Skammdegisbirtan kvaddi í Neskirkju

10. maí 2019

Skammdegisbirtan kvaddi í Neskirkju

Í gærkvöldi var í Neskirkju síðasti viðburðurinn undir heitinu Skammdegisbirta og var ágætlega sóttur. Þetta var sjötta skammdegisbirtustundin í þessari lotu en sú fyrsta hófst í október á síðasta ári. Yfirskrift allra viðburðanna var: Máltíð og menning á Torginu.

Dagurinn í gær var bjartur og ögn svalur en þá kom fólk saman í kirkjunni kl. 18.00. Hlýddi fyrst á kröftugan orgelleik Steingríms Þórhallssonar, orgelleikara Neskirkju. Hann kynnti með áhugavekjandi og líflegum hætti orgelverkin sem hann lék. Einn og einn gestur skaust hljóðlega inn í hópinn sem sat á bekkjum kirkjunnar eftir að orgelleikurinn var byrjaður og var augljóslega að koma úr vinnu og ætlaði sér að njóta listarinnar – vildi ekki missa af dagskránni.

Að loknum hressandi tónleikum var farið inn í safnaðarheimilið, Torgið, þar sem bragðmikil súpa var borinn fram í anda tónlistarinnar og þess sem koma skyldi.

Pétur Húni var svo kynntur til leiks en erindi sitt kallaði hann: „Líkamsvessar og úrgangur úr sögunni.“ Fjallaði hann skörulega um þrifnað á meðal Íslendinga og skoðaði hann frá glettnislegu sjónarhorni en þó alvörufullu, vitnaði í Þjóðhætti sr. Jónasar á Hrafnagili og fræga ritgerð Halldórs Laxness í Alþýðubókinni um þrifnað landans og húsakynni. Þá tók til máls sóknarpresturinn, dr. Skúli Sigurður Ólafsson, og flutti glaðbeittur erindið „Borið í barmafullan klerkinn“, ræddi um drykkjuskap presta á 19. öld og hvað í honum væri hæft. Þá stigu fram félagar úr kór Neskirkju og sungu með glæsibrag tvö lög. Að síðustu flutti Páll Valsson erindi um ljóð Snorra Hjartarsonar. Sr. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir stýrði stundinni.

Skammdegisbirta er gott dæmi um metnaðarfullt safnaðarstarf sem víða má finna í kirkjum og nauðsynlegt er að vekja athygli á. Í samverum Neskirkju, Skammdegisbirtu, var fléttað saman íslenskri menningu, tónlist og máltíðarsamfélaginu. Dagskrá þessara samvera, allt frá þeirri, fyrstu ber merki um að vel var að öllu staðið og fjölbreytileiki settur í öndvegi. Kynning allra þessara viðburða var sett fram með einstaklega glaðlegum hætti og jákvæðum.

Neskirkja var svo sannarlega opin kirkja í Vesturbænum í gær. Og gefandi samfélag!

  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Tónlist

  • Menning

  • Samfélag

Sr. Stefanía G. Steinsdóttir

Sr. Stefanía ráðin

29. mar. 2023
......í Ólafsfjarðarprestakall
Bjarni Gíslason í nýjum jakka frá Úganda

Verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar í Úganda

28. mar. 2023
.....viðtal við Bjarna Gíslason framkvæmdastjóra
Evrópufundur LWF - mynd:LWF/Albin Hillert

Ályktun Evrópufundar Lútherska heimssambandsins

27. mar. 2023
.....samþykkt í Oxford á föstudaginn