Ályktun kirkjuþings um breytingu á lögum um helgidagafrið

8. nóvember 2018

Ályktun kirkjuþings um breytingu á lögum um helgidagafrið

Kirkjuþing tók fyrir drög að frumvarpi dómsmálaráðherra um breytingu á lögum um helgidagafrið í gær. Frumvarpið var samþykkt samhljóða þó með tillögum um tæknileg útfærsluatriði. Nefndarálit löggjafarnefndar kirkjuþings sem þingið samþykkti má lesa hér fyrir neðan. Tuttugu og sjö mál voru tekin fyrir á 57. kirkjuþingi sem lauk að sinni í gær.

 

 

Kirkjuþing 2018                                                                                              3. mál - þskj. 66

 

Nefndarálit

við drög að frumvarpi dómsmálaráðherra til laga

um breytingu á lögum um helgidagafrið nr. 32/1997

 

Frá löggjafarnefnd

Frsm. Arna Grétarsdóttir

 

Með bréfi, dags. 24. september 2018, tilkynnti dómsmálaráðuneytið biskupsstofu að í ráðuneytinu hefði verið unnið að breytingu á lögum um helgidagafrið nr. 32/1997. Samkvæmt 4. mgr. 23. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti nr. 98/1997 (þjóðkirkjulög) skal ráðherra leita umsagna og tillagna kirkjuþings um lagafrumvörp um kirkjuleg málefni er hann hyggst flytja á Alþingi.

 

Með ofangreindu bréfi fylgdu drög að framangreindu lagafrumvarpi.

 

Í þessu sambandi vill löggjafarnefnd kirkjuþings taka fram eftirfarandi:

Löggjafarnefnd vill lýsa yfir almennum stuðningi við markmið frumvarpsins. Í frumvarpsdrögum ráðuneytisins er m.a. lagt til að II. kafli núgildandi laga um helgidagafrið verði felldur brott og ákvæðum hans komið fyrir í þjóðkirkjulögum.

 

Bent skal á að þjóðkirkjulögin fjalla einvörðungu um mál sem að hefðbundnum skilningi falla undir ytri mál þjóðkirkjunnar. Samkvæmt gildandi þjóðkirkjulögum og mun eldri hefð fer þjóðkirkjan sjálf með innri málefni sín, þar með öll mál sem lúta að guðsþjónustuhaldi. Á því sviði skipa helgidagar þjóðkirkjunnar eðli máls samkvæmt mikilvægan sess. Um innri mál af þessu tagi er fjallað í samþykktum um innri málefni þjóðkirkjunnar sem kirkjuþing samþykkir. Því er eðlilegt að um helgidaga þjóðkirkjunnar sé fjallað í þessum samþykktum, sbr. XV. kafla samþykktanna, en ekki í þjóðkirkjulögunum.

 

Markmið með síðari kafla frumvarpsins er eins og fram kemur í greinargerð einkum að skýra orðalag í 1. mgr. 6. gr. laga um 40 stunda vinnuviku, þ.e. orðalagið: „Frídagar eru helgidagar þjóðkirkjunnar […]“. Telja má þar upp frídagana á eftirfarandi hátt:

Frídagar eru:

  1. Sunnudagar, annar dagur jóla, nýársdagur, skírdagur, annar dagur páska, uppstigningardagur og annar dagur hvítasunnu.
  2. Föstudagurinn langi, páskadagur og hvítasunnudagur.
  3. Aðfangadagur jóla frá kl. 18:00 og jóladagur.
  4. Sumardagurinn fyrsti, 1. maí og 17. júní og gamlársdagur frá kl. 13.00. 

 

Ljóst er að ákvæði um helgidaga þjóðkirkjunnar í þjóðkirkjulögum mundi raska „stíl“ þeirra laga. Það sem er þó verra er að nái sú breyting fram að ganga sem lögð er til í frumvarpinu er raskað þeim hefðbundna skilningi sem ríkt hefur um aðgreiningu innri og ytri mála þjóðkirkjunnar og þar með dregið úr sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétti hennar. Slíkt orkar mjög tvímælis miðað við þá stefnu sem ríkt hefur og talið er að haldið skuli fast við í framtíðinni.

 

 

Vídalínskirkju, Garðabæ, 6. nóvember 2018.

 

Steindór R. Haraldsson, formaður

Anna Guðrún Sigurvinsdóttir

Arna Grétarsdóttir

Axel Árnason Njarðvík

Bryndís Malla Elídóttir

Hildur Inga Rúnarsdóttir

Hreiðar Örn Zoëga Stefánsson

Skúli S. Ólafsson

Stefán Magnússon

  • Frétt

  • Þing

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju