Bjartsýnir og glaðir organistar

13. september 2019

Bjartsýnir og glaðir organistar

Orgelpípur og organistar vinna saman að listsköpun

Það var glaður og bjartsýnn hópur organista sem kom saman á organistastefnu í Skálholti 8.-9. september s.l., en haust- og vetrarstarf kirknanna er óðum að hefjast.

Organistar gegna mikilvægu starfi í þjóðkirkjunni en þeir stýra tónlistarstarfi safnaðanna í samráði við presta, sóknarnefndir og annað starfsfólk s.s. stjórnendur annarra kóra safnaðanna og starfsfólk í barna- og æskulýðsstarfi.

Söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, Margrét Bóasdóttir, boðar árlega til organistastefnu með organistum þar sem fagleg mál eru rædd og kirkjutónlistin blómstrar. 

Margt var á dagskrá organistastefnunnar sem var sú fimmta í röðinni. 

Laganefnd Sálmabókarnefndar kynnti hljómsetningu sálma í sálmabókinni sem er í vinnslu en sálmabókin kemur út á næsta ári.

Þá fluttu þeir Guðmundur Sigurðsson, formaður Kirkjutónlistarráðs, og Eyþór Franzson Wechner, organisti Blönduóskirkju, framsöguerindi um áhrif nýrra starfsreglna á starf organistans og aðstæður organistans sem hefur háskólamenntun en er aðeins í hlutastarfi.

Líflegar umræður fóru fram um framtíð organistastarfsins á grundvelli nýrra starfsreglna um kirkjutónlist sem samþykktar voru á kirkjuþingi 2017. Sjá hér.

Þátttakendur voru rúmlega 20 talsins, nutu samvista og blíðviðris sem lék um Skálholt.

Í ár var augum og eyrum beint sérstaklega að kórsöngnum. Þátttakendur mynduðu kór undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar, kór- og hljómsveitarstjóra. Sálumessa eftir franska tónskáldið Gabriel Fauré var æfð og flutt á tónleikum í Skálholtskirkju í lok stefnunnar. Björn Steinar Sólbergsson lék með á orgel kirkjunnar og Margrét Bóasdóttir og Bjartur Logi Guðnason sáu um einsöngshlutverk.

Eldri borgurum í uppsveitum Árnessýslu var boðið til tónleikanna og voru gestir glaðir og þakklátir fyrir boðið.

Notalegt og uppbyggilegt andrúmsloft er í Skálholti
  • Fræðsla

  • Frétt

  • Fundur

  • Menning

  • Námskeið

  • Samfélag

  • Tónlist

  • Fræðsla

  • Menning

  • Samfélag

  • Námskeið

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju