Hálfmaraþon milli kirkna

17. maí 2019

Hálfmaraþon milli kirkna

Salóme R. GunnarsdóttirUng leikkona hugðist taka þátt í hálfmaraþoni í London sunnudaginn 19. maí. Hlaupið fer fram í hverfinu þar sem hún býr með kærasta sínum. Þau eru bæði að reyna fyrir sér í leiklist í borginni. Aldrei að vita hvenær stór hlutverk og spennandi verða á vegi þeirra. En þau fá engu að síður ýmis tækifæri til að spreyta sig í leiklistinni og þess á milli vinna þau við veitingastörf.

Allt krefst undirbúnings og það vita leikarar mæta vel. Hún var búin þjálfa sig fyrir hlaupið með ýmsum ráðum eins og gengur. Þetta var líka hennar fyrsta hlaup.

En skyndilega knýr sorgin dyra hjá fjölskyldu hennar. Náfrændi hennar á besta aldri bíður lægri hlut í baráttu við banvænan sjúkdóm. Eftir stendur eiginkonan og ársgömul dóttir.

Og leikkonan unga heldur frá London heim til Íslands, til Ísafjarðar, til að fylgja frænda sínum deginum áður en hún ætlaði sér að hlaupa í hverfinu sínu í London.

Hálfmaraþonið verður að bíða, hugsar hún með sér í fyrstu. En síðar skýtur þeirri hugmynd upp í kolli hennar að halda sínu striki og hlaupa sitt fyrsta hálfmaraþon. Hlaupa fyrir vestan. Fyrir frænda sinn.

Unga leikkonan svipast um eftir hlaupaleið fyrir hálfmaraþonið sitt. Hún verður ein á ferð. Ekki í hópi þúsunda í London þar sem fólk stendur á hliðarlínunni og kallar hvatningarorð til hlauparanna.

En hvaða leið á hún að hlaupa?

Hún kemst að því sér til undrunar að það eru nákvæmlega 21.1 km frá Ísafjarðarkirkju þar sem hún kveður frænda sinn hinstu kveðju, og að Súðavíkurkirkju. Hálft maraþon! Þessa leið ætlar hún sér að hlaupa. Milli tveggja kirkna á Vestfjörðum. Hlaupa ein fyrir frændann sinn kæra og öll þau sem berjast við vágestinn, krabbamein. Hugsunin um frændann og fjölskyldu hans verður hvatning hennar sem og kröftug vestfirsk náttúra.

Unga leikkonan segir fólki að það megi heita á hana og öll áheitin muni renna til Krafts, félags ungs fólks sem glímir við krabbamein. Reyndar vill svo til að félagið stendur fyrir 5 km hlaupi í Reykjavík til að afla fjár fyrir starfsemi sína sunnudaginn 19. maí, sama dag og unga leikkonan hleypur fyrir vestan.

Engin sérstök áheitasíða hefur verið sett upp fyrir maraþonhlaup ungu leikkonunnar heldur aðeins gefið upp reikningsnúmer: 0515-26-850722, kt. 020288-2999.
Á Facebókarsíðu sinni segir leikkonan unga, Salóme R. Gunnarsdóttir: „Ég ræddi við framkvæmdastjóra Krafts, og hún mælti með því að ég notaði bankareikning á mínu eigin nafni, og legði svo heildarsummuna inn á Kraft í einni færslu að hlaupinu loknu. Þessi reikningur hefur verið tæmdur fyrir söfnunina, svo skýrt sé að hver króna sem fer inn á hann fari beint til Krafts.“
  • Frétt

  • Kærleiksþjónusta

  • Messa

  • Samfélag

  • Samfélag

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju