Páskar 2019

17. apríl 2019

Páskar 2019

Fjöldi fólks leggur leið sína til annarra landshluta eða landa í dymbilvikunni og um páskahelgina. Þar sem hugur minn er gjarnan við Ísafjarðardjúp minnist ég þess hvernig bærinn minn Ísafjörður breyttist á þessum dögum á uppvaxtarárum mínum. Skíðavikan var fastur liður og þar sem ekki var mikið um hótel eða gistihús í þá daga kom Gullfoss vestur og lagðist að bryggju með fjölda farþega sem bjuggu þar þessa daga. Að kvöldi föstudagsins langa var dagskrá í kirkjunni með tónlist og tali og alltaf var troðfull kirkjan. Dagarnir einkenndust af útiveru á Dalnum og félagskap við Guð og menn.

Nú flykkist fólk vestur á tónlistarhátíðina Aldrei fór ég suður sem hefur vakið athygli innanlands sem utan. Fólk nýtur enn samvistanna og tilbreytingar frá amstri hvers dagsins. Hægt er líta á þessa daga sem langa helgi og þar með fleiri frídaga en þegar um venjulega helgi er að ræða. En þetta er helgi, heilagir dagar. Þeir eru fráteknir, ekki bara til samveru með fjölskyldu og vinum heldur einnig til íhugunar um kristna trú og líferni, því upprisa Jesú sem við minnumst á páskum er grundvöllur trúarinnar og kirkjunnar sem er samfélag þeirra sem játa trú á Jesú Krist.

Dagarnir frá skírdegi til páska eru dagar umbreytandi atburða sem í senn eiga sér rætur í enn þá eldri sögu en hérvistardagar Jesú segja til um. Um leið eru þeir endurskyn af þeim andstæðum og átökum sem koma upp á lífsleiðinni.

Upprisuboðskapur páskanna fjallar um lífið og allt það góða, fagra og fullkomna sem því fylgir. Við vitum af skuggahliðum mannlífsins sem skemma allt það góða sem lífið gefur. Þess vegna talar boðskapur páskanna sterkar til þeirra sem gengið hafa í gegnum myrkur og böl. Ljósið sem páskunum fylgir er sterkara hjá þeim sem úr myrkrinu koma en þeim sem allt hefur leikið í lyndi hjá.

Páskaboðskapurinn er boðskapur vonar. Hann er í raun aðeins þrjú orð: „Kristur er upprisinn“. Í þessum orðum felst margt og upprisuna sjáum við allt í kringum okkur. Við sjáum hana þegar krókusarnir kíkja upp úr moldinni á vorin. Við sjáum hana þegar veikur einstaklingur nær heilsu. Við sjáum hana þegar alkóhólistinn eða fíkilinn nær að vera óvirkur. Samkvæmt orðabók þýðir orðið upprisa það að rísa upp frá dauðum. Dauðinn er ekki aðeins þegar hjartað hættir að slá og líkaminn sofnar svefninum langa. Dauðinn getur birst í ótal myndum þó lifað sé og upprisan er allt í kringum okkur samanber dæmin hér að ofan.

Megi boðskapur páskanna vitja þín, tala til þín, hafa áhrif á líf þitt og færa þér gleði og frið. Gleðilega páska.

  • Biskup

  • Menning

  • Biskup

  • Menning

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði