Boðað til aukakirkjuþings

21. ágúst 2019

Boðað til aukakirkjuþings

Safnaðarheimili Háteigskirkju

Boðað hefur verið til aukakirkjuþings miðvikudaginn 28. ágúst í safnaðarheimili Háteigskirkju kl. 16.00.

Í bréfi Drífu Hjartardóttur, forseta kirkjuþings, dagsett 20. ágúst, til kirkjuþingsfulltrúa, kemur fram að nefnd sú sem kirkjuþing skipaði til að ræða við ríkisvaldið um svokallað kirkjujarðasamkomulag, hafi ásamt fulltrúum ríkisins komist að niðurstöðu og liggi nú fyrir samningsdrög. Þessi drög hafa verið borin upp undir ráðherra ríkisstjórnarinnar og viðbrögð þeirra liggi fyrir.

Viðræður samninganefndar kirkju og ríkis hafa snúist um gerð viðbótarsamnings um endurskoðun á samkomulagi um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar frá 10. janúar 1997 og samningi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar um rekstrarkostnað vegna prestsembætta og prófasta, rekstrarkostnað Biskupsstofu, framlag til Kristnisjóðs og sérframlög til þjóðkirkjunnar frá 4. september 1998.

Óskað hefur verið eftir fundi með samninganefnd kirkjunnar hinn 23. ágúst n.k., og er gert ráð fyrir að það verði síðasti fundur aðila. Magnús E. Kristjánsson, fyrrv. forseti kirkjuþings, Óskar Magnússon rithöfundur og lögfræðingur, Jónína Bjartmarz, lögfræðingur, og Drífa Hjartardóttir, forseti kirkjuþings, eru fulltrúar kirkjunnar í viðæðunum við ríkið. 

Forseti kirkjuþings boðar til aukakirkjuþings til að ræða samningsdrögin og hvort kirkjuþing skuli samþykkja þau fyrir sitt leyti.

Sjá nánar núgildandi samninga:

https://kirkjan.is/library/Files/Adrar-heimildir/Samkomulag%20um%20kirkjujar%C3%B0ir%20og%20launagrei%C3%B0slu%201997%20-%20Copy%20(1).pdf

og

https://kirkjan.is/library/Files/Starfsreglur/Kirkjujar%C3%B0asamkomulag.pdf

  • Frétt

  • Fundur

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Skipulag

  • Þing

  • Viðburður

  • Samfélag