Söguleg tímamót

31. maí 2019

Söguleg tímamót

Fossvogsprestakall

Í gær fóru fram tvær sögulegar guðsþjónustur í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra. Ekki vegna þess að það væri uppstigningardagur eða dagur eldri borgara í kirkjunni heldur vegna þess að tvö prestaköll eru að kveðja. Bústaðaprestakall og Grensásprestakall sameinast frá og með morgundeginum, 1. júní, í eitt, Fossvogsprestakall.

Sr. María Ágústsdóttir rifjaði upp sögu Grensássafnaðar í stuttu máli við síðustu guðsþjónustuna í Grensásprestakalli en það var stofnað fyrir 55 árum, árið 1964.

Bústaðaprestakall var stofnað 1952.

Sr. Pálmi Matthíasson sagði í upphafi síðustu guðsþjónustunnar í Bústaðaprestakalli að þetta væri sérstök stund og tímamót.

Bústaðasókn og Grensássókn verða áfram til. Sr. Pálmi greindi frá því að guðsþjónustur yrðu í Bústaðasókn í sumar að kvöldi til, kl. 20.00, en í Grensássókn kl. 11.00.

Samþykkt var á kirkjuþingi 2018 að þessi prestkallasameining færi fram. Breytingin er hluti af nýskipan prestakalla í landinu. Markmiðið er að hafa sem fæst einmenningsprestaköll.

Hinn 1. janúar 2018 var íbúafjöldi í Bústaðasókn, Bústaðaprestakalli, 7.358 og í Grensássókn, Grensásprestakalli, 6.715. Samtals er íbúafjöldi í hinu nýja Fossvogsprestakalli 14.073 samkvæmt fyrrnefndri dagsetningu. Íbúum mun eflaust fjölga í kjölfar þéttingar byggðar.

Sr. Pálmi verður sóknarprestur í hinu nýja prestakalli og auk hans munu starfa þar tveir prestar. Þá er einnig starfandi djákni í Bústaðasókn.

  • Frétt

  • Messa

  • Samfélag

  • Samfélag

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju