Spennandi Hólahátíð á sínum stað

15. ágúst 2019

Spennandi Hólahátíð á sínum stað

Hólastaður - myndina tók Árni Svanur Daníelsson

Samkvæmt venju er Hólahátíð haldin sunnudaginn í 17. viku sumars.

Dagskrá hátíðarinnar hefst laugardaginn 17. ágúst með helgistund í Grafarkirkju á Höfðaströnd. Að henni lokinni verður haldið í pílagrímagöngu og gengið heim að Hólum. Þegar þangað verður komið er gengið til kirkju, skírnin endurnýjuð og altarissakramentisins neytt. Fyrr um morguninn gefst fólki kostur á að ganga upp í Gvendarskál í Hólabyrðu en þar er fornt altari. Sagnir herma að Guðmundur Arason biskup hinn góði hafi farið þangað reglulega til bænahalds.

„Kraftmikið málþing hefst svo kl. 17.00 í Háskólanum á Hólum og stendur til kl. 19.00. Efni þess snýst um áhrif mennta- og menningarsetra í dreifbýli“, segir sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup á Hólum. Dagskráin er þessi:

Sigrún Magnúsdóttir, þjóðfræðingur og fyrrv. ráðherra, flytur erindi sem hún nefnir: Hólar-Hogworth.
Árni Daníel Júlíusson, sagnfræðingur, ræðir um Hóla sem höfuðborg Norðurlands – örlítið um biskupssetrið 1270-1800, hlutverk þess og stöðu.
Anna Guðrún Edvardsdóttir, menntunarfræðingur mun fjalla um hlutverk háskóla í mótun samfélaga í dreifbýli.
Vífill Karlsson, hagfræðingur, kallar erindi sitt: Grasrótin og gervigreind. Hann spyr hvort mennta- og menningastofnanir geti fleytt landsbyggðinni inn í framtíðina.

Aðgangur að málþinginu er ókeypis.

Að loknu málþingi er gestum málþingsins boðið í grillmat að hætti Hólastaðar.

Sunnudagurinn 18. ágúst hefst svo með orgeltónleikum í Hóladómkirkju en þar mun Rögnvaldur Valbergsson leika orgeltónlist allt frá Bach til Bítlanna og Freddy Mercury.
Hátíðarmessa í Hóladómkirkju verður kl. 14.00. Séra Gísli Gunnarsson, sóknarprestur í Glaumbæjarprestakalli, prédikar. Helga Rós Indriðadóttir, syngur einsöng, og auk þess syngja þær Áróra Ingibjörg Birgisdóttir, og Emilia Kvalvik Hannesdóttir. Jóhann Bjarnason sér um orgelleik. Veislukaffi verður í Undir Byrðunni að messu lokinni í boði Hólanefndar.

Sigrún Magnúsdóttir, þjóðfræðingur og fyrrv. ráðherra, flytur Hólaræðuna, í athöfn sem hefst kl. 16.00. Þar munu þær Helga Rós, Áróra Ingibjörg og Emila Kvalvik syngja. Rögnvaldur Valbergsson annast undirleik.
Í lokin flytur svo vígslubiskupinn á Hólum, sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir, ávarp.

Hólahátíð er kirkju- og menningarhátíð á síðsumri sem hefur mikið aðdráttarafl. Enginn sem er á þessum slóðum um þessa helgi ætti að láta hana framhjá sér fara.



Sigrún Magnússon, þjóðfræðingur og fyrrv. ráðherra 
flytur erindi á málþinginu og heldur Hólaræðuna 2019









  • Frétt

  • Menning

  • Messa

  • Ráðstefna

  • Samstarf

  • Tónlist

  • Trúin

  • Viðburður

  • Menning

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju