Sýrlenskur matur í Grensáskirkju

20. maí 2019

Sýrlenskur matur í Grensáskirkju

María Ágústsdóttir

Borðið var hlaðið af framandi veitingum. Og það var öðruvísi ilmur í lofti en landinn á að venjast. Eitthvað forvitnilegt og spennandi.

En tilefnið var í sjálfu sér ekki framandi eða spennandi. Heldur dapurlegt. Það er knýjandi vandi sem öllum er kunnur og snýst um saklaust fólk sem stendur skyndilega frammi fyrir því að hversdagslegt líf þeirra er lagt í rúst vegna stríðsátaka eða náttúruvár af völdum manna.

Og það heldur á flótta. Með börn og ættingja. Stundum eitt síns liðs.

Saga flóttafólks er aldrei langt undan. Hún er sögð í fjölmiðlum nánast alla daga. Stundum fær það hæli og stundum ekki. Hamingjusamt líf bíður sumra en annarra grimmur dauðinn. Örlagasögur þess eru sagðar og áheyrandinn er skyndilega staddur inni í dimmum örlögum annarra. Og er stundum á báðum áttum hvort hann eigi að hraða sér á braut eða leggja enn betur við hlustir. Hann vefst oft inn í umræður á ýmsum stöðum um að örlög annarra komi honum ekki við, hver maður eigi nóg með sín eigin örlög. Hann er því ósammála og vill leggja þessu fólki lið. Þó ekki nema í litlu væri.

En hvernig?

Samtökin Öruggt skjól (Safe shelter) eiga sér sögu sem er fáum lík. Kona á flótta með börn sín í stríðshrjáðu Sýrlandi. Hún leggur á flótta undan hörmungum stríðsins til Tyrklands, þaðan fer hún til Grikklands. Á flótta sínum hefur hún tekið kristna trú og fyrir múslima er það líflátssök að kasta trúnni. Og skyndilega er hún ekki bara flóttamaður heldur líka réttdræp. Hún fær þá hugljómun að halda til lands í norðrinu sem hugur hennar segir að sé öruggt skjól. Það er Ísland. Hér bjó hún um hríð og hélt að hún væri komin í örugga höfn. Svo reyndist ekki vera.

Öruggt skjól eru mannúðarsamtök áhugafólks um að styðja við bakið á fólki í sýrlenskri borg nokkurri sem býr við herfilegar aðstæður. Flóttakonan sem drap niður fæti hér á Íslandi hafði forystu um að liðsinna fólki sem hafði leitað sér skjóls í bílakjallara undir húsarústum í heimaborg hennar á Sýrlandi. Með aðstoð góðviljaðs fólks hefur hún náð að sjá þeim fyrir fæði, lyfjum og öðrum nauðsynjum. Síðan hefur verkefnið vafið upp á sig, nú hafa verið leigð hús fyrir flóttafólkið og börnunum komið í skóla eftir nokkurt hlé.

Samtökin Öruggt skjól hafa dafnað vel og hefur Kristniboðssambandið meðal annars stutt við bakið á þeim. Vinir samtakanna hafa skipulagt sýrlenskar máltíðir og selt gegn vægu gjaldi. Þar kennir margra sýrlenskra rétta sem eru gómsætir og hollir. Og nýstárlegir.

Blásið var til sýrlenskrar máltíðar síðastliðinn laugardag í Grensáskirkju. Fjöldi manns tók þátt í máltíðinni og hafði mikla ánægju af því að styrkja við samtökin Öruggt skjól með þessum hætti. Og að sjálfsögðu var ánægjan ekki síðri með matinn!

Dr. María Ágústsdóttir, settur sóknarprestur í Grensáskirkju, bauð gesti velkomna og sagði frá tilefninu. Síðan leiddi hún borðbæn. Hún flutti einnig stutt ávarp sem sr. Guðlaugur Gunnarsson, hafði samið, þar sem hann rakti í stuttu máli sögu konunnar sem ýtti samtökunum Öruggt skjól úr vör. Það var mögnuð frásögn hugrakkrar konu sem hefur mátt þola margt, meðal annars að vera vísað frá Íslandi á grundvelli Dyflinarreglugerðarinnar. En með samtökunum hefur hún ásamt öðrum snúið vörn í sókn fyrir flóttafólk á Sýrlandi með ótrúlegri bjartsýni og kærleiksríkum huga í anda kristinnar trúar.

  • Frétt

  • Hjálparstarf

  • Samfélag

  • Hjálparstarf

  • Samfélag

Sr. Toshiki með Biblíuna á farsi

Biblíufélagið gefur Biblíur á farsi

12. sep. 2024
...til Alþjóðlega safnaðarins
Landsp..jpg - mynd

Laust starf sjúkrahúsprests eða djákna

12. sep. 2024
...á Landspítala
Kópavogskirkja böðuð gulu ljósi

Alþjóðlegur forvarnardagur sjálfsvíga

11. sep. 2024
...kyrrðarstundir í kirkjum landsins