Jón Helgason, fyrrv. forseti kirkjuþings, kvaddur

5. apríl 2019

Jón Helgason, fyrrv. forseti kirkjuþings, kvaddur

Jón Helgason, fyrrum forseti kirkjuþings andaðist hinn 2. apríl á Hjúkrunarheimilinu Klausturhólum á Kirkjubæjarklaustri. Jón var fæddur hinn 4. október 1931 í Seglbúðum í Landbroti í Vestur-Skaftafellssýslu. Foreldrar hans voru þau Helgi Jónsson, bóndi þar, og kona hans Gyðríður Pálsdóttir, húsfreyja. Eftirlifandi eiginkona Jóns er Guðrún Þorkelsdóttir, húsmóðir. Þau áttu þrjú börn, Björn Sævar Einarsson (fóstursonur), Helgu og Bjarna Þorkel.

Jón lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1950. Að því loknu sneri hann strax heim til Seglbúða og gerðist bóndi.

Í heimahéraði var hann kallaður til margvíslegra félagsstarfa. Hann sat í sóknarnefnd Prestsbakkakirkju, í hreppsnefnd, byggingarnefnd Kirkjubæjarskóla, var sýslunefndarmaður, fulltrúi á bændaþingum og í stjórn margra stofnana og ráða – og þannig mætti lengi telja. Hvarvetna nutu sín hæfileikar hans: hógværð, festa og einstök glöggskyggni. Hann var sanngjarn í öllum samskiptum, lipur og heiðarlegur. Þessir eiginleikar hans og mannkostir gerðu hann kjörinn forystumann hvar sem hann lagði krafta sína fram.

Hann var kjörinn á alþingi árið 1974 fyrir Framsóknarflokkinn á Suðurlandi og sat á þingi til ársins 1995. Á stjórnmálaferli sínum gegndi hann störfum forseta sameins alþingis og var ráðherra dóms- og landbúnaðarmála. Auk þess var hann kallaður til að gegna opinberum trúnaðarstörfum í nefndum og ráðum jafnt innan lands sem utan.

Það var því mikill fengur þegar hann var kjörinn forseti kirkjuþings árið 1998 nokkru eftir að lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar (þjóðkirkjulögin) nr. 78/1997, tóku gildi. Kirkjuþingi stýrði hann í átta ár. Þar var reyndur maður á sviði félagsmála heima í sveit sinni og stjórnmála á landsvísu sem stýrði mikilvægri stofnun kirkjunnar þar sem kirkjuþing er annars vegar. Öllum þótt gott að vita af honum þar við stjórnvölinn, hann var sannur kirkjunnar maður og öflugur í hópi leikmanna. Þinginu stýrði hann með elskusemi, festu og visku. Kirkjuþingmenn báru óbilandi traust til forystu hans og skynsemi þegar mikið reyndi á og flókin mál voru til úrlausnar.

Jón Helgason er kvaddur með virðingu og þökk. Guð blessi minningu hans.

  • Frétt

Hótel Kríunes við Elliðavatn

Kyrrðardagar á Kríunesi

02. jan. 2025
...á vegum Kyrrðarbænasamtakanna
Árbæjarkirkja

Laust starf organista

02. jan. 2025
...við Árbæjarkirkju
Frá úthlutuninni

Hallgrímskirkja úthlutar til hjálparstarfs

02. jan. 2025
...úr Líknarsjóði kirkjunnar