Merk tímamót í Skálholti

16. september 2019

Merk tímamót í Skálholti

Sr. Agnes biskup, Vigdís og Sigríður, planta trjám í Skálholti

Jörðin er eins og eitt stórt gróðurhús og hin margnefndu gróðurhúsaáhrif eru henni nauðsynleg upp að vissu marki og hefur náttúran sjálf séð um það jafnvægi. En manninum sést ekki alltaf fyrir og með athafnasemi sinni er talið að hann hafi raskað vistkerfinu með þeim afleiðingum að veðurfar hefur tekur breytingum, hiti stigið ískyggilega og yfirborð sjávar hækkað.

Maðurinn puðrar út ýmsum gróðurhúsalofttegundum í daglegu lífi sínu og framkvæmdagleði.

Flugglöð kynslóð þýtur milli heimshluta, menn aka vítt og breitt á glæsivögnum. Og eitt skínandi hvítt skemmtiferðaskip á hæð við sæmilegt fjölbýlishús liggur inni við Sundahöfn og andar frá sér eitruðum mekki yfir sundin blá.

Og hvað er til ráða er spurt?

Ekki stendur svosem á svörum enda hlýnun jarðar eitt aðal umræðuefni líðandi stundar svo margir fá kaldan hroll af því einu saman að hugsa um vandann.

„Fáðu þér rafbíl eða metan, kannski tengitvinnibíl? Hvar er hjólið þitt? Veistu ekki að strætó er til? Geturðu ekki dregið úr þessu flugrápi þínu milli landa?“ heyrist úr ýmsum hornum.

„Plantaðu trjám. Hvað sagði ekki Ari fróði: Landið viði vaxið milli fjalls og fjöru?“

Ýmsir taka djúp andköf því þetta gæti kallað hugsanlega á breyttan lífsstíl sem er oftast nær á könnu hinna á næsta bæ. Það getur tekið á að kolefnisjafna, eins og það er kallað, daglega athafnasemi sína sem hefur í för með sér fullmikið útstreymi af gróðurhúsalofttegundum.

En það er ekki nóg að tala. Tími athafna er runninn upp. Og margt smátt gerir eitt stórt til að koma á jafnvægi í kolefnisbúskap jarðar.

Kirkja og umhverfismál eru nú í brennidepli.

Það eru því merk tímamót í viðburðaríkri sögu Skálholts að þar skuli vera tekinn frá reitur til að gróðursetja trjáplöntur í því skyni að minnka áhrif af útstreymi gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftið af mannavöldum.

Dagur íslenskrar náttúru er haldinn 16. september. Það var því ekki tilviljun að hann var valinn fyrir þau tímamót þegar fulltrúar nokkurra sókna komu saman í Skálholti í dag ásamt öðrum til að gróðursetja tré til að kolefnisjafna starfsemi sína. Skógrækt hefur auk þess verið viðurkennd sem góð leið til að virkja almenning til að stemma stigu gegn óhæfilegu magni gróðurhúsalofttegunda sem hafa safnast saman í andrúmsloftinu.

Nokkru fyrir ofan Skálholtsbúðir var búið að stika stíg suður á holt eitt þar sem má sjá gróðurrof. Þetta er staðurinn þar sem tré skulu gróðursett í þessum tilgangi. Sóknirnar sem ríða á vaðið eru Hallgrímssókn, Breiðholtssókn, Kársnessókn, Skálholtssókn. Þá kemur einnig að gróðursetningunni starfsfólk Biskupsstofu og starfsfólk Skálholts.

Hreinn Óskarsson, fyrrverandi skógræktarstjóri Suðurlands, ræddi um verkefnið og sýndi hvernig menn skyldu bera sig að við gróðursetninguna.

Allir viðstaddir voru mjög áhugasamir um verkið og hver trjáplantan af annarri fékk bólfestu í landi Skálholts á þessum sólríka haustdegi.

Sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup, og sr. Halldór Reynisson, stýrðu helgistund í lok gróðursetningar. Snætt var í lokin í Skálholtsbúðum.

 

Vígslubiskup, Hallgrímskirkjuprestur og leikmaður unnu vel saman í gróðursetningunni

Vaskur hópur var kominn til starfa í Skálholti á Degi íslenskrar náttúru

Sr. Sighvatur Karlsson hampar plöntusprota og könnu

Ýmsar nánari upplýsingar:

Græn kirkja

Kolviður

Kolefnisjöfnun o.fl.


  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Viðburður

  • Menning

  • Samfélag

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju