Allt er fertugum fært

22. júlí 2019

Allt er fertugum fært

Jón Bjarnason, organisti Skálholtsdómkirkju

Skálholtshátíð var umvafin fögrum tónum að vanda og henni lauk í gær.

Sagt er að orgelið sé drottning hljóðfæranna. Andspænis þessari drottningu í Skálholti situr ungur maður á sólbjörtum sumardegi, nýorðinn fertugur. Hógvær maður og glaðsinna. Það er Jón Bjarnason.

Fertugsafmæli eru dularfull tímamót og merkileg. En það voru líka önnur tímamót í lífi organistans í Skálholti. Það voru tíu ár liðin frá því að hann settist á orgelbekkinn í Skálholti og gerðist dómorganisti. Þessi ár hans hafa verið farsæl og gjöful, hann þjónað kirkju og söfnuði með miklum sóma. Áður en hann kom í Skálholt var hann organisti við Seljakirkju í Reykjavík. Nú er hann einnig kórstjóri Skálholtskórsins og Söngkórs Miðdalskirkju. Í Skálholtsprestakalli eru tíu kirkjur.

Það var eins og að líkum lætur mikið um að vera hjá dómorganistanum um helgina þegar Skálholtshátíð var haldin í fertugasta og þriðja sinn. Bachtónleikar á laugardeginum með Skálholtskórnum og fríðu föruneyti tónlistarfólks, tvær kantöntur fyrir altrödd og hjómsveit. Tíðindamaður kirkjan.is hitti Jón dómorganista í örskotsstund í gamla biskupshúsinu á sunnudeginum en hann var á leiðinni til að hita kórinn sinn upp fyrir hátíðarguðsþjónustuna. Sjálfur hafði hann verið orgeltónleika í kirkjunni fyrr um morguninn. Það rétt náðist að smella mynd af hinum glaðbeitta og ljúfa organista áður en hann sveif inn til kórsins síns. Stór stund var framundan eins og alltaf þegar gengið er í guðshús og Drottni sungin lof og dýrð.

Hvað er kirkja án organista?

Jón Bjarnason fæddist í Víðilundi í Skagafirði 13. júlí 1979 og hóf snemma tónlistarnám; lauk píanókennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 2003. Kantorsprófi frá Tónskóla þjóðkirkjunnar lauk Jón árið 2003 og einleiksáfanga frá sama skóla þremur árum síðar. Þá nam hann orgelleik við Konunglega tónlistarháskólann í Kaupamannahöfn 2011-2012.

Kona Jóns er Bergþóra Ragnarsdóttir og eiga þau eitt barn. Þau hafa búið í Reykholti í Biskupstungum en munu flytja um mánaðamótin að Laugarvatni.

Já, mannauður kirkjunnar er mikill.

 

Fjórar konur úr Skálholtskórnum 
  • Frétt

  • Menning

  • Messa

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Tónlist

  • Menning

  • Samfélag

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju