Fólkið í kirkjunni: Hún Sóley Adda

12. september 2019

Fólkið í kirkjunni: Hún Sóley Adda

Sóley Edda og brúðan Vaka

„Ég er að norðan“, svarar hún undanbragðalaust þegar spurt er hvaðan hún sé. 

Alin upp til fimm ára aldurs á Haukagili í Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu. Bernskukirkjan hennar var Undirfellskirkja í Vatnsdalnum miðjum þar sem hólarnir óteljandi eru ekki langt frá. Það er kirkjustaður frá fornu fari og núverandi kirkja var reist árið 1915. Kirkjan á Undirfelli er falleg og unga stúlkan að norðan man vel eftir henni og hefur oft komið í hana. Altaristaflan er eftir engan annan en Ásgrím Jónsson, listmálara.

Sóley Adda Egilsdóttir fluttist suður tl Reykjavíkur barn að aldri. Hún fermdist í Árbæjarkirkju og þar kynntist hún kirkjulegu starfi og heillaðist af því. Fór í Leiðtogaskólann og stóð sig þar með mikilli prýði. Hún fékk strax tilboð um starf.

Hún er á fullu í æskulýðsstarfi kirkjunnar og áhuginn leynir sér ekki hjá henni. Hún er í stjórn Æskulýðssambands kirkjunnar í Reykjavíkurprófastsdæmum (ÆSKR) og Æskulýðssambands þjóðkirkjunnar (ÆSKÞ). Hefur verið í æskulýðs- og barnastarfi í fjölmörgum kirkjum á höfuðborgarsvæðinu og er með mikla reynslu í kirkjulegu starfi þó ung sé að árum. Um tíma bjó hún í Noregi og tók þátt í starfi íslenska safnaðarins í Ósló. Nú kemur Sóley Adda að barnamessum í Bústaðakirkju og Grensáskirkju og horfir bjartsýnum augum til vetrarins í hinu nýja prestakalli, Fossvogsprestakalli.

„Það er skemmtilegast að hitta börnin og vera með þeim,“ segir hún og bros hennar er hlýtt, „og sjá hvað þeim þykir gaman.“

Hún heldur á leikbrúðunni Vöku sem er skjaldbaka. Og það er stutt í leikinn hjá Sóleyju Öddu og Vaka vaknar strax til lífsins. Hér er augljóslega góður brúðuleikari að störfum.

Sóley Adda er nítján ára gömul og stundar nám í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Hún er á nýsköpunarbraut.

„Og hvað er það nú eiginlega?“ spyr kirkjan.is. „Nýsköpunarbraut?“ Ekki stendur á svari.

„Það er alls konar,“ segir Sóley Adda. Hugsar sig aðeins um og bætir við: „Upplýsingatækni, myndlist, forritun, vefmiðlun. Já, við smíðum og tökum rafmagnsáfanga.“

Já, svo sannarlega er fengist við margt skapandi á nýsköpunarbraut eins og orðið ber með sér. „Það er líka rosalega skapandi að taka þátt í kirkjulegu starfi,“ segir Sóley Adda og kann greinilega vel við sig á þeim vettvangi þar sem sköpunarkraftar hennar nýtast.

„Ég er að hugsa um að fara í djáknanám þegar ég er búinn með skólann,“ segir hún. „Margt í því hentar mér örugglega miðað við það sem ég hef séð af því í kirkjulegu starfi.“

Sóley Adda er ung kona að störfum í kirkjunni. Öflug kona og áhugasöm. Kirkjan þarf ekki að kvíða neinu þegar hún hefur á að skipa kraftmiklu fólki. Það er mikill mannauður.

Sóley Adda Egilsdóttir, æskulýðsleiðtogi, er ein af þeim fjölmörgu sem stendur við bakið á kirkjunni sinni.

Kirkjan er söfnuðurinn. Fólkið.

 

Leikræn tilþrif hjá Sóleyju Öddu og Vöku skjaldböku




  • Æskulýðsmál

  • Barnastarf

  • Fræðsla

  • Frétt

  • Samfélag

  • Fræðsla

  • Samfélag

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju