Kvíðinn í samfélaginu, kröfur, kulnun og kvíði

9. apríl 2019

Kvíðinn í samfélaginu, kröfur, kulnun og kvíði

Ráðstefnan „Kvíðinn í samfélaginu“ var haldin á Hólum 4.-5.apríl í samstarfi Guðbrandsstofnunar, Landlæknisembættisins, Geðhjálpar, Háskólans í Reykjavík, Háskólans á Akureyri og Félags músikþerapista. Hver fyrirlesari hélt 10 mínutna kveikju eða innlegg og síðan var jafnlangur tími ætlaður í umræður. Þannig skapaðist gagnkvæm þekking og reynsla. Unnið var út frá fjórum þemum: Líf í snjöllum heimi, lífskapphlaupið, líf og lýðheilsa og loks ráð við kvíða.

Bent var á að  með hugtakinu „kvíði“ væri bæði átt við „eðlilegan“ kvíða og kvíðaraskanir. Hinu síðara er þörf að mæta með einhvers konar meðferð. Allir finna á hinn bóginn til kvíða í ýmsum aðstæðum og sérstaklega þegar eitthvað erfitt er framundan, þannig kvíða er slæmt að sjúkdómsvæða. Eðlilegur kvíði er vinur en hann getur líka orðið óvinur.  

Of lítill svefn og þreyta eykur kvíða og það er etv það sem helst háir ungu fólki sem upplifir kvíða. Góður svefn er vanmetinn. Dalai Lama sagði: „Sleep is the best meditation“. Bent var á að rökhugsun okkar er ekki góð á kvöldin og því væri gagnlegra að láta erfið málefni og vinnu bíða til morguns frekar en t.d. að fara í tölvupóstinn og vinna smá. Skjánotkun seint á kvöldin er ekki góð til að róa sig fyrir svefninn. Þetta á bæði við unga sem aldna.  Það er heilinn sem vill og þarf hvíld.

Bent var á að horfa má á kvíða á skalanum 0-100 og sjá að hann er stöðugt að breytast. Orðið geðnæmi þótti nýmæli sem lýsir því að einstaklingar eru misnæmir fyrir geð- og kvíðaröskunum.

Ýmislegt í samfélaginu skapar kvíða og eitt af því eru verðtryggð lán. Streita og kvíði magnast þegar fólk borgar stöðugt af lánum sínum en lánið virðist aldrei lækka. Þá er einnig staða margrar öryrkja og aldraðra kvíðvænleg. Afkoman er ekki tryggð og stöðugt hækkandi húsaleiga veldur miklum áhyggjum og kvíða.

Neyslusamfélagið og aukinn kvíði eru nátengd. Við ætlum okkur oft of mikið en kannski er betra að vera meira heima og hafa minna, slaka á og gera ekki of miklar kröfur.

Loftlagskvíði svífur yfir heiminum og hlýnun jarðar er staðreynd. Í sumum tilvikum verður fólk magnþrota og sér ekki að það sem hver og einn getur lagt til skiptir máli. Umræðan eða miðlavæðing kvíðans getur valdið hamlandi kvíða.

Nokkrir fyrirlesarar greindu frá eigin kvíðaröskunum sem hefti líf þeirra í mörg ár og skekkti sjálfsmynd þeirra. Það að fá fræðslu um kvíðaraskanir gerbeytti lífi þeirra. Þau hvöttu til geðfræðslu í skólum og einnig var bent á að hægt væri að nota fjölmiðla meira til slíkrar fræðslu. En kvíði er aldrei eins hjá tveim einstaklingum og því passa ekki alltaf sömu úrræði. Það sem þó skiptir öllu er að sjá vanda sinn og viðurkenna hann til að hægt sé að vinna með hann. Eftir að hafa reynt sjúklegan kvíða fannst sumum að það væri reynsla sem hefði dýpkað skilning þeirra á lífinu og að þau væru fær um að veita jafningjastuðning. Þó sérfræðingar séu nauðsynlegir halda þeir oft fjarlægð gagnvart skjólstæðingum. Það er mikilvægt að finna samkennd frá öðrum og  læra að sýna sjálfum sér sjálfsvinsemd (compassion), geta fyrirgefið og öðlast sátt við lífsferil sinn.

Orskakir kvíðaraskana eru fjölmargar og það eru margar leiðir til að fást við þær. Lyf og samtalsmeðferðir er mjög þekktar en að nota tónlist er líka ein leið. Múskiþerapisti lýsti hvernig hægt væri að nota tónlist til lækningar. Bæði hann og þeir sálfræðingar sem voru á staðnum þótti slæmt að góð úrræði eins og störf þeirra væru ekki hluti af heilbrigðiskerfi okkar.

Það var upplifun fyrir þátttakendur þegar leikið var á flygill og kvíðinn túlkaður með tónlistinni. Með öðrum orðum þá fengu ráðstefnugestir að heyra hvernig kvíði hljómar. Hann er kaotískur og ómstríður. Samhljóm vantar í lífið og það er komið út takti. Einn fyrilesari byrjaði orð sín með slökun og það þótti öllum gott.

Það er hætta á kvíði sé sjúkdómsvæddur en það má ekki gera alla kvíðna að „kvíðasjúklingum“.  Sé svo gert detta margir út af vinnumarkaðnum. Betra er að vera með í atvinnulífinu og viðurkenna að það eru margir með kvíða sem stunda vinnu sína vel.

Það er streita, kvíði og kulnun víða í samfélaginu en heilsa hvers og eins er mál allra en ekki bara heilbrigðisstétta. Á þessari ráðstefnu voru þátttakendur hvattir til að íhuga geðheilbrigði sitt og annarra. Kröfur og áreiti sem bæði við sem einstaklingar og samfélagið gerir veldur streitu sem auðveldlega leiðir til kvíða og kulnunar.

Ef áhugi er fyrir hendi eru hér nöfn nokkur samtaka sem vinna með fólki sem er að takast á við kvíða: Grófin, Stígamót, Drekaslóð, Kvennaathvarfið, Krýsuvíkursamtökin, AA hreyfingin, Bjarkarhlíð, Aflið, Geðhjálp, Virk og Félag músikþerapista. Þá eru margar stéttir að vinna með fólki með kvíðaraskanir eins og sálfræðingar, félagsráðgjafar, vígðir þjónar kirkjunnar og Fjölskylduþjónusta krikjunnar.

  • Frétt

Hótel Kríunes við Elliðavatn

Kyrrðardagar á Kríunesi

02. jan. 2025
...á vegum Kyrrðarbænasamtakanna
Árbæjarkirkja

Laust starf organista

02. jan. 2025
...við Árbæjarkirkju
Frá úthlutuninni

Hallgrímskirkja úthlutar til hjálparstarfs

02. jan. 2025
...úr Líknarsjóði kirkjunnar