Stutta viðtalið: Brosið í Kirkjuhúsinu

20. ágúst 2019

Stutta viðtalið: Brosið í Kirkjuhúsinu

Edda Möller glöð í bragði að vanda

Margir segja að verslunin sé á besta stað á Laugaveginum með háan bogadreginn glugga niður að Vatnsstíg. Og sjálft húsið, eitt fallegasta við Laugaveginn, reist 1928 sem verslunarhús. Þar er gríska goðið Hermes á efstu svölum þess, verndari kaupmanna og ferðamanna. Allt umhverfið ilmar af sögu, húsið sjálft og næstu hús – Nóbelsskáldið fæddist á númer 32. Eirhlemmir í stéttinni fyrir framan húsið og handan götunnar minna á skáldið.

Hér í Kirkjuhúsinu – Skálholtsútgáfunni við Laugaveg 31 ræður ríkjum Edda Möller, framkvæmdastjóri. Hún hefur unnið við verslunina og útgáfuna í rúm þrjátíu ár.

„Byrjaði að vinna hjá Skálholtsútgáfunni þegar Biskupsstofa var í Suðurgötu 22,“ segir hún. „Síðan var útgáfan sameinuð versluninni Kirkjuhúsinu sem var á Klapparstíg. Kirkjuráð keypti þá verslun.“

En hún sást fyrst bak við búðarborðið í Kirkjustræti og síðar við Laugaveginn. Sást brosandi og sést enn, glöð og hressileg í bragði. Engan bilbug er að finna á henni. Ekki nein lognmolla heldur lífsins gleði og bjartsýni sem smitar út frá sér.

Edda hefur í mörg horn að líta.

„Það eru ekki bara afgreiðslustörfin sem eru krefjandi því hér er alltaf töluverð umferð í versluninni,“ segir hún „heldur líka útgáfumálin, móttaka gesta og gangandi sem reka inn nefið á Laugaveginum. Það er stórkostlegt að hitta allt þetta fólk og mjög gefandi. Prestar utan af landi, eða úr bænum. Allir eiga erindi í Kirkjuhúsið á öllum árstímum. Ekki síst á haustin þegar starf kirknanna fer á fullt, fermingarstarf og barnastarf. Alls konar starf. Við veitum prestunum og söfnuðum þjónustu með mikilli ánægju,“ bætir Edda við. „Og hingað eru allir velkomnir.“

Öflug útgáfustarfsemi

Skálholtsútgáfan er útgáfufélag þjóðkirkjunnar – og í eigu kirkjunnar. Hún hefur gefið út ótrúlega fjölbreytilegt efni undir stjórn Eddu á síðustu áratugum. Bækur handa börnum og fullorðnum, geisladiska og myndbönd. Þar er líka hægt að kaupa alls konar varning eins og krossa, kerti og myndir. Nú er rekin öflug heimasíða þar sem hægt er að skoða sig um í versluninni og kaupa það sem þarf. Það er nútíminn. Edda hefur haft ótrúlega næmni fyrir því sem hentar þessum markaði og þekkir hann manna best.

„Byrjum á söngnum“, segir Edda. „Söngvasveigurinn er barn okkar Margrétar Bóasdóttur. Hann varð til í kjallaranum í rektorsbústaðnum í Skálholti þegar Margrét var að gufusjóða kjötsúpu. Þetta var hraðsuðupottur og það voru óskaplega læti í honum. Söngvasveigsbækurnar eru orðnar sautján. Þær hafa stutt mjög vel við barnakórastarf og blandaða kóra. Sístætt efni, sálmar og söngvar á kristnum grunni. Lofgjörðarsöngvar og nýir sálmar frá öllum heimsálfum. Og klassík.“

Skálholtsútgáfan hefur gefið út milli fimm og sexhundruð titla á kristnum grunni frá upphafi.

Stærsta verkefnið sem er á könnu Eddu um þessar mundir er sálmabókin sem kemur út á næsta ári, 2020.

„Það er gríðarleg stemmning fyrir henni. Við erum búin að selja mörg þúsund eintök í forsölu. Það er sálmabók þjóðarinnar sem þarf alltaf að endurnýja með vissu millibili,“ segir Edda og spenningurinn leynir sér ekki. „Allir sem hafa komið að henni starfa við annað. Menn hafa notað frítíma sinn við undirbúninginn, notað íslensku leiðina og sett hausinn undir sig. Frábært starf. Og hún verður góð. Prentuð í Hollandi, prentuð á sérstakan sálmabókarpappír. Mjög þunnur og fínn pappír.“

Þessi undirbúningur hefur tekið mörg ár og Edda unnið með sálmabókanefndinni allan tímann.

„Fyrir jólin koma út fjóra bækur. Sagan af litla pabba og stóra pabba; Bókin um fyrirgefninguna – leiðin til að lækna sjálfan sig og heiminn, þýðing sr. Karls Sigurbjörnssonar á bók Desmond Tutu og dóttur hans, Mpho Tutu; Hvað er Biblían? eftir Rob Bell í þýðingu sr. Þorvalds Víðissonar. Svo bók sem heitir Dag í senn, hugleiðingar fyrir hvern dag ársins eftir sr. Karl Sigurbjörnsson,“ segir enda stolt í bragði. Ekkert uppgjafahljóð í útgáfukonunni.

„Svo kemur út ný skírnarbók, sem foreldrum barna er afhent við skírnina. Fræðsla um skírnina og trúna. Viðburðabók barnsins, hægt skrifa í hana það sem drífur á daga barnsins í bernsku,“ segir Edda.

Edda segir að Skálholtsútgáfan hafi tekið við Passíusálmaútgáfunni í umboði Hallgrímskirkju í vor. Ensk útgáfa kemur út núna á Hallgrímsdeginum, 27. október. Síðan fleiri erlendar útgáfur.

Breyting í vændum

Það verður mikil breyting í Kirkjuhúsinu-Skálholtsútgáfunni nú í haust þegar Biskupsstofa flytur í Katrínartún 4. Og útgáfan og verslunin með.

„Ég sé tækifæri í þessu,“ segir Edda og er hvergi bangin. „Nýtt umhverfi kallar á nýjar áskoranir sem við tökumst á við með jávæðu hugarfari. Allt breytist og þessi rekstur líka og við vinnum út frá aðstæðum hverju sinni. Ég hlakka til. En mun auðvitað sakna þessa glæsilega húss – og auðvitað koma engir verslunargluggar í staðinn fyrir gluggana í húsi Marteins Einarssonar við Laugaveg 31.“

Síðan brunar Edda eftir hvern vinnudag upp í Kjós en þar eiga þau sr. Einar Eyjólfsson, sumarbústað. Það er hvíldarstaður og staður umhugsunar – og líka opinberunar þegar hugmyndir um verkefni skjótast upp á milli trjánna sem umvefja þau hjónin.

Kirkjan er auðug þegar hún hefur svona kjarnorkufólk í þjónustu sinni eins og Eddu Möller.

Eirhlemmurinn til minningar um Halldór Laxness sem fæddist á Laugavegi 32

Hermes undir fána fjölbreytninnar 
  • Fræðsla

  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Skipulag

  • Fræðsla

  • Menning

  • Samfélag

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju