forsetinn og tók þátt í að móta starfshætti hins nýja kirkjuþings. Hann tókst á hendur að móta starf kirkjunnar í nýju lagaumhverfi sem forseti þingsins og stýra mótunarárunum en flestar þær starfsreglur sem í gildi eru í dag eru í grunninn frá fyrsta ári þingsins.

Næsti forseti var Pétur Kr. Hafstein sem stýrði þinginu á umbrotatímum þegar erfið mál komu upp í kirkjunni og önnur erfið mál voru til umræðu. Þegar hann þurfti að hætta vegna veikinda tók varaforseti við, Margrét Björnsdóttir en á aukakirkjuþingi þann 1. september 2012 tók núverandi forseti Magnús E. Kristjánsson við keflinu. Ljóst er að á þessu þingi verður kosinn nýr forseti þar sem Magnús er að hætta á þinginu. Vil ég þakka þér Magnús samstarfið og framlag þitt til þjóðkirkjunnar. Ég bið þér og fjölskyldu þinni farsældar og blessunar Guðs í bráð og lengd.
Þegar kirkjuþing kom fyrst saman árið 1958 hafði kirkjuráð verið starfandi í 26 ár, frá árinu 1932. Alþingi samþykkti lög um kirkjuráð íslensku þjóðkirkjunnar árið 1931 og árið 1957 setti Alþingi lög um kirkjuþing. Í ritinu “Saga kirkjuráðs og kirkjuþings” sem sr. Magnús Guðjónsson tók saman segir í inngangi: “Í ritsmíðinni er einkum fjallað um tvær mikilvægustu stofnanir íslensku þjóðkirkjunnar, kirkjuráð og kirkjuþing, og áhrif þeirra á allt starf kirkjunnar. Þessar stofnanir eru áfangar á leið kirkjunnar til frekara sjálfstæðis”.

Sr. Magnús segir að markmið skrifanna sé “að gera eins og kostur er grein fyrir þeirri þróun, sem kirkjan hefur gengið í gegnum og þó aðallega frá miðri 19. öld, þegar aðeins fer að rofa til eftir áþján og ýmiss konar erfiðleika, sem að þjóðinni steðjuðu og tengja þannig þátíð, nútíð og framtíð, minnug þess, að ef við rjúfum þau tengsl slítum við í sundur mikilvægan hlekk í þjóðarsögu okkar og menningu. Enda er íslensk kirkjusaga samofin sögu þjóðar og menningar.”
Af þessari tilvitnun má ljóst vera að langt er um liðið síðan kirkjunnar menn fóru að ræða um sjálfstæði kirkjunnar. Það var og er þróunarverkefni að koma breytingum á. Kirkjan hefur það hlutverk að boða fagnaðarerindið og til þess þarf hún mannafla á launum, skipulag og regluverk sem styður það hlutverk hennar.
Kirkjuþing hefur nú starfað í 20 ár eftir því lagaumhverfi sem nú er í gildi. Strax á fyrsta kirkjuþingi var samþykkt að leitað skyldi álits á því hvert væri valdsvið og verkefni kirkjuþings íslensku þjóðkirkjunnar annars vegar og kirkjuráðs hins vegar samkvæmt lögum nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Voru fengnir til þess tveir lögfræðingar, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson. Þeir skiluðu álitu sínu þann 20. ágúst 1999 og hefur lengst af verið farið eftir þessu áliti í vinnubrögðum og verkferlum.

Til að skerpa á valdmörkum biskups Íslands og kirkjuráðs þjóðkirkjunnar var leitað eftir áliti þriggja lögfræðinga. Í inngangi álitsgerðar þeirra segir: “Með bréfi kirkjuráðs 20. nóvember 2015 voru Gestur Jónsson hæstaréttarlögmaður, Pétur Kr. Hafstein fyrrum hæstaréttardómari og Trausti Fannar Valsson dósent við lagadeild Háskóla Íslands skipaðir í nefnd sem hefði það hlutverk meðal annars að greina, skýra og gefa álit á ábyrgð biskups Íslands annars vegar og kirkjuráðs hins vegar þannig að glögglega mætti greina á milli ábyrgðar, vald- og verksviðs hvors aðila um sig.” Nefndin ákvað á fyrsta fundi sínum 1. desember 2015 að Pétur Kr. Hafstein myndi leiða störf hennar. Ágreiningslaust er að málsaðilar þess réttarágreinings sem lagður er fyrir nefndina eru tveir, annars vegar biskup Íslands sem jafnframt er forseti kirkjuráðs og hins vegar hinir fjórir kjörnu kirkjuráðsmenn. Í meðfylgjandi erindisbréfi kirkjuráðs er verkefni nefndarinnar þannig afmarkað að óskað er álits hennar á ábyrgð hvors málsaðila um sig samkvæmt ofangreindu. Þá er jafnframt óskað eftir því að staða og ábyrgð kirkjuþings sé skýrð í tengslum við þetta eftir því sem við eigi. Loks er óskað álits á því hvort biskup Íslands, biskupsstofa, kirkjuráð og kirkjuþing séu stjórnvöld og hvort þá sé um að ræða hliðsett, æðra eða lægra sett stjórnvöld og hver sé ábyrgð og staða viðkomandi stjórnvalds í því samhengi.”

Álit lögfræðinganna þriggja styður að mínu mati þau vinnubrögð sem viðhöfð höfðu verið til ársins 2014 og byggðu á áliti Eiríks og Þorgeirs um valdsvið og verkefni kirkjuþings og kirkjuráðs. Í áliti lögfræðinganna þriggja frá 2016 er tekið undir það sjónarmið sem gilt hafði að „Biskupsstofa er embættisskrifstofa biskups Íslands og undir forstöðu hans“ og „að hann hefur vald um skipulag og starfslið stofnunarinnar.“
Í álitinu kemur einnig fram að kirkjuráð hefur „það hlutverk að (1) hafa yfirumsjón með heildarfjárhag þjóðkirkjunnar, (2) láta vinna heildaryfirlit yfir fjármál þjóðkirkjunnar fyrir kirkjuþing, (3) gera fjárhagsáætlun fyrir þjóðkirkjuna í heild og (4) standa skil á því gagnvart kirkjuþingi að reikningar stofnana og embætta kirkjunnar hafi hlotið viðhlítandi endurskoðun. Það hversu mikið vald felst í gerð fjárhagsáætlunar fer hins vegar eftir eðli þess verkefnis sem um ræðir hverju sinni og hversu ríkar valdheimildir önnur kirkjuleg stjórnvöld hafa um nánari útfærslu þeirra að lögum.“

Kirkjuþing getur breytt starfsreglum og búið til nýjar. Alþingi breytir lögum, líka um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Þau lögfræðiálit sem hér hefur verið vitnað til eru byggð á lögum og reglum. Ef við viljum breyta þá verðum við að byrja á því á kirkjuþingi að búa til nýjar starfsreglur eða bæta þær sem fyrir eru eða samþykkja það að fara fram á lagabreytingu á Alþingi. Við getum ekki haft hlutina eftir okkar hugmyndum nema þær eigi sér stoð í lögum og reglum. Þessu vil ég koma á framfæri við kirkjuþing, sérstaklega nýja fulltrúa og þau sem kosin verða í nýtt kirkjuráð. Það má ekki gerast aftur að ágreiningur komi upp um valdsvið kirkjuþings, kirkjuráðs eða biskupsembættisins. Við VERÐUM öll að vinna saman að því að koma fagnaðarerindinu til skila. Vinna eftir því umboði sem við höfum fengið frá þeim sem kusu okkur og þeim Guði sem hefur kallað okkur til þjónustunnar. Þetta veit ég að allir eru sammála um. Þetta er þegar upp er staðið ekki spurning um völd heldur ábyrgð og þjónustu og að farvegur lífsins lindar sé þekktur og án hindrana.

SAMEINING PRESTAKALLA
Á þessu kirkjuþingi eru meðal annars lagðar fram tillögur að nýrri skipan þjónustunnar. Að prestaköll verði sameinuð. Biskupafundur leggur þær fram og lætur fylgja í skjali aðrar tillögur fyrir landið allt sem ekki eru lagðar fram á þessu þingi. Biskupafundur ákvað að gera þetta svona að leggja nú aðeins fyrir tillögur fyrir þau prestaköll þar sem vitað er að breytingar eru í vændum næsta árið. Almennt hefur þessari nýju hugsun, sem reyndar er ekki ný, kom að minnsta kosti fram árið 1974 og kannski fyrr, þessari hugsun hefur verið vel tekið. Niðurstöður í starfsumhverfiskönnun presta sem gerð var árið 2016 styður þessa hugsun um aukna samvinnu kirkjunnar þjóna. Prestar vilja almennt vinna meira saman, eiga faglegt samráð við hvern annan og þurfa ekki að bera einir ábyrgð á öllum þeim fjölmörgu málaflokkum sem prestar sinna meðal sóknarbarna sinna. Faglegheit munu aukast þegar prestahópurinn samanstendur af prestum sem hafa jafnvel sérmenntun á ýmsum sviðum prestsþjónustunnar, hæfileikar hvers og eins njóta sín betur og nýtast fleiri sóknarbörnum. Þau sem reynt hafa geta vitnað um það. Auðvitað eru ýmis atriði sem þarf að huga að þegar breytingar eiga sér stað. Eins og málið er lagt upp núna þá er gert ráð fyrir að prestar búi enn á þeim prestssetrum sem enn eru fyrir hendi. Að kjörnefndir prestakallsins, hvar í eiga sæti fulltrúar allra sóknarnefnda, kjósi prestana og að sóknirnar haldist óbreyttar sé það vilji sóknarbarna. Breyting á starfi í sóknunum breytist ekki nema sóknarbörnin óski eftir því eða eitthvað ófyrirséð komi upp.

UMHVERFISMÁL
Á kirkjuþinginu í fyrra var samþykkt ný umhverfisstefna.
Í greinargerð með umhverfisstefnunni stendur m.a.: „Allar manneskjur þurfa að vinna saman að því að snúa við neikvæðri þróun á umhverfi og náttúru og reyna að finna sjálfbærar lausnir á umhverfisvandanum. Slík samstaða vekur von um að hægt sé að sporna gegn frekari loftslagsbreytingum og náttúruvá af hennar völdum. Samkvæmt kristnum mannskilningi er ímynd Guðs að finna í hverri manneskju, slík samstaða eflir vonina um að skapa sameiginlega framtíð allra. Sömuleiðis eru allar manneskjur ábyrgar fyrir umhverfisvánni sem við stöndum frammi fyrir. Fræðslu og þekkingu um stöðu mála þarf að miðla til allra til að vekja fólk til vitundar um umhverfisvána og hvetja fólk til náttúruverndar.“
Í umhverfisstefnunni er aðgerðaráætlun og eftir henni hefur verið farið. Handbók um umhverfisstarf í kirkjunni er komin á veraldarvefinn og bæklingurinn Græni söfnuðurinn okkar hefur farið í dreifingu. Vil ég þakka umhverfishópnum og verkefnisstjóranum sr. Halldóri Reynissyni fyrir vinnuna og framkvæmdina alla.

Hvað skyldu mörg kolefnisfótspor hafa verið stigin á ferð okkar hingað í dag, hvað kosta þau og hversu mörgum trjám þarf að planta vegna ferðalagsins? Kolefnisfótsporin er hægt að reikna. Ein ferð fram og til baka til Akureyrar kostar 366 krónur ef um bensínbíl er að ræða og meðaleyðslu á kílómeter en 422 krónur ef um díselbíl er að ræða og gróðursetja þarf 2 tré. Flugferðin kostar 219 krónur og eitt tré. Við þurfum að gróðursetja allnokkur tré samanlagt til að bæta fyrir losun kolefnis út í andrúmsloftið ef við ætlum að vera sjálfum okkur samkvæm og fara eftir umhverfisstefnunni sem samþykkt var hér í fyrra. Þetta vekur meðal annars til umhugsunar hvort hægt sé að fækka fundum sem fólk kemur til víðs vegar að. Einnig vekur það spurningu um hvort nota eigi frekar þá tækni sem veraldarvefurinn býður upp á til samtals. Það kostar minna í peningum talið og minni kolefnislosun. Alla vega er ljóst að við verðum að breyta um lífsstíl ef mannlíf á að þrífast í framtíðinni um alla jörð. Hér á þessu kirkjuþingi verður ekki dreift útprentuðum blöðum með tillögum og breytingartillögum nema til þeirra sem óskað hafa eftir því. Allar tillögur og breytingatillögur og endanlegur texti er aðgengilegur í hinu rafræna skjalavistunarkerfi. Við þurfum ekki að flytja með okkur afurðir skógarins heim í hlað, aðeins eina tölvu.

FRÆÐSLUMÁL
Hér á þessu kirkjuþingi verður lögð fram ný fræðslustefna. Áhersluatriði hennar til næstu tveggja ára eru umhverfismál og skírnin.
Umhverfismálin eru í kirkjunni skoðuð með gleraugum vistguðfræðinnar. Í vistguðfræði er sjónum meðal annars beint að siðferðilegri ábyrgð mannsins gagnvart sköpunarverkinu. Þjóðkirkjan var gestgjafi Alkirkjuráðsins sem hélt ráðstefnu í fyrra um réttlátan frið við jörðina og fulltrúar hennar tóku líka þátt í Artic Circle og í síðasta mánuði funduðu höfuðbiskupar norðurlandanna um umhverfismál og tóku þátt í málþingi um framtíð norðurskautsins á Artic Circle ráðstefnunni. Einnig stóðu guðfræði- og trúarbragðadeild Háskóla Íslands og stofnun Sigurbjörns Einarssonar fyrir málstofu á ráðstefnunni um umhverfismál. Biskuparnir prédikuðu í kirkjum á höfuðborgarsvæðinu og í Hallgrímskirkju spurði Andrés Arnalds landgræðslusérfræðingur, “hver talar fyrir móður jörð?” Tvö undanfarin ár hefur Þjóðkirkjan tekið þátt í tímabili sköpunarverksins „Season of Creation“ sem er grasrótarhreyfing kirkjufólk sem ann sköpuninni.

Fræðsla um skírnina verður líka í brennidepli næstu tvö árin hjá þjónustusviði biskupsstofu. Sífellt færri foreldrar velja það að fela barnið sitt Guði og láta skíra það. Þetta er ekki séríslenskt fyrirbæri. Lúterskar systurkirkjur okkar flytja okkur fréttir af því sama. Ekki hefur verið gerð rannsókn á því hvað veldur né hve mörg börn eru skírð af þeim sem fæðast hér á landi. Á kirkjuþingi 2016 var samþykkt að skipa starfshóp um skírnarfræðslu. Vinna hans hefur nýst og mun nýtast til áframhaldandi fræðslu um skírnina og gildi hennar fyrir einstaklinga og þjóðlífið.

KIRKJAN OG FRAMTÍÐIN
Umfjöllun um þjóðkirkjuna í fjölmiðlum gefur sjaldnast til kynna að hún eigi sér mikla framtíð. Þjóðkirkjan er samt ennþá stærsta trúfélagið hér á landi. Fólkið í kirkjunni er hin eiginlega kirkja. Á vísitasíum hittum við biskupar og prófastar glatt og þakklátt fólk sem metur mikils að tilheyra þeim hópi sem tilheyrir kirkjunni, ekki bara hér á landi heldur um víða veröld. Fjölmiðlaumfjöllun um kirkjuna bendir til að óskað er eftir rödd kirkjunnar í samfélagsumræðunni og siðferðlegum vegvísi til framtíðar. Þjóðkirkjan verður nú eins og á öllum tímum að tala við samtíð sína á tungumáli sem skilst og varpa kristnu ljósi á þau mál sem eru til umræðu.
Ég þakka kirkjuþingsfulltrúum fyrir þjónustuna í kirkjunni sem og öðrum þeim er styðja hana og vernda. Biðjum Guð að gefa styrk og þor til góðra verka.


  • Biskup

  • Þing

  • Biskup

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju