Göngumessa í Kjós

11. júní 2019

Göngumessa í Kjós

Myndina tók Sigríður Pétursdóttir

Góðviðrið kom sér vel um hvítasunnuhelgina hjá þeim söfnuðum sem boðuðu til helgihalds úti í guðsgrænni náttúrunni.

Á hvítasunnudag var á Reynivöllum í Kjós útihelgihald, göngumessa.

Fólk kom saman í Reynivallakirkju en þar ávarpaði sóknarpresturinn, sr. Arna Grétarsdóttir, viðstadda og fór með bæn. Kór Reynivallaprestakalls söng. Síðan var gengið að kirkjugarðinum á Reynivöllum en þar mun rísa aðstöðuhús sem er mjög nútímalegt og mun falla vel inn í umhverfið – var það kynnt nánar í lok göngumessunnar. Frá kirkjugarðinum var haldið inn á gamla Kirkjustíginn og austur með Reynivallahálsi. Leiðin er mjög falleg og gengið var að vatnsbrunni sem þar er, niður að Laxá og meðfram ánni heim að Reynivöllum. Á nokkrum völdum stöðum var numið staðar, lesnir textar úr helgum ritum og pílagrímafræðum. Lestur var í höndum Rúnars Vilhjálmssonar en sóknarpresturinn leiddi íhuganir og stýrði för.

Kór Reynivallaprestakalls söng í upphafi ferðar og á einum stað á göngunni. Þegar komið var á Reynivelli var kaffi og hressing þegin í boði sóknarnefndar. Sungið var Land míns föður við fánastöngina. Kórstjóri var Guðmundur Ómar Óskarsson, organisti.

Þó nokkur fjöldi fólks á ýmsum aldri tók þátt í göngumessunni sem var afar vel heppnuð.

Göngumessum hefur farið fjölgandi á undanförnum árum enda getur fólk sameinað margt í þeim, samfélag, helgihald og útivist.

  • Frétt

  • Messa

  • Samfélag

  • Samfélag

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju