Tillaga að stofnun Hallgrímsseturs

19. mars 2019

Tillaga að stofnun Hallgrímsseturs

Ákveðið var á kirkjuþingi í marsmánuði að Saurbæjarprestakall á Hvalfjarðarströnd yrði lagt niður. Sóknir þess, Innra-Hólms-, Leirár- og Saurbæjarsóknir, eru í reynd sameinaðar Garðaprestakalli. Þessi breyting á skipulagi kirkjunnar í héraðinu var auglýst í Stjórnartíðindum 5. mars s.l.

Margur hefur spurt hvað yrði nú um staðinn og hafa lýst áhyggjum sínum um að honum verði hugsanlega ekki nægur sómi sýndur. 
Undirritaður nefndi það í umræðum á kirkjuþingi um málið að ef til þess kæmi að prestakallið yrði lagt niður þá væri hægt að koma á laggirnar í Saurbæ Hallgrímssetri.

Menn hafa nú ýtt úr vör af minna tilefni ýmsum setrum til að vekja athygli á mönnum og málefnum. Breyttar aðstæður í Saurbæ greiða þeirri hugmynd leið að opna þar lifandi safn um ævi og störf sálmaskáldsins ástsæla, sr. Hallgríms Péturssonar. Þótt margt gott hafi verið gert í minningu sr. Hallgríms þá gæti Hallgrímssetur í Saurbæ þar sem hann þjónaði sem prestur, og þar sem Passíusálmarnir voru ortir, orðið öflugt kirkju-og menningarsetur sem drægi að sér unga sem aldna heim á staðinn. Þá mætti og hugsa sér að koma þar upp fræðimannsíbúð handa þeim sem leggjast ofan í rannsóknir á bókmenntum skáldsins og ævi hans.

Nú stendur til að skipa starfshóp til að fjalla um framtíð staðarins og er þessari hugmynd komið á framfæri við þau sem kunna að verða skipuð í hann. 

Hreinn S. Hákonarson, fangaprestur þjóðkirkjunnar.


  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju