Málþing á morgun í Skálholti

19. júlí 2019

Málþing á morgun í Skálholti

Dr. Munib Younan og sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup

Að lokinn útimessu við Þorlákssæti á morgun, laugardaginn 20. júlí, hefst málþing í Skálholti kl. 10.00 og stendur yfir til hádegis.

Málþingið er haldið í samstarfi við Stofnun dr. Sigurbjörns Einarssonar. Fyrirlesari er dr. Munib Younan, biskup, og er yfirskriftin „Just Wars and Just Peace: What is the role of religion in reconciliation?“

Fjallað verður um það hvernig trúarbrögð eru gerð að blóraböggli fyrir átök og þau jafnvel talin vera rót þeirra - eða þá fullyrðingu að stríðsátök séu iðulega hafin í nafni trúarbragða. Rætt verður um hvernig skoða megi trúarafstöðu þeirra sem takast á sem hjálpartæki til að leysa ágreining, koma á friði og vinna að sáttargjörð. Dr. Munib mun fara yfir stöðu mála í Mið-Austurlöndum og fjalla um þann meið guðfræðinnar sem snýst um guðfræði landsins, einkum guðfræði Landsins helga, og forsendur þess að fá að búa í fyrirheitna landinu. 

Dr. Munib hefur óvenju mikla yfirsýn yfir ólík svæði í heiminum og býr auk þess að bjartsýni og þrótti til að skapa frið og koma á sátt milli ólíkra hópa, enda hefur hann hlotið friðarverðlaun fyrir þá viðleitni sína í Asíu.

Málþingið fer fram á ensku og mun formaður Stofnunar dr. Sigurbjörns Einarssonar, Bogi Ágústsson, stýra umræðum.

En hver dr. Munib Younan?

Hann er fæddur árið 1950 í Jerúsalem og er Palestínumaður. Fjölskylda hans snerist á sveif með mótmælendum. Dr. Munib lauk meistaraprófi í guðfræði frá háskólanum í Helsinki og nam síðar við lútherska guðfræðiskólann í Chicago. Hann tók prestsvígslu og þjónaði lútherskum söfnuði í Jerúsalem og Ramallah. Hann var vígður til biskups 1998 í Jórdaníu og Landinu helga. Árið 2010 var hann kjörinn forseti Lútherska heimssambandsins og gegndi því starfi til ársins 2017.

Hann hefur ritað tvær bækur og ritstýrt útgáfu á Ágsborgarjátningunni á arabísku. Auk þess liggur fjöldi greina eftir hann um guðfræðileg efni og samkirkjuleg en þau málefni eru honum hugleikin. Hann er meðal helstu forystumanna innan kristninnar þegar kemur að samræðu milli ólíkra trúarbragða.

Honum hefur verið sýndur margvíslegur sómi og hann hlotið verðlaun fyrir störf sín að friðarmálum, samkirkjulegum málum og trúarbragðasamræðumálum. Dr. Munib er heiðursdoktor frá Wartburg-háskólanum í Iowa og háskólanum í Münster í Þýskalandi.


  • Frétt

  • Fundur

  • Heimsókn

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Viðburður

  • Samfélag

For hope and future.jpg - mynd

Hjálparstarf Lútherska heimssambandsins gríðarlega mikilvægt

01. júl. 2024
...varaforseti skrifar um hjálparstarfið
Sr. Erla Björk Jónsdóttir

Vel mætt í bænastundir

30. jún. 2024
...í Dalvíkurkirkju