Hér stend ég

4. júlí 2019

Hér stend ég

Stopp leikhópurinn & Þjónustumiðstöð Biskupsstofu

Árið 2017 voru 500 ár liðin frá því Marteinn Lúther negldi hinar 95 greinar upp á kirkjudyrnar í Wittenberg í Þýskalandi á allraheilagramessu árið 1517.

Valgeir Skagfjörð, leikskáld og leikstjóri skrifaði leikrit um siðbótarmanninn Martein Lúther fyrir siðbótarafmælisárið. Leikritið heitir: Hér stend ég og var frumsýnt á haustdögum 2017 í Grafarvogskirkju.

Í verkinu skyggnist höfundur inn í æsku og uppvöxt Lúthers og reynir að varpa ljósi á það hvernig hann óx frá því að alast upp á fábrotnu alþýðuheimili upp í það að taka doktorspróf í guðfræði og setja fram gagnrýni á kaþólsku kirkjuna sem á þeim tíma þótti gjörsamlega óhugsandi. Þeir atburðir sem fylgdu í kjölfar þess að hann setti fram nýja sýn á kristna trú og inntak hennar urðu til þess að breyta viðhorfum alþýðufólks vítt og breytt um Evrópu og kristnum gildum til langframa.

Skrif Lúthers og framganga hafði djúpstæð áhrif á þýska menningu. Má nefna t.d. að með þýðingu sinni á Nýja Testamentinu yfir á þýsku þá gaf hann ekki aðeins þýskri alþýðu tækifæri til að lesa og skilja texta bilbíunnar, heldur lagði þýðing hans grunninn að þýsku ritmáli og talmáli eins og það þróaðist síðar. Hann lagði sömuleiðis grunn að samfélagshyggju og fræðslu barna í Þýskalandi og ekki má gleyma þeim áhrifum sem hann hafði á kirkjusiði og kirkjutónlist, enda samdi hann talsvert af sálmum sem enn hljóma í kirkjum nú um stundir.

Leikritið hefur nú verið tekið upp á myndband og er tilbúið til notkunnar í fræðslustarfi kirkjunnar á efnisveitunni. Leikararnir afhentu myndbandsupptökuna til Þjónustumiðstöð Biskupsstofu í Háteigskirkju.

Stopp-leikhópurinn vann að uppsetningu og sýningu verksins sem sýnt var víða í kirkjum landsins. Valgeir Skagfjörð leikstýrði og ásamt honum fara þau Eggert A. Kaaber og Katrín Þorkelsdóttir með hlutverkin í sýningunni og fyrir það hafa þau hinar bestu þakkir.

  • Fræðsla

  • Frétt

  • Guðfræði

  • Menning

  • Viðburður

  • Viðburður

  • Fræðsla

  • Menning

Hafnarfjarðarkirkja

Barna- og unglingakórastarf í Hafnarfjarðarkirkju

28. feb. 2024
......börn og unglingar taka mikinn þátt í kirkjustarfinu
Barnakór 2.png - mynd

Barnakór Fossvogs í Bústaðakirkju með nýju sniði

27. feb. 2024
.....í samstarfi við Tónlistarskóla Grafarvogs