Hamingjan tálsýn ein

14. maí 2019

Hamingjan tálsýn ein

- Mynd birt með leyfi RÚV

Í kvöld mun það ráðast hvort að Ísland komist upp úr riðlinum í söngvakeppni sjónvarpsstöðanna, Eurovison, og keppi á úrslitakvöldinu á laugardaginn. Íslendingar munu setjast niður og horfa á beina útsendingu sjónvarpsins með von í hjarta um gott gengi. Íslendingar hafa verið vonlitlir um stöðu sína í keppninni undanfarin ár, en nú mun það gerast! Veðbankarnir veðja á að Ísland muni lenda í 10 sætinu. Er það nýja vinningssæti Íslands? Sumir eru vonbetri um sæti og aðrir vonminni.

Yfirleitt þegar Eurovision er sýnd á Íslandi tæmast göturnar. Það er varla hræða á ferðinni nema af illri nauðsyn. Því allir vilja að gengi Íslands verði gott. Við vonumst alltaf eftir hæstu tölunni í stigakeppninni eins og í boltanum þá viljum við alltaf skora sem mest. Islande douze points, Iceland tvelwe points eða eins og við segjum á góðri íslensku, Ísland 12 stig. Þessi töfraorð eru eins og vítamínsprauta fyrir þjóðina og við gleðjumst yfir gjafmildi þjóðanna í kringum okkur. Þulur Eurovision verður eins og æsifréttamaður þegar kemur að stigagjöfinni því að stundum stynur hann yfir stigaleysi eða hrópar upp yfir sig af fögnuði og það gerum við líka heima í stofu.

Margir flytjendur Eurovision færa okkur fallegan boðskap líkt og margir sálmar sem eru sungnir í kirkjum landsins vekja með okkur von og styrkja andann til góðra verka. Undanfarin ár hafa fulltrúar Íslands sungið fyrir Evrópu lög með kærleiks- og vinaboðskap. Flytjendurnir syngja með bros á vör og stjörnublik í augum um betri heim.

Hatarar fjalla aftur á móti um dekkri hliðar mannlífsins. Þeir fjalla um neysluhyggju og hrun. Að leitin að hamingjunni í hinum veraldlegu hlutum sé tálsýn ein og samt er haldið áfram af blindri græðgi. Kannski eru Hatarar með sinni sérstöku sviðslist spámenn? Hver veit? Kannski mun hatrið sigra ef við breytum ekki um lífsstíl og sýnum náunga okkar kærleika.

Í vetur fór Greta Thunberg í verkfall á hverjum föstudegi fyrir jörðina. Hún mætti ekki í skólann. Hún benti okkur á þá vá sem bíður okkar ef við breytum ekki um lífsstíl. Kannski er Greta, líkt og Hatarar, spámaður? Hún gagnrýnir þróunina og neysluhyggjuna. Og með þessu hefur hún vakið aðra krakka til umhugsunar um stöðu jarðarinnar. Greta talar um neyðarástand jarðarinnar, en hvað er gert?

Hún segir: “Þú segist elska börnin þín umfram allt, en samt ertu að stela framtíð þeirra fyrir framan þau”.

Kannski eru Hatarar og Greta Thunberg ekkert svo ólík þó þau komi fram með ólíkum hætti. Þau vilja, eins og ég og þú, betri heim.

Í kvöld sjáum við hvort að boðskapurinn nái til áhorfenda og komi Höturum upp úr undanúrslitunum og á stórasviðið á laugardaginn þegar aðalkeppnin fer fram.

  • Frétt

  • Tónlist

  • Viðburður

Hótel Kríunes við Elliðavatn

Kyrrðardagar á Kríunesi

02. jan. 2025
...á vegum Kyrrðarbænasamtakanna
Árbæjarkirkja

Laust starf organista

02. jan. 2025
...við Árbæjarkirkju
Frá úthlutuninni

Hallgrímskirkja úthlutar til hjálparstarfs

02. jan. 2025
...úr Líknarsjóði kirkjunnar