Helgihald í Kolaportinu

28. mars 2019

Helgihald í Kolaportinu

Helgihald í Kolaportinu

Núna á sunndaginn, þann 31. mars kl 14:00 verður messa á Kaffi Porti í Kolaportinu. Það er nú ekki í frásögur færandi því það er messað þar síðasta sunnudag í mánuði yfir vetrartímann og hefur verið gert núna í 20 ár. Á sunnudaginn höldum við þess vegna uppá 20 ára afmæli Kolaportsmessunnar.

„Messan þar er ólík öllum öðrum og fólkið sem sækir helgihaldið í Kolaportinu hefur margt gert það frá upphafi“ segir sr. Jóna Hrönn Bolladóttir sem var miðborgarprestur árið 1999 og var ein af upphafsmönnum helgihaldsins. „Þetta var mjög persónuleg helgiþjónusta sem miðlar bæði nálægð og virðingu. Í Kolaportinu eru ekki forsendur fyrir neinu eignarhaldi og það er svo fjölbreyttur hópur sem kemur að þjónustunni. Þröskuldurinn er lágur og dyrnar víðar og ástæðurnar fyrir því að fólk sækir messurnar svo ótal margar. Hver og einn getur komið, andvarpað og fengið hvíld í sálu sinni. Þarna er virk hlustun og samferðamenn eru til staðar fyrir hvern annan.“
Sr. Jóna Hrönn mun prédika á sunnudaginn og með henni þjóna sr. Bjarni Karlsson, sr. Eva Björk Valdimarsdóttir og Ragnheiður Sverrisdóttir djákni. Sálmari sér um tónlistina og það er aldrei að vita nema fleiri gamlir vinir láti sjá sig.

Hér segir sr. Jóna Hrönn frá upphafi helgihalds í Kolaportinu

Kolaportið er kirkja Guðs

Í starfi mínu sem miðborgarprestur á árinunum 1998-2005 horfði ég oft til Kolaportsins og velti því fyrir mér hvernig við gætum komist í samstarf við það mikla mannlífstorg. Mér datt m.a.s. í hug hvort ég ætti að leigja sölubás og bjóða upp á sálgæslu en sá strax að það væri full bratt af stað farið.
Ég fór að koma í Kolaportið um helgar og fann innra með mér að vissulega ætti kirkjan mikið erindi þar. Ég tók mig til og kom að máli við Jónu Ásgrímsdóttur sem rekur Kaffi Port og bar undir hana þá hugmynd að vera með guðsþjónustur í kaffihúsinu hjá henni. Hún tók mér afar vel og ég fékk með mér presta og djákna og tónlistarfólk til þess að þjóna við athöfnina. Svo kom að því að einn sunnudaginn var auglýst í kallkerfinu að guðsþjónusta yrði haldin kl. 14 og að þangað væru allir velkomnir. Sr. Jakob Ágúst Hjálmarsson var með mér við fyrstu guðsþjónustuna ásamt Ragnheiði Sverrisdóttur djákna og fleira fólki. Við ákváðum að hafa altarisgöngu og ég man eftir því að þegar ég var að útdeila þá kom ég að eldri manni sem fussaði og sveiaði þegar ég kom og sagði: ‘Farðu burt helvítis presturinn þinn!’ Ég ákvað að hugsa bara hlýlega til hans og hélt svo áfram að útdeila til þeirra sem vildu þiggja.
Þrátt fyrir þessa andstöðu fór stundin vel fram og við héldum nokkrar guðsþjónustur til viðbótar. En dag einn hafði framkvæmdastjóri Kolaportsins samband við mig og kvaðst verða var við nokkurt kurr meðal sölufólks í Kolaportinu sem teldi söluna í húsinu falla niður á meðan messað væri. En þá var það hún nafna mín, Jóna í Kaffi Port, sem er svo aðlaðandi og væn manneskja, sem gekk á milli básanna með lista og bað fólk um að skrifa undir ef það óskaði þess að guðsþjónustur yrðu haldnar einu sinni í mánuði. Þrjátíu manns reyndust því fylgjandi, líka fólk af öðrum trúarbrögðum, en þrír andvígir. Það gerist svo oft, eins og Jóna benti á, að fólk afsalar sér því sem það vill af því að það heyrist hærra í þeim sem eru mótfallnir. Við héldum ótrauð áfram og nú hafa verið haldnar messur í Kolaportinu klukkan tvö síðasta sunnudag í mánuði í tuttugu ár. Það er hópur presta og djákna sem skiptir starfinu á milli sín, en kjölfestan var lengst af Þorvaldur Halldórsson tónlistarmaður og Margrét Scheving kona hans sem aðstoðaði hann við tónlistarflutninginn. Þorvaldur er náttúrulega elskaður og dáður fyrir söng sinn og margir komu til að heyra í honum. Hann byrjaði að spila tuttugu mínútum fyrir messu, oft gömul lög úr Sjallanum sem hann söng með Hljómsveit Ingimars Eydal og fólk bara gekk glatt og forvitið á hljóðið, auk þess sem hann leiddi gospelsönginn reyndist hann vera hinar prýðilegustu kirkjuklukkur.

Á meðan Þorvaldur var að syngja gengu prestar og djáknar sem þjónuðu hverju sinni á milli fólksins sem sat við borðin og snæddi góðar veitingar og buðu fólki að leggja fram bænarefni. Margir mættu snemma til þess að koma sínum bænarefnum að í guðsþjónustunni. Við upplifðum mörg bænasvör í þessum stundum og fólk var duglegt að koma og segja frá bænheyrslum sem það hafði hlotið. Við hverja guðsþjónustu var lagt út frá guðspjalli dagsins, síðan voru bænir bornar fram og loks endaði samveran á því að gengið var á milli fólks og settur kross í lófa þess með helgaðri olíu sem er táknmynd heilags anda. Þá voru flutt orðin: „Drottinn blessi þig og varðveiti þig.“ Þetta var mjög persónuleg helgiþjónusta sem miðlar bæði nálægð og virðingu. Það eru svo margir einir og einangraðir á meðal okkar. Að smyrja olíu í lófa er mjög náin snerting, en hún er viðeigandi og ekki ágeng. Sá sem þjónustuna þiggur er í bænarstöðu og réttir fram hendur sínar þannig að hann er sjálfur við stjórnvölinn. Það skiptir máli að finna merkingarbærar og þokkafullar leiðir í helgihaldi og hér er ein slík sem nú hefur verið þrautreynd í Kolaportinu árum saman. Ég er hér að rifja upp söguna en ég held að form stundanna hafi haldist í þessi tuttugu ár, en Þorvaldur og Margrét hættu þjónustunni sinni fyrir þremur árum. Nú er það sr. Eva Björk Valdimarsdóttir sem heldur utan um Kolaportsmessurnar. Ein manneskja hefur verið í þjónustunni allan þennan tíma en það er Ragnheiður Sverrisdóttir djákni. Hennar þjónusta hefur verið yndisleg og stöðugt frá upphafi. Ég verð að fá að minnast á það og þakka hennar þolgæði og kærleika gagnvart verkefninu. Ég held að við öll sem höfum þjónað að þessu verkefni metum hennar framlag.

Kirkja án kirkjueiganda

Í Kolaportinu hefur skapast kjarni fólks sem alltaf mætir því þetta er kirkjan þeirra, svo koma aðrir öðru hverju af forvitni. Ég hef aldrei heyrt þá sem koma í Kolaportið að versla óskapast yfir því að þarna sé helgihald og þeir sem upphaflega voru á móti þessu hafa vafalaust lært að meta messurnar sem hluta þeirrar mannlífsflóru sem þarna er. Kolaportið er þvílíkt mannlífstorg að messurnar eiga einstaklega vel heima þar. Ég íhugaði á sínum tíma hvort Kringlan væri réttur vettvangur fyrir helgihald en það var eitthvað sem sagði mér að svo væri ekki. Ég er fullkomlega sannfærð um að Kolaportsmessurnar séu Guðs verk og eitt af því sem fullvissar mig um það er að fjöldi kirkjugesta hefur verið stöðugur í öll þessi ár. Þó að samsetning hópsins sem þjónar breytist hefur þetta verið sama dásamlega samfélagið í tuttugu ár. Einu sinni fyrir mörgum árum vorum við Bjarni eiginmaður minn í sundi. Við vorum í sitt hvorum útiklefanum en þó heyrðist vel á milli og ég heyrði að Bjarni var að spjalla við mann sem sagði „heyrðu, ég þekki þig, þú kemur stundum og þjónar í verkamannamessunum.“ Þessi maður hafði verið í millilandasiglingum á yngri árum og þess vegna ekki haft aðstæður til að tengjast kirkjustarfi auk þess sem honum fannst hann hvorki eiga réttu fötin til kirkjugöngu né yfir höfuð finna sig í hinu hefðbundna helgihaldi. En það breytti því ekki að hann hafði alltaf þráð að heyra guðs orð og eiga samfélag við fólk. „Ég get komið í Kolaportið með sígarettupakkann minn í brjóstvasanum því ég hef eignast minn eigin söfnuð í verkamannamessunum,“ sagði hann. Þetta er ástæða þess að mér finnst Kolaportsmessurnar eitt dýrmætasta helgihald íslensku þjóðkirkjunnar. Ég held að galdurinn á bak við þetta helgihald sé að það á það enginn. Þegar þú kemur í kirkju hverfisins hafa skapast þar hefðir og það er jafnvel hópur sem hefur lagt mikið á sig fyrir kirkjuna sína og getur því virkað eins og kirkjueigendur, þó að því fólki líði ekki þannig. Og fólki finnst jafnvel að prestarnir séu herrarnir í húsinu og hafi mikilli forystu að gegna. Í Kolaportinu eru ekki forsendur fyrir neinu eignarhaldi og það er svo fjölbreyttur hópur sem kemur að þjónustunni. Þröskuldurinn er lágur og dyrnar víðar og ástæðurnar fyrir því að fólk sækir messurnar svo ótal margar. Hver og einn getur komið, andvarpað og fengið hvíld í sálu sinni. Þarna er virk hlustun og samferðamenn eru til staðar fyrir hvern annan. Þess vegna lifa Kolaportsmessurnar og það þarf ekki að auglýsa þær. Ég lærði að biðja á alveg nýjan hátt í Kolaportinu vegna þess að það er einhvern veginn ótrúlega auðvelt að bera upp bænarefnin. Þar ríkir svo mikil samstaða og kliðurinn og köllin um hákarl og kartöflur til sölu eru eins og eðlileg staðfesting á því að lífið er að gera sig og það skiptir máli að lifa því.

Sjáumst í Kolaportinu á sunnudaginn klukkan tvö.

 

  • Frétt

Hótel Kríunes við Elliðavatn

Kyrrðardagar á Kríunesi

02. jan. 2025
...á vegum Kyrrðarbænasamtakanna
Árbæjarkirkja

Laust starf organista

02. jan. 2025
...við Árbæjarkirkju
Frá úthlutuninni

Hallgrímskirkja úthlutar til hjálparstarfs

02. jan. 2025
...úr Líknarsjóði kirkjunnar