Sr. Jón Ásgeir Sigurvinsson varði doktorsritgerð

24. júlí 2019

Sr. Jón Ásgeir Sigurvinsson varði doktorsritgerð

Frá doktorsvörninni. Dr. Jón Ásgeir í miðju ásamt andmælendum sínum, þeim Göran Eidevall og Mariu Häusl

Sr. Jón Ásgeir Sigurvinsson varði doktorsritgerð við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands 4. mars síðastliðinn. Ritgerðin nefnist Sálmur Hiskía konungs sem ákall þjóðar og sáðkorn vonar. Textafræðileg greining á Jes 38.9-20. Göran Ivar Martin Eidevall, prófessor við Uppsalaháskóla og Maria Häusl, prófessor við kaþólsku guðfræðideildina við Technische Universität Dresden, voru andmælendur við vörnina.

Hinn s.k. þakkarsálmur Hiskía konungs í 38. kafla Jesajabókar hefur löngum þótt afar erfiður viðfangs, ekki síst vegna meints bágborins varðveisluástands hans. Rannsóknin felst í málfræðilegri og bókmenntafræðilegri greiningu og túlkun á byggingu sálmsins, merkingu og innra hlutverki einstakra hluta hans og tengsla þeirra hvers við annan, sem og á tilgangi sálmsins í bókmenntalegu og sögulegu samhengi sínu á grundvelli aðferðafræði við ritskýringu ljóðatexta G.t. sem Hubert Irsigler, prófessor emeritus við Albert-Ludwigs-Universität í Freiburg, hefur sett fram á breiðum grunni málfræðilegrar og bókmenntafræðilegrar ritskýringar.

Textarýni sálmsins leiðir í ljós að textinn hefur ekki spillst eins mikið í varðveislusögu sinni hvað einstök atriði varðar eins og áður hefur verið talið. Hins vegar gefur greining á dreifingu rittákna og hljóðunga („fónema“), ásamt ljóðrænni byggingu textans, sannfærandi vísbendingar um að ljóðlínan Jes 38.12e.13a hafi – líklega fyrir mistök við afritun – færst til af sínum rétta stað.

Nýstárleg túlkun á setningarfræðilegum tengslum í v. 16-17a, sem hingað til hefur verið talið óskiljanlegt, felur í sér að versið öðlast fullkomlega rökrétta merkingu í góðu samræmi við samhengi sitt, án þess að samhljóðum eða sérhljóðasetningu masoretíska textans sé hnikað. Skv. þessari túlkun reynir beiðandinn að vekja meðaumkun Drottins með því að vísa til þeirra sem lifa eftir að hann er fallinn frá. Á frásagnarsviði kafla 36-39 í Jesajabók gæti þetta vísað bæði til þegna Hiskía konungs sem og hans nánustu.

Greiningin á byggingu sálmsins og því hvernig hann er felldur inn í bókmenntalegt samhengi sitt leiðir í ljós að hann skortir skýr einkenni einnar tiltekinnar sálmategundar (Gattung). Þannig er ekki hægt að skilgreina hann sem dæmigerðan þakkargjörðarsálm; miklu frekar má lýsa honum sem svo að það sem einkenni hann séu byggingarleg einkenni harmljóða og yfirgnæfandi lengd hins tilvitnaða harmakveins ásamt traustsyfirlýsingu og vissunni um jákvæð viðbrögð Drottins (Gewissheit der Erhörung). Sálmurinn er því í sögulegu samhengi sínu fyrst og fremst tjáning harms og framsetning bænar útlaganna í Babýlon á 6. öld f. Kr. en virkar um leið sem hvatning fyrir þá bæn og næring fyrir vonina um bænheyrslu með fordæminu sem bænheyrsla Hiskía og traust hans á fyrirheiti Drottins setur.

Kirkjan.is óskar dr. Jóni Ásgeiri Sigurvinssyni til hamingju með lærdómsgráðuna. 


  • Frétt

  • Guðfræði

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Menning

  • Samfélag

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju