Senn lýkur merkilegri sýningu

15. apríl 2019

Senn lýkur merkilegri sýningu

Í lok þessa mánaðar – eða þann 28. apríl – lýkur merkilegri sýningu í Þjóðminjasafninu sem ber heitið: Kirkjur Íslands: Með augum biskups og safnmanna.
Á sýningunni getur að líta vatnslitamyndir, blýants- og vaxmyndir, dr. Jóns Helgasonar biskups (1866-1942), og ljósmyndir fyrrum þjóðminjavarða, þeirra dr. Matthíasar Þórðarsonar (1877-1961) og Þórs Magnússonar, af kirkjum og kirkjugripum. Allar þessar myndir geyma mikla sögu sem er dýrmæt.

Dr. Jón Helgason biskup málaði myndir af fjölda kirkna á vísitasíum sínum og reyndar áður en hann varð biskup. Allar þessar myndir hans eru stórmerkar heimildir um kirkjubyggingar í sveitum og þorpum. Þjóðminjaverðirnir fóru um landið og skráðu kirkjugripi og tóku myndir sem segja mikla sögu. Úrval mynda þessara þriggja manna falla vel saman og eru mjög svo áhugaverðar. Allt er þetta hluti af menningarverðmætum Íslendinga. 

Sýning þessi var sett upp í nóvember og er liður í 100 ára afmælis fullveldis Íslands.

Auk þessarar sýningar sem senn lýkur eru tvær aðrar í Þjóðminjasafninu sem tengjast kirkjunni. Þar er um að ræða: Kirkjur Íslands: Skrúði og áhöld. Straumar og stefnur, og: Leitin að klaustrunum. Þær sýningar standa fram til hausts og eru báðar mjög áhugaverðar.
Upplagt er að nota til dæmis daga dymbilvikunnar til að skoða þessar sýningar og sérstaklega myndasýninguna sem lýkur í lok þessa mánaðar sem fyrr segir. Enginn verður svikinn af því.

Sýningin Kirkjur Íslands: Með augum biskups og safnmanna, er í myndasal Þjóðminjasafnsins á fyrstu hæð, við hliðina á kaffistofunni. Aðgangur er ókeypis.
Meðfylgjandi mynd er af Gaulverjarbæjarkirkju. Máluð 19. september 1892.


Myndir með frétt

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju