Bókin Trans barnið afhent

5. júní 2019

Bókin Trans barnið afhent

Biskup tekur við bókinni Trans barniðTrans vinir afhentu frú Agnesi M. Sigurðardóttur, biskupi Íslands, bókina Trans barnið – Handbók fyrir fjölskyldur og fagfólk.

Á bakhlið bókarinnar stendur: „Síðustu ár hafa æ fleiri trans börn stigið fram á Íslandi. Oft og tíðum hafa þau mætt litlum skilningi í samfélaginu og jafnvel fordómum. Spurningar um kyntjáningu og kynvitund hafa brunnið á foreldrum þeirra og öðrum aðstandendum“.

Trausti Steinsson, kennari, þýddi, en rýnihópur á vegum námsbrautar í kynjafræði við Háskóla Íslands staðfærði og lagaði að íslenskum aðstæðum.
Trausti sagði okkur frá ástæðu þess að hann fór af stað og byrjaði að þýða bókina: „Ástæðan fyrir því að áhugi minn á málefnum trans barna og barna með ódæmigerða kyntjáningu vaknaði er sú að ég hef á undanförnum árum kynnst allmörgum trans börnum í starfi mínu sem kennari og í mínu nærumhverfi. En þegar ég hugðist fara að lesa mér til rakst ég á það, eins og svo margir aðrir í svipuðum sporum, að lítið er til á íslensku um þessi mál. Þá var það að á fjörur mínar rak þessa bók. Ég las hana og varð ákaflega hrifinn, hún er nefnilega með öll svörin og fleiri til. Svo ég ákvað að reyna að þýða bókina“.

Í bókinni eru reynslusögur aðstandenda, sem og ítarlegar leiðbeiningar fyrir starfsfólk sem sinna börnum og ungmennum. Hún er ætluð til að fræða og leiðbeina fjölskyldum og fagfólki í gegnum grundvallaratriði sem varða trans börn. Hún er ætluð til að leiða fólk í gegnum flókið og stundum erfitt ferðalag sem því fylgir, en sem er um leið þroskandi og lærdómsríkt.

Prestar og djáknar ásamt starfsfólki kirkjunnar falla undir þann hóp fagfólks. Mikilvægt er að mæta börnum og ungmennum þar sem þau eru stödd hverju sinni á sínum þroskaferli og að starfsfólk geti flett upp í bókinni þegar trans ungmenni leita til þeirra.

Með þessari gjöf vilja Trans vinir minna á mikilvægi þess að trans börn og ungmenni fái sömu stöðu og rými í samfélaginu og önnur börn. Að þeim sé mætt af skilningi og stuðningi hvar sem þau koma. Inni í skólanum eða í heilbrigðiskerfinu. Í íþróttum eða í kirkjunni. Að skortur á þekkingu og jafnvel hræðsla verði ekki til þess að koma í veg fyrir að barn sé hamingjusamt og njóti velsældar í samfélaginu okkar.
  • Fræðsla

  • Frétt

  • Samfélag

  • Fræðsla

  • Samfélag

Prestarnir Daníel Ágúst og María

Hverfa til annarra starfa

06. jan. 2025
...þéttsetin Grensáskirkju í kveðjumessu Maríu og Daníels Ágústs presta í Fossvogsprestakalli
logo.png - mynd

Kirkjan.is á nýju ári

03. jan. 2025
...pistill frá samskiptastjóra kirkjunnar
Mikill fjöldi var í Vatnaskógi

Öflugt æskulýðsstarf á höfuðborgarsvæðinu

03. jan. 2025
...stórmót ÆSKH í Vatnaskógi