Bylting í miðlun Biblíunnar

17. september 2019

Bylting í miðlun Biblíunnar

Ritningin talar með ýmsu móti til manna – stjórnarmaður Hins íslenska Biblíufélags, dr. Grétar Halldór Gunnarsson, segir frá tækninýjung við miðlun á texta Biblíunnar

Hið íslenska Biblíufélag er elsta starfandi félag landsins, stofnað 1815. Og það er svo sannarlega önnur veröld árið 2019 en 1815 og um það þarf ekki mörg orð. En félagið lætur aldurinn ekki draga úr sér kjark til að nýta öll nútímaleg tækifæri til að miðla boðskap Biblíunnar áfram.

Kirkjan.is tók einn stjórnarmanna Hins íslenska Biblíufélags tali, dr. Grétar Halldór Gunnarsson, prest í Grafarvogskirkju, í tilefni merkra tímamóta í miðlun á texta Biblíunnar.

„Biblíufélagið stóð fyrir hópfjármögnun til að hljóðrita Nýja testamentið svo hægt væri að hlusta á það í snjalltækjum, snjallforritum og tölvum,“ segir dr. Grétar Halldór. „Fjöldi fólks studdi verkefnið og var lestur á Nýja testamentinu tekinn upp í vor“, bætir hann við.

Upptökur fór fram hjá Hljóðbók.is og tókust mjög vel að sögn hans.

Það var úrvalshópur leikara sem lagði verkinu til raddir sínar: Arnar Jónsson, Kristján Franklín Magnúss, Guðjón Davíð Karlsson, Guðrún Ásmundsdóttir, Ragnheiður Steindórsdóttir, Steinunn Jóhannesdóttir og Þóra Karítas Árnadóttir.

„Þetta er fólk á öllum aldri og allt saman flottir lesarar,“ segir dr. Grétar Halldór.

Segja má að þetta sé bylting í boðun og miðlun fagnaðarerindisins.

Hver hefur ekki séð fólk með heyrnartæki tengd símum í strætó, flugvélum, á fjöllum og hvar sem er? Hver og einn hlustar á það sem hann eða hún kýs. Bók, tónlist eða fyrirlestur.

Nú er hægt að kjósa Nýja testamentið. Sitja í strætó eða flugvél og hlusta á hvaða rit þess sem er. Hlusta við hin víðfrægu heimilisstörf þegar verið er að ryksuga og taka til. Brjóta saman þvott eða setja í uppþvottavélina. Hvar sem er og við hvaða störf sem er. Enda er kjörorð Biblíufélagsins nú: „Með orð Guðs í eyrunum - Hvar sem er og hvenær sem er!“

Notast er við biblíuappið Youversion og eins er hægt að hlusta á biblian.is, heimasíðu Hins íslenska Bibíufélags.

„Nú stendur til að koma lestrinum á Storytelling,“ segir dr. Grétar Halldór og á honum er engan bilbug að finna, „þar eru um 15 þúsund manns með áskrift.“

Kirkjan.is óskar Hinu íslenska Biblíufélagi hjartanlega til hamingju með merkan áfanga í sögu þess.

Sjá nánar:

Biblíuappið
Biblían

 

Biblían á pappír og í símaappi












  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Útgáfa

  • Viðburður

  • Menning

  • Samfélag

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju