Stutta viðtalið: Nýjar leiðir farnar

22. ágúst 2019

Stutta viðtalið: Nýjar leiðir farnar

Gott skipulag styrkir starfið

Ástjarnarsókn er ekki gömul. Stofnuð árið 2001 og starfsemin hófst í Haukahúsinu á Völlum í Hafnarfirði.

Sókn var á öllum sviðum. Og sókn að myndast, stækka og dafna.

Þessi unga sókn fékk svo lóð á Kirkjuvöllum – hvað annað – og það númer 1 – árið 2006 í fallegu umhverfi. Og alls staðar í nágrenninu var verið að byggja hús. Hamarshöggin rufu kyrrð vallanna, gula byggingakrana bar við bláan himin og vinnuvélar bröltu um í mold og hrauni.

Fyrst var hún kölluð Vallasókn. Síðan fékk hún nýtt nafn, Ástjarnarsókn. Hún var önnur sókna í nýju Tjarnarprestakalli, hin var Kálfatjarnarsókn og sú var miklu eldri.

En það tekur tíma að reisa kirkju. Þess vegna voru færanlegar kennslustofur settar upp í hrauninu skammt frá þeim stað þar sem fyrirhugað var að kirkja risi í fyllingu tímans. Það var starfsstöð sóknarinnar í nokkur ár og allt gekk vel.

Nú er risið myndarlegt safnaðarheimili að Kirkjuvöllum 1 og kirkjuhús kemur síðar við hlið þess. Í safnaðarheimilinu fer öll kirkjuleg starfsemi fram í rúmgóðu húsnæði og björtu – og hljómburðurinn í salnum er framúrskarandi. Þaðan sést út yfir hraunið þar sem kirkjuhús mun síðar rísa en þar eru líka önnur tækifæri. Til að mynda væri hægt að setja upp snoturt útialtari í fallega gróinni hraunskál sem er steinsnar frá húsinu. En það bíður síns tíma.

Sr. Arnór Bjarki Blomsterberg er starfandi sóknaprestur í Ástjarnarsókn meðan dr. Kjartan Jónsson er í námsleyfi. Við hlið hans í vetur verður sr. Bolli Pétur Bollason. Tveir vaskir menn á besta aldri.

„Við ætlum að breyta aðeins til hér þegar haustið gengur í garð,“ segir sr. Arnór en hann er líka kallaður því viðkunnanlega nafni Nói – en sr. Arnór er ungur maður en hinn eini sanni Nói var oft kallaður gamli og verður því ekki ungi presturinn kallaður svo í stutta viðtalinu.

Syngjandi söfnuður

„Söngurinn er náttúrlega mikilvægur í öllu kirkjustarfi og nú ætlum við að reyna að fá söfnuðinn til að syngja meira en áður og erum viss um að því verði vel tekið,“ segir sr. Arnór og bætir því við að nýr organisti hafi verið ráðinn, Kári Allansson. „Það verður þess vegna enginn formlegur kirkjukór starfandi í vetur heldur er stefnt að því að söfnuðurinn hefji upp raust sína,“ segir hann með bros á vör. „Og kannski til að undirstrika breytinguna þá færum við messutímann frá kl. 11.00 til kl. 17.00 og klukkutíma fyrir messu þá eru allir velkomnir á æfingu þar sem farið verður yfir alla sálmana sem sungnir verða í messunni.“

Sr. Arnór segir mikilvægt að söfnuðurinn sé virkur í guðsþjónustunni og breytingin sé gerð með það í huga. „En barnakór Ástjarnarkirkju verður á sínum stað,“ segir hann. „Kórinn mun leiða safnaðarsönginn einu sinni í mánuði.“

En það er ekki bara að breyting verði í sönglífi safnaðarins heldur verður meiri áhersla lögð á að guðsþjónustan sé fjölskyldustund. „Við ætlum að laga messuliðina að sem breiðustum hópi. Auðvitað verða bænir og prédikun á sínum stað. En við ætlum að leggja áherslu á Biblíusögur, frásagnir Biblíunnar. Leggjum fyrst í Gamla testamentið fyrir áramót og svo það Nýja eftir áramót,“ segir sr. Arnór og telur að mjög mikilvægt sé að efla kunnáttu fólks í Biblíusögunum og fræða það um Biblíuna.

Sr. Arnór segir að komi verði upp dálitlu barnarými í safnaðarheimilinu þar sem börn sem vilja geti litað og leikið sér án þess að fara úr guðsþjónustunni.

En það eru líka fleiri spennandi nýjungar á döfinni í Ástjarnarsókn. Eftir hverja messu frá og með næsta sunnudegi, 25. ágúst, verður heitur matur í safnaðarheimilinu og fyrir hann þarf ekki að borga nema fólk vilji. Þess vegna kemur færsla á messutímanum frá klukkan 11.00 til kl. 17.00 sér heldur betur vel! „Tíminn smellpassar,“ segir sr. Arnór brosandi. „Og það verður karfa fyrir frjáls framlög. Bæði til að standa straum af kostnaði við matinn og eins ef vel gengur getur það orðið með tímanum vísir að safnaðarsjóði sem hægt væri að veita úr til þeirra sem standa höllum fæti í sókninni.“

Lifandi kirkja reynir alltaf fyrir sér eitthvað nýtt til að koma boðskap fagnaðarerindisins á framfæri við nýjar kynslóðir. Hún gleymir því þó aldrei að hún stendur á gömlum merg.

Sóknarbörn í Ástjarnarsókn eru ung að árum – meira en 90% þeirra eru undir 67 ára aldri.

Kirkjan.is mun fylgjast með hvernig til tekst með þessar nýjungar í Ástjarnarsókn og óskar söfnuðinum góðs gengis.

Ástjarnarkirkja rís upp úr helluhrauninu eins og virki

Altari Ástjarnarkirkju er stílhreint og látlaust




  • Frétt

  • Kærleiksþjónusta

  • Menning

  • Messa

  • Samfélag

  • Trúin

  • Viðburður

  • Menning

  • Samfélag

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju