Sr. Ingiberg J. Hannesson, prófastur emeritus, kvaddur

9. apríl 2019

Sr. Ingiberg J. Hannesson, prófastur emeritus, kvaddur

Sr. Ingiberg Jónas Hannesson, fyrrum prófastur á Hvoli í Saurbæ, lést 7. apríl s.l., á Hjúkrunarheimilinu Sóltúni. Hann verður jarðsunginn frá Víðistaðakirkju í Hafnarfirði 15. apríl n.k., kl. 13.00.

Sr. Ingiberg fæddist 9. mars 1935 í Hnífsdal við Ísafjarðardjúp. Foreldrar hans voru Hannes Guðjónsson, sjómaður og verkamaður, og Þorsteina Guðjónsdóttir, húsfreyja og verkakona. Eftirlifandi eiginkona hans er Helga Steinarsdóttir, húsmóðir, og eignuðust þau fjögur börn, Birki, Þorstein Hannes, Braga Jóhann og Sólrúnu Helgu.

Sr. Ingiberg lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Laugarvatni 1955 og embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands 1960. Á háskólaárum sínum var hann formaður Bræðralags, kristilegs félags stúdenta. Að loknu guðfræðiprófi var hann um tíma framkvæmdastjóri blaðsins Frjálsar þjóðar og vann einnig sem blaðamaður um skeið. Hann var enda vel ritfær og ræðumaður góður. Ritaði margar greinar og hugvekjur í bækur, blöð og tímarit.

Sr. Ingiberg vígðist sem sóknarprestur 1960 til Staðarhólsþinga í Dölum og þjónaði þar alla sína embættistíð eða í 45 ár. Jafnframt þjónaði hann Hvammsprestakalli frá 1970. Skipaður prófastur í Dalaprófastsdæmi 1969-1971 og síðar prófastur í Snæfellsnes- og Dalaprófastsdæmi 1976-2005. Hann sat á alþingi um tíma sem varamaður og sem aðalmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Starfaði sem fréttaritari Morgunblaðsins um áratugaskeið.

Í heimabyggð sinni kom hann að ýmsum félagsmálum, sat í nefndum og ráðum fyrir kirkju og sveitarfélagið; var skólanefndarformaður Laugaskóla í Sælingsdal í rúma þrjá áratugi, formaður veiðifélags, ungmennafélags, barnaverndarnefndar, sat í þjóðhátíðarnefnd Dalasýslu og í stjórn Hallgrímsdeildar Prestafélags Íslands svo dæmi séu nefnd.

Sr. Ingiberg var kjörinn forystumaður í sinni sveit, ötull í hverju verki sem hann tók sér fyrir hendur, hraðvirkur og velvirkur. Hann gat verið fastur fyrir ef því var að skipta og réði þar hyggjuvit hans og einlægni. Maður sem var öllum velviljaður sakir manngæsku sinnar og greiðvikni. Umhyggjusamur prófastur sem lét sér annt um presta sína og sóknarnefndarfólk.

Sr. Ingiberg J. Hannesson er kvaddur með virðingu og þökk. Guð blessi minningu hans.

hsh

  • Frétt

Kjalarnesprófastsdæmi.jpg - mynd

Kirkjulistavika Kjalarnessprófastsdæmis stendur sem hæst

06. nóv. 2024
...sælir eru friðflytjendur
Neskirkja í Reykjavík

Samtal kynslóðanna í fermingarstörfunum

06. nóv. 2024
...í Neskirkju
Sr. Árni Þór Þórsson

Sr. Árni Þór ráðinn

01. nóv. 2024
...prestur innflytjenda