Störf Prestastefnu Íslands 2019

4. maí 2019

Störf Prestastefnu Íslands 2019

Prestastefna Íslands fór fram í Áskirkju dagana 30. apríl til 2. maí. Hún hófst með helgistund þar sem sr. Helga Soffía Konráðsdóttir, prófastur prédikaði.

Að helgistundinni lokinni flutti biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir, yfirlitsræðu sína, og setti stefnuna. Þá ávarpaði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, dómsmálaráðherra, prestastefnuna. 

Dagskrá prestastefnunnar var fjölbreytt og ýmis mál kynnt. Þar má nefna starf Hjálparstarfs kirkjunnar og Lútherska heimssambandsins á sviði jafnréttismála. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna voru einnig  kynnt. Fjölbreytilegu starfi Þjónustumiðstöðvar Biskupsstofu í Háteigskirkju voru gerð góð skil eins og efnisveitunni, sunnudagaskólanum og heimsmarkmiðunum, umhverfismálum, jafnréttismálum, fjölskyldukirkjunni og skírninni. Þá var fluttur fyrirlestur um intersex og stöðu þeirra mála hér á landi.

Báðir dagar prestastefnunnar hófust á helgistund og að henni lokinni voru Biblíulestrar í nokkrum hópum. Þá var kvöldbæn við þvottalaugarnar í Laugardal í mildu veðri. Venju samkvæmt bauð svo biskup prestum og djáknum í biskupsgarð að kvöldi dags.

Fjórar ályktanir voru samþykktar á prestastefnunni. Sú fyrsta fjallar um umhverfismál sem hafa verið mjög svo í brennidepli og vill kirkjan ekki láta sitt eftir liggja í þeim málum. Önnur ályktunin er hvatning til Alþingis um að samþykkja frumvarp sem liggur fyrir þingi um kynrænt sjálfræði. Þriðja ályktunin hvetur til þess að hugað verði að framtíð kirkjunnar og hvernig háttað skuli viðræðum hennar um fjárhagsleg samskipti við ríkið. Fjórða ályktunin er hvatning um að sett verði nefnd á laggirnar til stuðnings gleðinni: 

1.Prestastefna 2019 haldin í Áskirkju hvetur kirkjuleg stjórnvöld til að fara af stað með úttekt á því hvaða jarðnæði í eigu Þjóðkirkjunnar geti hentað til skógræktar í stórum stíl sem og til endurheimtar votlendis. Í framhaldi af úttekt og skilgreiningu á heppilegu landi skuldbindi kirkjan sig til að leggja a.m.k. 10 af hundraði þess svæðis sem þykir henta árlega til skógræktar og/eða endurheimtar votlendis. Með því móti má klára verkefnið fyrir 2030 sem er sá tími sem nefndur hefur verið sem svigrúm til viðsnúnings í loftslagsmálum.

Jafnframt skuldbindi Þjóðkirkjan sig til þess að kolefnisjafna allir ferðir á vegum kirkjustjórnar og prófastsdæma innan 3 ára, m.a. með mótvægisaðgerðum í skógrækt eða endurheimt votlendis á jarðnæði í eigu kirkjunnar. Einnig verði söfnuðum og starfsemi Þjóðkirkjunnar gert kleift að kolefnisjafna starf sitt á þessum jörðum. Jafnframt yrðu umhverfisvænir virkjunarkostir jarðanna kannaðir.

Þá hvetur Prestastefna 2019 haldin í Áskirkju kirkjustjórnina, sóknir og presta að stíga skref til orkuskipta í samgöngum. Komið verði upp rafmagnstenglum við fasteignir kirkjunnar til að hlaða bíla. Akstursgreiðslur verði aflagðar og prestsembættum úthlutað rafmagnsbílum eða öðrum umhverfisvænum kostum í samræmi við akstursþörf.

Einnig tekur Prestastefna 2019 undir með Landvernd að lýsa beri neyðarástandi vegna stöðunnar í loftslagsmálum og að áætlun ríkisstjórnarinnar verði magnbundin og tímasett.

Þá hvetur Prestastefna 2019 þau flugfélög/ferðaþjónustuaðila sem selja flugferðir til og frá landinu, svo og innanlands að innleiða í kaupferli flugmiða kolefnisjöfnun á viðkomandi flugferð.

Einnig hvetur Prestastefna 2019 verslanir til að draga úr sóun matvæla svo og matvælaframleiðendur til að minnka notkun plastpakkninga á matvælum þar sem því verður við komið.

 

2.       „Prestastefna Íslands, sem haldin er í Áskirkju 30. apríl – 2. maí 2019 hefur fengið fræðslu um einstaklinga með ódæmigerð kyneinkenni og réttindi þeirra. Frumvarp til laga hefur verið lagt fram á Alþingi um kynrænt sjálfræði. Það felur í sér réttarbót fyrir einstaklinga með ódæmigerð kyneinkenni. Prestastefna þakkar fyrir framlagningu þess og hvetur þingheim til að styðja það.“

 

3.       „I. Prestastefna 2019 ályktar að rétt og tímabært sé að ræða framtíðarsýn fyrir þjóðkirkjuna og að móta henni heildarstefnu líkt og gert var með samþykktri stefnumótun fyrir kirkjuna fyrir árin 2004 – 2010. Leiðarljós í þeirri vinnu verði einkum markviss umræða um áherslur, starfshætti, starfsmannahald og skipulag kirkjunnar á 21. öld. Ennfremur að tryggja að kirkjan nýti ávallt sem best auðlindir sínar í þágu þess málstaðar sem hún boðar og stendur fyrir, þjóð og kirkju til heilla.

II. Að lokinni stefnumótun komi til skoðunar hvort ræða þurfi breytingar á skipulagi kirkjunnar og starfsemi hennar, þ.m.t. lagalega stöðu þjóðkirkjunnar og stofnana hennar, samband þjóðkirkjunnar og ríkisins og hvort þörf sé á breytingum þar á.

III. Prestastefna 2019 telur að þær viðræður kirkjunnar og ríkisins sem staðið hafa frá 2015 um einföldun fjárhagslegra samskipta skuli leiddar af þeim þremur stjórnvöldum sem veita kirkjunni fyrirsvar, þ.e. biskupi Íslands, kirkjuþingi og kirkjuráði með aðkomu PÍ og annarra fagfélaga þar sem það á við. Þannig leiði biskup Íslands, sem er leiðtogi þjóðkirkjunnar, viðræðurnar f.h. kirkjunnar ásamt forseta kirkjuþings og fulltrúa sem kirkjuráð tilnefnir.“

4.       „Prestastefna 2019 hvetur Biskup Íslands til að stofna gleðinefnd í kirkjunni til að gleðjast saman og stuðla að aukinni virkni gleðidaganna frá jólum til öskudags og frá páskum til hvítasunnu.             

 

Nefndin kæmi með tillögur hvernig auka mætti gleðina í kirkjunni á þessum tveimur tímabilum og stuðla að samvinnu við önnur félög.

Nefndin mundi starfa í 11 mánuði frá 1. júlí 2019 til 31. maí 2020. Hún mundi skila inn tillögum bæði til Biskups Íslands og presta og djákna annars vegar 15. október fyrir tímabilið frá jólum til öskudags og hins vegar 1. mars fyrir tímabilið frá páskum til hvítasunnu.“

  • Ályktun

  • Biskup

  • Frétt

  • Guðfræði

  • Viðburður

  • Biskup

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju