Kirkja og útivist

5. júní 2019

Kirkja og útivist

Staður á Snæfjallaströnd

Almennur útivistaráhugi er mikill eins og öllum er kunnugt um. Margir sækjast eftir því að fara um fáfarnar slóðir og afskekktar þar sem fyrr á öldum var blómleg byggð, kindabúskapur stundaður sem og útræði. Áhuganum fylgir líka þorsti í fróðleik um staðhætti og náttúru. Allvíða hefur verið komið til móts við þennan áhuga með því að setja upp söguskilti svo sem við niðurlagðar kirkjur og kirkjugarða á afskekktum stöðum. Slíkt er líka öðrum hvatning til að gera hið sama. Söguskiltum mætti fjölga enda væri það fengur fyrir ferðamenn, innlenda sem útlenda.

Gott dæmi um þetta er Staður á Snæfjallaströnd við Ísafjarðardjúp en þar var eitt sinn kirkja og kirkjugarður. Þar var og prestssetur fram á 19. öld og þegar síðasti presturinn lét af embætti var kirkjan tekin af og ákveðið að reisa kirkju innar við Djúpið, á fjörukambinum í Unaðsdal. Búið var áfram á Snæfjöllum til ársins 1948.

Nú er búið að koma upp söguskilti á Stað á Snæfjallaströnd sem fræðir ferðamenn um horfna byggð á afskekktum stað en fögrum. Á því má sjá hvar kirkjan stóð og hvar kirkjugarðurinn var. Texti er á íslensku og ensku.

Að sögn sr. Magnúsar Erlingssonar, prófasts í Vestfjarðarprófastsdæmi, er það einkum göngufólk sem leggur leið sína um þessar slóðir á leiðinni úr Unaðsdal og yfir í Grunnavík. Segir hann Ólaf J. Engilbertsson, formann Snjáfjallaseturs, hafa átt hugmyndina að þessu söguskilti. Styrkur fékkst til verksins frá Kirkjugarðaráði og Ferðamálastofu.

En hvernig vissu menn hvar kirkjan stóð og hvar kirkjugarðurinn hefði verið, á Stað á Snæfjallaströnd?

Sr. Magnús segir að sonur síðustu ábúendanna á Snæfjallaströnd sem þar var fæddur og uppalinn, Jósef Rósinkarsson, hefði bent á kirkjustæðið og kirkjugarðinn. Farið var eftir forsögn hans, og skiltið sett niður. Prófastur fór svo með bæn og blessun.

Nú geta ferðamenn sem þarna eiga leið um lesið sér ögn til um þá sögu sem þessi fáfarni staður geymir. Sagan má nefnilega ekki týnast. Og gamalt fólk geymir mikla sögu.

  • Fræðsla

  • Frétt

  • Samfélag

  • Fræðsla

  • Samfélag

Hótel Kríunes við Elliðavatn

Kyrrðardagar á Kríunesi

02. jan. 2025
...á vegum Kyrrðarbænasamtakanna
Árbæjarkirkja

Laust starf organista

02. jan. 2025
...við Árbæjarkirkju
Frá úthlutuninni

Hallgrímskirkja úthlutar til hjálparstarfs

02. jan. 2025
...úr Líknarsjóði kirkjunnar