Turnar Háteigskirkju og þjónustumiðstöðin

21. desember 2018

Turnar Háteigskirkju og þjónustumiðstöðin

Það eru margar perlurnar í henni Reykjavík. Ein er Háteigskirkja með sínum fjórum glæsilegu turnum svo enginn sem þar fer um velkist í vafa um að þetta sé guðshús. Líta má á hvern turn sem táknmynd hvers guðspjallamanns fyrir sig. Og að sjálfsögðu eru klukkur kirkjunnar hýstar í tveimur turnanna. Já, hvít og strokin rís kirkjan upp úr fallegu hverfinu, umvafin gróðri, hellulögð allt um kring með góðum grasblettum og blómakerum. Allt aðgengi að kirkjunni er til mikillar prýði. Í kirkjunni er ein stórfenglegasta altaristafla landsins, mósaíkmynd sem ber hróður listamannsins frá Súgandafirði og kraft boðunarinnar meðan hún stendur. Listinni er gert hátt undir höfði í Háteigskirkju eins og í mörgum öðrum kirkjum landsins. Auk þess er listsýningarrými á björtum gangi á milli kirkju og safnaðarheimilis. Ýmsir listamenn nýta sér það með eftirtektarverðum listaverkum sínum. Það verður ekki annað sagt en að öll aðstaða sé þar öll er til fyrirmyndar og húsakynni myndarleg.
Í Háteigskirkju er þjónustumiðstöð kirkjunnar að stíga sín fyrstu skref. Hún fer hægt af stað en örugglega og þjónustan er í mótun. Það tekur auðvitað tíma enda þótt menn hafi svo sem gert sér grein fyrir því hvers konar starfsemi færi þar fram. En reynslan kennir mönnum og vísar veg.

Hryggjarstykkið í þjónustumiðstöðinni er fræðsludeildin. Öllum er ljóst að fræðslumál þarf að setja í öndvegi og þar eru mörg tækifæri. Fræðsludeildin á að hafa þar forystu í samvinnu við Skálholtsútgáfuna, útgáfufélag þjóðkirkjunnar, og presta og sóknarnefndir, og síðast en ekki síst sjálfa grasrótina, fólkið í kirkjunni. Hvers konar fræðslu vill það? Hver á búningur hennar að vera í nútímanum sem er tölvuvæddur í ótrúlegustu myndum? Og hvernig á að ná til fólks? Fólksins sem er umsetið og hefur margt á sinni könnu alla daga. Þetta er hið sígilda viðfangsefni; að sækja fram með nýjum aðferðum sem og gömlum.

Það verður að vera gagnvirkt samband milli fræðsludeildarinnar og þeirra sem nýta sér þjónustu hennar – og allar hugmyndir um leiðir eru vel þegnar. Víða er blómlegt fræðslustarf í kirkjum og menn reyna ýmsar leiðir. Af því öllu má læra en kappsmálið hlýtur ætíð að vera það að ná til sem flestra með vandað starf og metnaðarfullt. Og það er markmiðið.

Markhóparnir eru margir sem bíða fræðsludeildarinnar. Þar ræður aldur, búseta og áhugasvið. Mikilvægt er að skoða þau mál vandlega ofan í kjölinn og kalla eftir hugmyndum úr öllum áttum.

Kirkjan í Háteigi er miðsvæðis í borginni. Þar fer fram fjölbreytilegt kirkjustarf og reynt er að höfða til sem flestra. Áhugavert starf og gefandi að sögn þeirra sem það sækja og öllum til mikils sóma. Gott samstarf hefur þegar orðið til milli þjónustumiðstöðvarinnar og starfsfólks kirkjunnar. Góður andi er í húsinu, enda hvað annað er í boði í fallegu húsnæði og vel búnu? Starfsfólk þjónustumiðstöðvarinnar og kirkjunnar í Háteigi er ætíð til þjónustu reiðubúið.

Mjúkum ljósrauðum bjarma stafar frá tveimur stærstu kirkjuturnum Háteigskirkju nú á aðventu. Það er litur kærleikans og fórnfýsinnar. Vísar til jóla þegar kristni um víða veröld ber þann boðskap út að Guð hafi vitjað heimsins. Það er heimsókn sem ber af öðrum heimsóknum og er sannkallað fagnaðarefni svo ekki sé meira sagt. Og turnarnir fögru benda til himins þaðan sem rödd engilsins hljómaði forðum daga og hljómar enn ef grannt er hlustað: „Verið óhrædd, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur...“

Boðskapur sem hver kristinn maður kemur á framfæri á hverjum degi – og sömuleiðis þjónustumiðstöðin í Háteigskirkju.

Hreinn S. Hákonarson,
fangaprestur þjóðkirkjunnar með aðsetur í þjónustumiðstöðinni í Háteigskirkju


  • Fræðsla

  • Fræðsla

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju