Vökukonan í Hólavallagarði

17. ágúst 2019

Vökukonan í Hólavallagarði

Ljóðabók Guðrúnar Rannveigar Stefánsdóttur er áhrifarík

Þetta er falleg ljóðabók eftir Guðrúnu Rannveigu Stefánsdóttur, sterk og áhrifarík í látleysi sínu; kom út nú í sumar. Bók eftir konu sem fjallar um konur – um konur í kirkjugarði.

Guðrún nokkur Oddsdóttir var fyrsta manneskjan sem grafin var í Hólavallagarði við Suðurgötu. Þessum fallega kirkjugarði í Reykjavík sem margir eiga leið um. Garði sem segir sögu lands og þjóðar, er minjasafn, já listasafn ef grannt er skoðað.

Guðrún var sýslumannsfrú og lést í nóvember 1838. Saga hennar var harmsaga. Hún missti mann sinn en sá var amtmaður, giftist öðru sinni miklum efnismanni, Þórði Sveinbjarnarsyni, síðar háyfirdómara í landsyfirréttinum, átti með honum fjögur börn en eitt átti hún með fyrri manni sínum. Börnin fimm missti hún - öll ung að árum. Heilsa hennar gaf sig, andleg og líkamleg, var 58 átta ára gömul þegar hún skildi i við. Barnið sem hún átti með fyrri manni sínum dó síðast, og það: „..beygði loks hugarkjark hennar, er aldrei framar náði sjer..“ segir Þórður í sjálfsævisögu sinni (bls. 57) sem kom út 1916, og að hún hafi fyllst sjúklegum kvíða yfir því að missa hann og standa ein eftir.

Þórður bauð að Guðrún yrði fyrsta manneskjan sem jarðsett yrði í hinum nýja kirkjugarði bæjarins við Suðurgötu. Víkurgarður, sá hinn frægi, var nánast útgrafinn. Enginn vildi vera hinn fyrsti til að hvíla í nýjum kirkjugarði. Sterk neikvæð hjátrú lifði í kringum það hlutverk og það var svo sannarlega ekki öfundsvert. Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar var hægt að lesa mergjaða lýsingu á vökumanninum, hann ýmist í rauðum klæðum eða grænum kjól, rauður í framan og órotnaður. Ófrýnilegur að sjá og ókyrrð í kringum leiði hans og því vildi enginn láta jarða sig nálægt því.

Í sjálfsævisögu Þórðar segir háyfirdómarinn og ekkillinn þetta:

„...þann 11. nóvember 1838 svipti guð mig lífsyndi mínu og aðstoð, minni góðu konu, Guðrúnu Oddsdóttur, og stóð jeg nú þannig aleinn eptir, barnlaus og aldurhniginn. ... Vegna hjátrúar vildi enginn láta ættingja sinn fyrstan grafa í garðinum, og varð því Bardenfleth glaður við, að jeg gekk í þessu á undan; slíka merkiskonu sem hjer var um að gjöra.“ (Ævisaga Þórðar Sveinbjarnarsonar, R. 1916, bls. 82).

Hún fékk legstað nyrst í garðinum. Mikill fjöldi fylgdi henni hinsta spölinn, á annað þúsund manns að sögn ekkilsins sem eru sorgarýkjur því að í bænum bjuggu um 1200 manns. Kirkjugarðurinn var vígður við þetta tilefni. 

Það var óvenjulegt að kona væri vökumaður í kirkjugarði. Höfundur segir að hlutskipti Guðrúnar Oddsdóttur sem vökukona Hólavallagarðs haldi nafni hennar helst á lofti.

Sú staðreynd og ævikjör hinnar mjög svo vel ættuðu Guðrúnar Oddsdóttur verður nöfnu hennar Guðrúnu Rannveigu að yrkisefni. Mörg ljóðanna í bókinni eru ort í hennar orðastað sem og annarra kvenna sem í garðinum hvíla. Hún gefur þessum konum rödd. Og gerir það með miklum sóma.

Vökukonan, Guðrún Oddsdóttir, og hlutverk hennar, er höfundi hugleikið. Hún setur fram sterkar og ljóðrænar lýsingar á sambandi vökukonunnar við náttúruna í garðinum, við lífríkið, og við dauðann. Hún er á mörkum lífs og dauða og skautar oft þar á milli. Ekki örgrannt um að höfundur finni ögn til með vökukonunni sem fær ekki hvíldina sem aðrir þar sem hún hefur það hlutverk að vaka í garðinum og taka á móti hinum látnu inn í heim dauðra á sama hátt og ljósmóðir tekur á móti hinum lifandi til lífsins.

Höfundur ber mikla virðingu fyrir yrkisefni sínu, fer um það mjúkum höndum og blíðum. Hér skilur kona konu, ef svo má segja. Það er fallegt samband höfundar við yrkisefnið sem rís upp af hverju ljóði hennar. 

Vökukonan spyr í ljóði sem heitir Að sjá Guð:

„hvenær mun hjarta mitt öðlast næði?“

Og hún bætir við:

„enginn veit sinn næturstað
ég veit minn næturstað
verð að sinna ætlunarverkinu
meðan aðrir hvílast
um ókomin ár“

Öll eru ljóðin ómþýð og vekja eðli máls ýmsar hugsanir um lífið og tilveruna, fallvaltleika lífsins og magnleysi mannsins frammi fyrir hrammi dauðans.

Ljóð sem ber einfaldlega nafnið Vakandi lýsir vel hlutverki vökukonunnar:

„Vakandi
meðan aðrir sofa
vakandi á fótum
meðan hinir
hvíla lúin bein...

Vökukonan í Hólavallagarði er gefin út af bókaforlaginu Sölku, með styrk frá Miðstöð íslenskra bókmennta og Kirkjugörðum Reykjavíkurprófastsdæmanna. Bókin er 90 bls. Hönnun bókarinnar er einstaklega falleg og smekkleg, rímar  enda við innihaldið. Kom reyndar á óvart að hún væri prentuð í Bosníu. 

Eitt í lokin. Það segir kannski einhverja dularfulla sögu að þegar farið er inn á vef forlagsins Sölku og bókin Vökukonan í Hólavallagarði skoðuð, fær lesandi þær upplýsingar að bókin Samningatækni sé oft keypt með Vökukonunni. Lesarinn athugi það!

hsh


  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Útgáfa

  • Menning

  • Samfélag

Hof í Vopnafirði

Laust starf organista

21. des. 2024
...við Hofsprestakall
Jólastemmning í Hafnarfjarðarkirkju

Forseti Íslands á jólavöku kirkjunnar

20. des. 2024
... haldið uppá 110 ára vígsluafmæli Hafnarfjarðarkirkju
Orgelnemendur við Klais orgelið

Börn fengu að að spila á Klais orgelið

19. des. 2024
...jólatónleikar Tónskóla Þjóðkirkjunnar