Kristniboðsdagurinn er á sunnudag

7. nóvember 2018

Kristniboðsdagurinn er á sunnudag

Kristniboðsdagur þjóðkirkjunnar er á sunnudag. Er þess þá sérstaklega minnst og horft til kristniboðsstarfs Íslendinga nú og á liðnum árum. Útvarpsguðsþjónusta dagsins verður frá Hjallakirkju þar sem Skúli Svavarsson kristniboði prédikar en séra Sunna Dóra Möller þjónar fyrir altari. Biskup Íslands hvetur presta og starfsfólk safnaða um land allt til að minnast kristniboðsins og taka samskot til starfs Kristniboðssambandsins. Starfsmenn og sjálfboðaliðar á vegum Sambandsins taka víða þátt í guðsþjónustum. Ragnar Gunnarsson framkvæmdastjóri Sambandsins prédikar í guðsþjónustu í Akureyrarkirkju kl. 11 og Ólafsfjarðarkirkju kl. 14.

Árleg kaffisala Kristniboðsfélags karla í Reykjavík verður í Kristniboðssalnum, Háaleitisbraut 58-60, kl. 14-17. Kl. 17 verður samkoma á sama stað þar sem Guðlaugur Gunnarsson kristniboði flytur hugvekju og sagt verður frá starfinu.

Tugir íslenskra kristniboða hafa undanfarna áratugi starfað í Eþíópíu, Japan og Keníu og sinnt þar boðunar- og fræðslustarfi og tekið þátt í þróunarverkefnum með samstarfskirkjum Kristniboðssambandsins. Ein fjölskylda, Katsuko og Leifur Sigurðsson ásamt þremur börnum, er að störfum á vegum Sambandsins í Vestur-Japan en stutt er við starfið í öðrum löndum með ýmsum hætti og heimsóknum. Kristniboðssambandið er einnig samstarfsaðili Sat7, sjónvarpsstarfs í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku sem margar kirkjur á svæðinu sameinast um. Sent er út á arabísku, farsi og tyrknesku fyrir utan sérstaka barnarás og aðra skólarás fyrir börn í flóttamannabúðum og konur sem ekki hafa hlotið menntun.

Á sviði þróunarsamvinnu og kærleiksþjónustu hafa kristniboðar sinnt heilbrigðis- og menntamálum, byggt upp heilsugæslustöðvar og spítala og starfað þar og eins sinnt uppbyggingu skóla og menntakerfisins á þeim stöðum sem þeir hafa starfað. Þannig hefur samstarfsaðili Sambandsins, Lúterska kirkjan í Keníu, tekið þátt í uppbyggingu og stuðningi við 100 grunnskóla og 20 framhaldsskóa í Pókothéraði.

Margvísleg verkefni eru styrkt fjárhagslega af Kristniboðssambandinu. Má þar nefna boðunarverkefni, skólabyggingar, námsstyrki, biblíuþýðingar, lestrarverkefni og Af götu í skóla í Eþíópíu. Fyrir rúmum þremur árum hóf Kristniboðssambandið að bjóða upp á ókeypis íslenskukennslu fyrir nýbúa og útlendinga búsetta hér á landi. Hefur sú aðstoð mælst mjög vel fyrir.

Meðal annarra fjáröflunarverkefna Kristniboðssambandsins má nefna sölu á notuðum frímerkjum og mynt, jólabasar, verkefnið Látið skóna ganga aftur og nytjamarkaðinn, Basarinn í Austurveri, Háaleitisbraut 68. Þessar vikurnar safnar Sambandið einnig aðgöngumiðum Spalar í Hvalfjarðargöngin sem nýtast við uppbyggingu skóla í Keníu. Kristniboðsalmanakið fyrir árið 2019 er komið út og verður því víða dreift í guðsþjónustum dagsins.


    Hildur Björk Hörpudóttir

    Sr. Hildur Björk ráðin

    22. nóv. 2024
    ...prestur við Glerárkirkju
    Halldór Bjarki Arnarson

    Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

    22. nóv. 2024
    ... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
    Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

    Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

    21. nóv. 2024
    ...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju